Vegáætlun 1995--1998

77. fundur
Fimmtudaginn 26. janúar 1995, kl. 16:54:20 (3600)


[16:54]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég hélt að hv. þm. væri kunnugur úti á landi og vissi að drýgst til þess að lækka rekstrarkostnað við heimilisbílinn væri að bæta vegina og á það raunar við á fleiri stöðum svo að ég held að það sé ekki hægt að tala eins og það tvennt sé óaðskilið og komi hvort öðru ekki við.
    Ég stend einungis annars upp til þess að segja það mína skoðun að það eru síður en svo horfur á því að framkvæmdir í vegamálum muni dragast saman á næstu árum borið saman við það sem verið hefur. Þó mikið hafi verið á síðustu tveimur árum þá eru horfur á því að framkvæmdir kunni að verða enn þá meiri á næstu missirum, bæði samkvæmt þessari vegáætlun sem er mjög gætileg, það er ekki gert ráð fyrir nema 1,5% vexti umferðar í landinu en gæti vel orðið 2--2,5% sem munar verulegu í vegafé ef sá bati yrði hér í efnahagslífi sem við öll þykjumst sjá fram á. Svo vil ég nú minna hv. þm. á það að enn standa vonir til þess að okkur muni takast að ná samningum um fjáröflun til jarðganga undir Hvalfjörð sem auðvitað kemur til viðbótar því sem við erum hér að segja þar sem þau jarðgöng verða fjármögnuð með sérstökum hætti. Þannig að það er síður en svo að það stefni í það nú að framlög til vegamála fari minnkandi.