Vegáætlun 1995--1998

77. fundur
Fimmtudaginn 26. janúar 1995, kl. 16:58:19 (3602)


[16:58]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Það er nokkuð skemmtilegt að vera hér saman komin til að ræða till. til þál. um vegáætlun í þessum stutta kosningakafla þinghaldsins hér sem verða einar 4--5 vikur. Ég er þá sérstaklega að hugsa um það að hæstv. núv. samgrh. hafði þá afstöðu á sínum tíma að það væri hið mesta óráð, beinlínis rangt að menn væru að afgreiða vegáætlun svona rétt fyrir kosningar. Það vill svo til að ég mundi þessi ummæli og fletti upp á þeim núna áðan mér til skemtunar. Ég vil byrja á því að spyrja hæstv. samgrh. hvort hann sé enn sama sinnis, því að 16. febr. 1993, þegar vegáætlun fyrir árin 1993--1996 var hér til umræðu þá sagði hæstv. ráðherra í andsvari við hv. þm. Guðmund Bjarnason, sem hafði rætt um þessi vinnubrögð í sambandi við vegáætlun, með leyfi forseta:
    ,,Um þetta er það að segja að ég er andvígur því, ég tel það rangt, að ákveða vegáætlun eins og gert var rétt fyrir kosningar.`` Þetta vísar til afgreiðslu vegáætlunar vorið 1991, skömmu fyrir alþingiskosningar þá. ( Grip ið fram í: Sagði ráðherra þetta?) Þetta sagði hæstv. samgrh.: ,,Ég tel það rangt, ég er andvígur því, að afgreiða vegáætlun eins og gert var rétt fyrir kosningar. Það gefur tilefni til þess að vera með yfirboð. Auk þess sem þeir þingmenn sem þá eru að kveðja eiga ekki að ráða stefnunni í vegamálum næstu fjögur ár.`` Mér þóttu þetta athyglisverð ummæli hjá hæstv. ráðherra og ég spurði hæstv. ráðherra, sagði reyndar eftirfarandi, með leyfi forseta:
    ,,Þetta er nú alveg nýtt gullkorn hjá hæstv. samgrh. að það eigi ekki að leggja fram vegáætlun fyrir kosningar, það sé siðleysi og spilling. Er þá hæstv. samgrh. tilbúinn að lýsa því yfir að hann ætli enga vegáætlun að leggja fram veturinn 1995?``
    Ég spyr hæstv. ráðherra: Er hann enn sama sinnis að þetta hafi verið svona rangt, eins og hann vildi meina þarna, að afgreiða vegáætlun fyrir kosningar 1991? Og er það þá ekki jafnrangt núna? Er þá ekki skynsamlegra að afgreiða heimildir fyrir yfirstandandi ár eða láta gildandi vegáætlun, þriðja ár hennar standa og leyfa þá nýjum aðilum, nýjum hv. þm. á nýbyrjuðu kjörtímabili að móta stefnuna til frambúðar? Nema orðið hafi geysileg sinnaskipti hjá hæstv. ráðherra og hann tali með tungum tveimur eftir því hvort hann er nýtekinn við völdum eða er að láta af þeim. Því þá ætti hann sjálfum sér samkvæmur að taka því fagnandi ef þingmenn eru tilbúnir til þess að breyta nú vinnubrögðunum í samræmi við það. Út af fyrir sig, hæstv. forseti, að gamni slepptu þá mætti vel hugsa sér að nota þetta tækifæri ef það yrði niðurstaðan til að breyta takti vegáætlunar þannig að hún væri jafnan endurskoðuð á fyrsta og þriðja vetri hvers kjörtímabils en ekki öðrum og fjórða. Þá væri þetta nær kosningunum og ekki með sama blæ og þetta er núna, að vera á árinu sem kosningar fara fram.
    Um þessa vegáætlun, hæstv. forseti, er ekki margt hægt að segja í sjálfu sér á átta mínútum og er auðvitað lakara að menn skuli ekki halda því að hafa hér rýmri ræðutíma þegar svona stórar framkvæmdaáætlanir eru til umræðu. Einhvern tímann hélt ég að það hefði átt að gerast sjálfkrafa en það er nú sjálfsagt ekki.
    Ég tel að uppsetning á þessu plaggi sé næsta söguleg. Ég minnist þess til að mynda ekki að hafa séð aðferðir af því tagi sem hér er á forsíðu skjalsins, að annars vegar eru færðir fjármunir í ríkissjóð upp á nokkur hundruð millj. kr. og hins vegar eru færðir fjármunir úr ríkissjóði upp á nokkur hundruð millj. kr. Ég spyr að því, hæstv. forseti: Hvað tákna þessar færslur fram og til baka, út og inn úr ríkissjóði? Er það til einhvers fegurðarauka á þingskjalinu að þetta er haft svona? Nær væri þá að setja fram nettóniðurstöðuna, það sem kemur úr ríkissjóði eða fer í hann en ekki færslur fram og til baka af þessu tagi. En þetta er auðvitað arfur af því og hluti af því hvernig hæstv. ríkisstjórn hefur möndlað með þessi mál þannig að í raun og veru stendur þar ekki steinn yfir steini. Peningar eru færðir fram og til baka, teknir að láni og hlutirnir eru skýrðir nýjum nöfnum. Þetta heita framkvæmdaátök og atvinnuátök og annað þar fram eftir götunum og þegar upp er staðið þá er í raun og veru búið að ónýta að mestu leyti þau ákvæði laga og vinnuhefðir sem hér hafa gilt um meðferð vegamála á Alþingi. Þessum málum er meira og minna skipað með einhverju hnjákollasamkomulagi hæstv. ráðherra úti bæ og hæstv. forsrh. meira og minna orðinn einhvers konar yfirsamgönguráðherra og ræður því hvernig vegafé er skipt o.s.frv. Þetta er auðvitað til háborinnar skammar og alls ekki í samræmi við anda vegalaga sem mæla í raun og veru með óvenjuskýrum hætti fyrir um það hvernig vegamálum skuli ráðið til lykta, þ.e. með þáltill. sem Alþingi síðan útfærir og skiptir vegafé.
    Þá vil ég nefna skuldir Vegasjóðs, hæstv. forseti. Það er ekki hægt annað en átelja það að á þessu kjörtímabili hefur það gerst að framkvæmdum hefur verið haldið uppi með stórfelldum lántökum þannig að nú er Vegasjóður í umtalsverðri skuld og þannig hefur vandanum í raun og veru verið velt upp á framtíðina.
    Það er líka umhugsunarefni hversu langt hefur verið gengið í því að taka fjármagn undir sérstök formerki þannig að til almennra vegaframkvæmda fer nú orðið næsta lítið fé, þ.e. til þess sem nýframkvæmdir geta talist.
    Þá vil ég nefna tekjustofna Vegasjóðs. Þar hefur orðið sú slæma breyting að í fyrsta lagi er umtalsvert fé tekið í ríkissjóð eins og áður segir og það er auðvitað algjört nýmæli að það sé gert með þeim hætti sem hefur verið á öllu þessu kjörtímabili. Hæstv. ráðherra bendir gjarnan á fordæmi frá fyrri tíð og það er rétt að það er eitt einasta fordæmi til um það og það var árið 1989 þegar mjög óverulegir fjármunir voru teknir í ríkissjóð á einu ári. Þá var því lýst yrir að það yrði gert í það eina skipti og við það var staðið. Hæstv. ráðherra lætur nú gjarnan eins og þetta hafi verið alsiða en svo er ekki. Hitt er svo mjög slæmt að byrðum upp á um 500--600 millj. kr. hefur verið velt yfir á Vegasjóð án þess að honum væri bætt það upp með auknum tekjum þar sem er rekstur flóabáta og ferja.
    Satt best að segja, virðulegur forseti, er ég að verða afskaplega leiður á rógi hæstv. núv. samgrh. um það mál. Ég tel það neðan við allar hellur og neðan við virðingu hæstv. ráðherra að vera með þau mál á heilanum eins og hann hefur verið. Ég óska eftir því, ef hæstv. ráðherra ætlar að halda áfram að ræða

þau mál með þeim hætti sem hann hefur gert, að hæstv. ráðherra manni sig upp í það að segja okkur hvaða ferjur hann vill leggja niður. Ég held að fólkið við Ísafjarðardjúp til að mynda eigi heimtingu á að vita hvort hæstv. samgrh. er að tala um Fagranes þegar hann er að tala um óþarfa fjáraustur í ferjurekstur. Eða íbúarnir í Grímsey og Hrísey, hvort hæstv. ráðherra er að tala um Sæfara. Eða Vestmanneyingar, hvort hæstv. ráðherra er að tala um Herjólf. Það er ekki hægt að tala svona aftur og aftur og endalaust, hæstv. samgrh., og ráðast með ómerkilegum og ómaklegum hætti á forvera þinn, þann sem hér stendur, eins og hæstv. ráðherra hefur endurtekið gert, tala um að þarna hafi átt sér stað óráðsíufjáraustur en vera svo ekki maður til að klára þá vísuna með síðustu línunni og segja að það séu þessar eða hinar ferjur sem ekki eigi að reka. Eða er það kannski Akraborgin sem á að hætta við strax en ekki bara þegar jarðgöngin koma af því að hv. þm. Guðjón Guðmundsson er hér í salnum. ( GuðjG: Það er ekkert gefið með henni.) Það er nú eitthvað svolítið gefið með henni en hún er að vísu ekki inni í afborgunartölunum. (Forseti hringir.)
    Hæstv. forseti. Ég skal fara að ljúka máli mínu. Mér er farið að leiðast þetta, ég verð að segja það alveg eins og er að mér er farið að leiðast þetta ómerkilega skítkast hæstv. ráðherra um þessi ferjumál. Ég er hvenær sem er til í málefnalegar umræður um þetta en ég óska eftir að hæstv. ráðherra sé þá maður til að standa með sínum skoðunum í þessu og leggja þá til hvaða ferjur eigi að slá af.