Vegáætlun 1995--1998

77. fundur
Fimmtudaginn 26. janúar 1995, kl. 17:30:31 (3612)


[17:30]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef frá Vegagerðinni, og Vegagerðin hefur yfirleitt reynst mjög vönduð í sínum vinnubrögðum, þá er áætlunin um bensínsölu algjörlega á raunhæfum grundvelli og ég sé enga ástæðu til að ætla það að Vegagerðinni hafi þar orðið á meiri háttar skyssa. Ég sé enga ástæðu til að ætla það.
    Ég vil á hinn bóginn láta í ljósi undrun mína yfir því af hverju hv. þm. á svo erfitt með að segja sannleikann um Gilsfjarðarbrú. Hv. þm. sagði að það hefði samkvæmt gildandi vegáætlun átt að bjóða út Gilsfjarðarbrú á sl. ári. Það er ekki ein einasta króna frá Vesturlandi, ekki ein króna á sl. ári, ekki ein einasta króna frá Vestfjörðum, ekki ein til Gilsfjarðarbrúar. Það er á hinn bóginn svo að í stórverkefnum til Gilsfjarðar er gert ráð fyrir 24 millj. á sl. ári og ekki er hægt að vinna mikið fyrir þær. Ef við tökum árin 1995, þá er í Gilsfjörð 33 millj. á árinu 1995 frá Vesturlandi og 7 millj. frá Vestfjörðum, 98 millj. af stórverkefnum. Það er hins vegar ekki fyrr en á árinu 1996 sem fer að muna um það fjármagn sem veitt er til brúarinnar. 241 millj. er af stórverkefnafé 1996. Þá koma 59 millj. og 74 millj. frá kjördæmunum. Það sem maður er að spyrja sig um í sambandi við vegáætlun er auðvitað um verklokin, það eru þau sem skipta máli og 20 millj. á sl. ári skipta engu máli í þessu sambandi. Þunginn er á árinu 1996 þannig að það er tilbúningur að ég hafi haft fjárlagaheimildir til að bjóða Gilsfjörð út á sl. ári.