Vegáætlun 1995--1998

77. fundur
Fimmtudaginn 26. janúar 1995, kl. 17:11:26 (3605)


[17:11]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Nú er það að vísu ekki rétt að gengið hafi verið frá lánum í sambandi við smíði á Baldri áður en ég tók við embætti samgrh. en það munaði ekki miklu svo sem, það voru nokkrir mánuðir sem munaði og það skiptir ekki máli í sambandi við okkar þrætu. Hitt er auðvitað höfuðatriði þessa máls að eftir að smíðasamningurinn um Baldur var gerður með þessum hefðbundna hætti sem veldur því að þriðji milljarður hefur safnast saman í skuldir vegna kaupa á ferjubátum og flóabátum, þá varði síðasta ríkisstjórn ekki einni einustu krónu til stofnkostnaðar vegna smíða á Baldri, ekki einni einustu krónu. Það er sá mikli munur sem er á þessu tvennu. Og ef það er rétt að gengið hafi verið frá samningunum á þeim tíma sem Matthías Bjarnason var samgrh., sem ég hygg að sé rétt munað, fyrir kosningarnar 1987, hvernig má það þá vera að öll næstu fjögur ár skuli ekki hafa verið hirt um það á fjárlögum að leggja inn eina einustu krónu til stofnkostnaðar á Baldri? Þetta sýnir hvernig var staðið að þessum málum.