Vegáætlun 1995--1998

77. fundur
Fimmtudaginn 26. janúar 1995, kl. 16:26:22 (3587)


[16:26]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hv. þm. hafði ekki rétt eftir það sem ég sagði beint fyrir framan nefið á honum og má kannski segja að það sé ekki í fyrsta skiptið. Það sem ég sagði var að það er lagaskylda mín að leggja hér fram þessa vegáætlun og það væri eðlilegt að samþykkja hana. Hún er nauðsynlegt til þess að við getum hafist handa, hún er líka nauðsynleg viðmiðun. Ef hún verður samþykkt stendur meiri hluti Alþingis á bak við hana.
    Það skilur hins vegar á milli mín og hv. þm. þegar hann hefur völdin og hans maður er samgrh. að ég er ekki að reyna að troða niður um kokið á þingmönnum langtímaáætlun til 12 ára á síðustu dögum þingsins eins og hann reyndi að gera fyrir fjórum árum og eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon reyndi að gera sem samgrh. Ég var að minna á að ef þessir tveir þokkapiltar hefðu ráðið ferðinni núna þá væri það ekki í sjónmáli að vegur yrði lagður yfir Möðrudalsöræfi og Hólsfjöll enda er það þeirra stefna að fara aðrar leiðir í þeim efnum.
    Ég held þess vegna að það sé algjörlega ljóst að það er í fyrsta lagi þinglegt og í öðru lagi bráðnauðsynlegt að þessi vegáætlun sem hér liggur fyrir verði afgreidd á þessu þingi nú til þess að hægt verði að hefjast handa þar sem hún er grundvöllur framkvæmda á þessu ári og hinu næsta. Það bíður nýrrar ríkisstjórnar að leggja endurskoðaða vegáætlun fram að liðnum tveimur árum og leggja fram tillögur að langtímaáætlun.
    Hins vegar má auðvitað deila um það og ég er raunar þeirrar skoðunar að langtímaáætlun til 12 ára sé til of langs tíma, reynslan hafi sýnt að það kunni ekki góðri lukku að stýra að reyna að teygja sig svo langt til framtíðarinnar, til þeirra ófyrirsjáanlegu hluta sem maður getur ekki gert sér grein fyrir.