Vegáætlun 1995--1998

77. fundur
Fimmtudaginn 26. janúar 1995, kl. 16:41:09 (3597)


[16:41]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Mig langaði til að bæta fáeinum atriðum við þá ræðu sem ég hélt áðan. Ég vil fyrst áður en ég held áfram að fara yfir það plagg sem við höfum til umræðu koma með upplýsingar um þróun fjárveitinga til almennrar vegagerðar sem eru athyglisverðar og full ástæða fyrir hæstv. ráðherra til að hlusta á það sem þar kemur fram. Ég ætla að fresta því um stund að fara yfir það vegna þess að ráðherrann er ekki í hliðarsal eins og er en snúa mér þá að framhaldi ræðunnar.
    Ég var kominn þar í ræðunni þar sem ég hafði talað um að fyrir endurnýjun malarslitlaga væri ekki nægilega vel séð í þessari áætlun. Ég vil endurtaka að það er einungis gert ráð fyrir 70% af áætlaðri þörf fyrir malarslitlög en hins vegar er alveg skelfilegt ástand á malarvegum víða um landið og það er full ástæða fyrir samgn. að skoða það betur hvort ekki þurfi að fara yfir þetta atriði.
    Einnig langar mig til þess að koma að viðhaldi brúa því upplýsingarnar sem fylgja með í þessu plaggi um ástand brúa í landinu eru nú satt að segja ekki mjög upplífgandi. Þar kemur það fram að stór hluti af brúnum, sem eru í notkun í landinu, hafi ekki nægilegt burðarþol. Það kemur t.d. fram að ófullnægjandi burðarþol sé á samtals 130 brúm af alls 369 sem eru í notkun. Mér sýnist að þarna hljóti að vera á ferðinni verulega mikið vandamál sem menn þurfi að hafa áhyggjur af. Síðan kemur það líka fram um breidd brúa, sem er flokkuð eftir umferð, að 288 brýr eru mjórri en 6 m af 369 brúm alls. Það þekkja auðvitað allir hv. þm. hvaða hætta stafar af þessum mjóu brúm sem eru víða um landið og þarna er greinilega þörf á miklu átaki til lagfæringa. Ég held að það sé eins og þarna stendur á bls. 31 í kverinu að þar er talað um að það megi gera ráð fyrir því að þær fjárveitingar sem hér er gert ráð fyrir til brúa og varnargarða verði ófullnægjandi. Það hefði þurft að undirbúa þetta svolítið betur og menn hefðu þurft að hafa betri upplýsingar og nákvæmari því ég geri ráð fyrir því að vilji manna til þess að taka t.d. á breidd brúa og burðarþoli geti verið kannski meiri en til ýmislegs annars. Það eru mjög skelfilegir hlutir sem hafa gerst á þessum mjóu brúm okkar og maður talar ekki um ef við þurfum að fara að hafa áhyggjur af því að þær muni bara hreinlega gefa sig.

    Ég sé að hæstv. ráðherra er kominn og heyrir mál mitt. Mig langar til þess að fara yfir fáeinar tölur sem lýsa því sem hefur verið að gerast á undanförnum árum í þróun fjárveitinga til almennrar vegagerðar. Þrátt fyrir að hæstv. ríkisstjórn hafi básúnað út hvað hún hafi gert stórkostlega hluti í vegamálum þá hefur ekki miðað eins mikið og menn gætu haldið eftir þeim ræðuhöldum. Ég ætla að grípa niður í stöðuna eins og hún hefur verið frá 1982 og þá eru innifaldar í þessum tölum fjárveitingar til almennra verkefna, bundinna slitlaga og sérstakra verkefna á stofnbrautum og þjóðbrautum og brúargerð. Í tölunum er líka 37,5% fjárveitingar til Ó-vega og þá er einnig meðtalinn sá hluti fjármagns til sérstakra framkvæmdaátaka sem hefur farið til ofangreindra verkefna. Það er ekki talið þarna með stórverkefni höfuðborgarsvæðisins og 63% af fjárveitingum til Ó-veganna. Þessar tölur eru teknar úr skýrslum samgrh. um framkvæmd vegáætlunar. Tölurnar 1994 eru samkvæmt vegáætlun. Tölur 1995 eru samkvæmt fyrirliggjandi till. til þál.
    Svo að menn hafi samanburð þá er á árinu 1982, og allt er þetta á sama verðlagi, þ.e. á áætluðu verðlagi ársins 1995 eða vísitölu vegagerðar 4.990, þá eru til almennrar vegagerðar 2 milljarðar 542 millj. kr. Þetta lækkar síðan niður í 2 milljarða og 70 millj. kr., nálægt því á næsta ári þar á eftir. Árið 1984 er þetta aftur í tæplega 2,5 milljörðum, 1985 2,2 milljarðar, 1986 2,2 milljarðar, 1987 dettur þetta niður í 1.867 millj., 1988 1.920 millj., 1989 1.788 millj., 1990 1.739 millj., 1991 1.608 millj., dettur þá verulega niður. Árið 1992, og þá ef hafinn ferill ríkisstjórnarinnar í málinu, 1.828 millj. og 1993 þegar stóra framkvæmdaátakið er í vegamálum 2.293 millj., 1994 1.761 millj. og 1995 samkvæmt áætlun 1.657 millj. kr.
    Ég held að það þurfi ekki að fara yfir þessar tölur aftur, menn hafa áttað sig á því hver stefnan er í þessu, hvernig þetta hefur þróast. Almennar fjárveitingar til vegagerðar hafa skroppið saman á þessu tímabili frá 1982 um langleiðina í heilan milljarð á ári, þrátt fyrir öll átök og yfirlýsingar um afrek í vegamálum þá hefur þetta verið á þessari leið. Því miður. Auðvitað þekkja hv. þm. skýringarnar á þessu sem eru margar, m.a. þær sem hæstv. ráðherra hefur verið að nefna, kostnaður vegna ferja og flóabáta, sem ekki var áður inni á vegáætlun og hæstv. ráðherra lét yfir sig ganga að kæmi þar inn án þess að auknar tekjur kæmu. Nú hefur hæstv. ráðherra auðnast að fá auknar tekjur til vegamála en þær eru skilyrtar með þessum sérstaka hætti sem hér hefur verið rætt um, þ.e. að nú er breytt algjörlega út frá þeim reglum sem menn hafa notað til viðmiðunar og gert með þeim hætti að það er óásættanlegt að þannig sé að farið. Ég endurtek að það ber ekki að skilja mín orð þannig að ég sé á móti því að menn endurskoði hve mikið eigi að koma til framkvæmda á höfuðborgarsvæðinu, ég tel að full ástæða hafi verið til að fara yfir þær reglur sem menn hafa lagt til grundvallar og skoða þær vandlega og breyta þeim til samræmis við þarfirnar. Menn eru að fullyrða að þessar þarfir séu miklu meiri hér en annars staðar á landinu og þá er ástæða til þess að fara nákvæmlega yfir þá hluti, skilgreina þá og skoða, en ekki að sletta fram á einhverjum blaðamannafundi úti í bæ ákvörðun um það að nú eigi allt í einu að fara að úthluta stóru framkvæmdaátaki í vegamálum bara eftir höfðatölureglu.