Vegáætlun 1995--1998

77. fundur
Fimmtudaginn 26. janúar 1995, kl. 16:49:38 (3598)


[16:49]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er gaman að talnaleik og það er auðvitað mjög skemmtilegt að bera saman fjárveitingar til vegagerðar og samgöngumála frá einum tíma til annars. En ég átta mig ekki alveg á því hvað þingmaðurinn er að sýna fram á í þessum samanburði þar sem í hans tölum er sleppt fjárveitingum til stórverkefna, fjárveitingum til höfuðborgarsvæðisins, og 63,5% af fjárveitingum til Ó-veganna. Það er alveg ljóst að þær tölur sem hann er með eru valdar þannig að þær sýna ekki nema hluta af myndinni og þá er augljóst að hv. þm. er að reyna að gefa eitthvað í skyn sem er ekki sannleikanum samkvæmt ef hann er allur tíndur til.
    Ef við horfum á þetta tímabil, ég er því miður ekki með árið 1982 við höndina, ég hef 1983. Samkvæmt hans tölum er verulega meira fé veitt til vegagerðar á árinu 1982, ég er ekkert að segja að það sé eitthvað viljandi eða óviljandi miðað við það ár, ég hef það ekki við höndina, því miður. En á árinu 1983 var samtals varið til vegagerðar 5 milljörðum 121 millj. kr. á samsvarandi verðlagi sem á þessu ári er 6 milljarðar 942 millj., það munar 1.800 millj.
    Ef við berum saman einstök ár þá kemur í ljós að á árinu 1993 voru 7 milljarðar 276 millj. til vegamála á móti 5 milljörðum 686 millj. á árinu 1991 og það var heldur minna árið áður. Það er líka alveg laukrétt að það er ívið minna 1994 og 1995 en 1993, 300 millj. kr. minna en samt sem áður með því hæsta sem verið hefur og hærra en næstu 10 ár á undan. Þannig að það er alveg ljóst að meira fé er varið til vegagerðar nú en verið hefur þó e.t.v. megi finna einhverja þætti innan vegáætlunar sem ekki sýna þá mynd.