Vegáætlun 1995--1998

77. fundur
Fimmtudaginn 26. janúar 1995, kl. 16:38:39 (3595)


[16:38]
     Árni M. Mathiesen (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er alltaf ánægjulegt þegar maður getur uppfrætt hv. samþingmenn sína um eitthvað og ánægjulegt þegar þeir eru þakklátir fyrir uppfræðsluna.
    Hv. þm. Jóna Valgerður Kristjánsdóttir nefndi þann flokk sem nefndur hefur verið Sérstök verkefni en hann er ekki að finna í þessari tillögu til vegáætlunar og hann var heldur ekki að finna í tillögu til síðustu vegáætlunar sem samþykkt var fyrir tveimur árum, að mig minnir. Það segir hins vegar ekkert um að það megi ekki endurvekja þann flokk einhvern tímann en það hefur hins vegar verið farið út í sérstakar framkvæmdir undir öðrum liðum en Sérstök verkefni og þá er kannski rétt að geta þess að jarðgangagerð á Vestfjörðum fer ekki fram undir liðnum Sérstök verkefni heldur undir liðnum Stórverkefni. Það eru sjálfsagt gildar ástæður fyrir því alveg eins og ég tel gildar ástæður fyrir því að þær framkvæmdir sem lagt er til að farið verði í á höfuðborgarsvæðinu séu undir sérstöku framkvæmdaátaki. Enda á sá flokkur sem hét Sérstök verkefni sér sérstaka sögu og féll niður í síðustu vegáætlun eins og þingmaðurinn væntanlega veit þar sem hann sat þá í samgn. og voru sérstakar ástæður fyrir honum sem ég ætla ekki að fara út í að rekja hérna núna.