Vegáætlun 1995--1998

77. fundur
Fimmtudaginn 26. janúar 1995, kl. 17:07:28 (3603)


[17:07]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hv. þm. er mjög vel kunnugt að á vorinu 1991 stóð Alþingi frammi fyrir því að það var beðið um lánsfjárheimildir vegna ferjukaupa og smíða á ferjum sem síðan hrukku hvergi nærri til. En allt var þetta nú þrautrætt og undirbúið í ríkisstjórninni þegar fjárlög voru undirbúin og lögð fram fyrir árið 1991. En þá kemur í ljós að ekki ein einasta króna var ætluð til nýsmíði eða kaupa á ferjum á þeim fjárlögum. Og það sem er enn þá verra er kannski það að rekstrarskuldir hrönnuðust upp hjá ferjubátum og það kom síðan í minn hlut að greiða úr allri þessari flækju, veita frekari lánsheimildir til að hægt væri að standa við smíðasamninga og leggja til aukafjárveitingar til þess að ferjurnar gætu gengið og þar fram eftir götunum. Ferjumálin voru öll í hinum mesta ólestri og er afskaplega handhægt fyrir hv. þm. að bera saman skuldastöðuna þegar hann tók við sem samgrh. og skuldastöðuna þegar ég tók við sem samgrh.
    Það er náttúrlega nokkuð undarlegt þegar menn eru að tala um að það safnist upp miklar skuldir vegna samgöngumála á mínum ferli af þeim sömu hv. alþm. og ekki fást til að ræða ferjumálin nema í styttingi. Auðvitað verðum við að standa í skilum með ferjumálin. Auðvitað verður að greiða þessa milljarða. Spurningin er hins vegar hvernig á því stóð að síðasta ríkisstjórn skyldi ekki leggja fram eitthvert fé á fjárlögum til kaupanna, af hverju ekki var tekin ábyrgari afstaða. Það er nauðsynlegt að menn geri sér grein fyrir því þegar ráðist er í fjárfestingu sem milljörðum skiptir hvernig eigi að standa að greiðslunni.