Vegáætlun 1995--1998

77. fundur
Fimmtudaginn 26. janúar 1995, kl. 17:26:38 (3611)


[17:26]
     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Hér hefur orðið mikil umræða um till. til þál. um vegáætlun fyrir árin 1995--1998 og það er eðlilegt. Hér er verið að boða nokkuð byltingarkenndar breytingar þar sem hér er verið að boða það að höfðatölureglan skuldi gilda við framkvæmdir. Það er því eðlilegt að menn vilji ræða hér mikið og lengi og ekki síst þar sem þessu þingi fer senn að ljúka og hér er áætlun fyrir árin 1995--1998.
    Menn hafa hér rætt ýmislegt, viðhald vega er of lítið og nýframkvæmdir eru líka af skornum skammti en mér sýnist að einu sé ofaukið hér og það er varðandi bensíngjaldið. Mér sýnist að áætlanir varðandi bensíngjald séu töluvert ofreiknaðar vegna þess að það kemur fram í þessari þáltill. að bílaeign Íslendinga hefur minnkað verulega, um 3,3%, og bensínsala minnkaði 1993, en hefur eitthvað aukist síðast á árinu 1994 þannig að ég held að þarna sé um dálitla ofáætlun að ræða. En ég ætla ekki að fara í að ræða þessa vegáætlun frekar að sinni. Þetta er fyrri umr. og samgn. á eftir að fjalla um málið og ég veit að það verða miklar breytingar í nefndinni því að hér eru það umfangsmiklar breytingar á ferðinni að ég veit að menn kokgleypa þetta ekki svona í einu vetfangi í samgn.
    En það er ein spurning sem mig langar til að bera fram við hæstv. samgrh. og það er varðandi Gilsfjarðarbrú. Mig langar einfaldlega að spyrja hæstv. ráðherra að því: Hvenær verður framkvæmdin við Gilsfjarðarbú boðin út? Í núgildandi vegáætlun er gert ráð fyrir því að brúin verði boðin út árið 1994, en það bólar ekkert á því. Það voru ýmis ljón á veginum varðandi umhverfismál. Nú er umhvrh. búinn að úrskurða í því máli og þar af leiðandi er hægt að bjóða þessa framkvæmd út. Þetta er fyrsta framkvæmdin sem þarf að bjóða út á hinu Evrópska efnahagssvæði vegna þess að þetta er það stór framkvæmd, þetta er framkvæmd sem er áætluð upp á 700--800 millj. kr. en eins og menn vita hefur verið beðið eftir þessari framkvæmd í 10 ár. Í 10 ár eru menn búnir að ræða hér um Gilsfjarðarbrú. Og það er komið að því í hugum Vestfirðinga og Vestlendinga að framkvæmd hefjist.
    Bara nú á síðustu vikum hafa fallið 11 snjóflóð í Gilsfirði og fjörðurinn hefur verið gjörsamlega lokaður. Þetta er sama læknissvæði, Dalir og Reykhólasveit, og læknir hefur ekki komist í Reykhólaveit nema með ýmsum öðrum brögðum heldur en í gegnum Gilsfjörð. Þannig er þetta eins og allir vita afskaplega brýn framkvæmd en það er búið að ræða um þetta hér fram og til baka og búið að finna ýmsar leiðir til að fresta þessari framkvæmd og það hlýtur að vera komið að því að við fáum svör við því hér hvenær á að bjóða þessa framkvæmd út.