Vegáætlun 1995--1998

77. fundur
Fimmtudaginn 26. janúar 1995, kl. 17:37:56 (3616)


[17:37]
     Stefán Guðmundsson :
    Virðulegi forseti. Við erum að tala um yfirgripsmikinn málaflokk sem eru samgöngumálin og ég verð nú að segja það að mér finnst ekki blása byrlega fyrir þeim í gegnum þingið ef tónninn í hæstv. samgrh. ætlar ekki eitthvað að skána, þá held ég að hann megi búast við því að það geti orðið tafir hér í þinginu en ekki af völdum þingmanna eins og hann lét frá sér fara rétt áðan, að þingmenn vildu halda vegamálum í einhverri óvissu eins og hann komst að orði. Ég kannast ekki við það, hæstv. ráðherra, að þingmenn hafi haldið þessu máli í óvissu. Hvar hefur málið verið? Hvar hefur málið verið þangað til það kom hér inn í þingsali fyrir örfáum dögum síðan? Hefur það ekki verið að velkjast á borði ráðherrans sjálfs . . .


    ( Forseti (VS) : Hæstvirts.)
hæstvirts ráðherra? Ég held að ef einhver hefur verið að tefja þetta mál, þá hefur það verið ráðherrann sjálfur og svo er hann að segja við okkur þingmenn að við séum að tefja málið. Ég veit ekki annað en þegar formaður samgn. hafði samband við okkur til þess að biðja um það og spyrja um það hvort við værum tilbúnir til þess að vera hér á morgun þar sem einu sinni á ekki að vera þinghald til þess að halda fund í samgn. þingsins til þess að fjalla um þessi mál ráðherrans sem komu fram klukkan að verða hálftólf í tíma þingsins. Auðvitað var já frá okkur stjórnarandstæðingum í því efni. Auðvitað erum við tilbúnir að mæta til fundar til þess að leysa þessi mál. Og það er hart að sitja undir einhverjum svigurmælum frá hæstv. ráðherra í þessum efnum. --- Já, ráðherrann má hlæja að því. En svona á ráðherra ekki að tala til nefndar, manna sem eru að vinna í þingnefndum, viðkomandi ráðherra.

    Eins og ég segi þarf ég sjálfsagt ekki að eyða löngu máli í umræður um þetta mál nú og ætla mér ekki að gera það. Hér hefur farið fram nokkuð ítarleg umræða en eins og við mátti búast nánast engin svör því að hæstv. ráðherra samgöngumála er meistari meistaranna í að snúa út úr ræðum þingmanna. Og hann er einnig meistari meistaranna í því að svara ekki því sem spurt er um. Hann býr til spurningarnar þegar hann er kominn upp í ræðustól og svarar þeim, spurningunum frá sjálfum sér, ekki því sem þingmennirnir eru að spyrja um. Hann var líka frábær á sínum námsárum sem ræðusnillingur og þetta er sjálfsagt eitt af því sem hann hefur numið á þeim skólaárum sínum í ræðulist. En ég held að hæstv. ráðherra gerði málinu gagn og greiða með því að svara því sem þingmenn eru að spyrja hér um. ( JGS: Ráðherrann er að ráða krossgátu þannig að hann er búinn að svara.)
    Hæstv. ráðherra vék einnig að því að Framsfl. hefði verið í ríkisstjórn í 20 ár og það væri ekki glæsilegt um að litast í samgöngumálum. Ég ætla að leggja eina litla spurningu fyrir hæstv. ráðherra og mér þætti vænt um ef hann svaraði henni. Hvað var hann lengi að keyra til Akureyrar fyrir 20 árum síðan? Hvað er hann lengi í dag? ( Gripið fram í: Á hvaða hraða?) Já, á hvaða hraða fer hann? Á hvaða hraða ætli hann hafi getað ekið fyrir 20 árum síðan? Þannig er nefnilega mála sannast, hæstv. ráðherra, að það hefur orðið bylting í vegamálum. Það á enginn einn flokkur það, hvorki Framsfl. né aðrir, það hefur orðið bylting í samgöngumálum þjóðarinnar og það veit hæstv. ráðherra. Og það er rétt að enginn ráðherra hefur verið jafntítt á ferðinni sl. ár eins og hæstv. núv. samgrh. með skærin á loftin og klippa og opna nýja möguleika í samgöngumálum. Það hefur margt verið gert og er enn þá margt ógert í samgöngumálum.
    Ég vil aðeins minnast á þetta sérstaka átak í vegamálum upp á 3,5 milljarða sem nú er sett fram. Helmingur þessa gjalds upp á 1 milljarð 750 millj. er settur sem beinn orkuskattur á bifreiðaeigendur í landinu. Rúmlega 1 milljarður og 700 millj. er settur sem beinn orkuskattur á bifreiðaeigendur í landinu. Hitt er tekið sem lánsfé þrátt fyrir það þó öllum sé það ljóst hversu gífurlegar lántökur hafa farið fram á undanförnum árum. Það er ekkert við þennan samgrh. sérstaklega að sakast fram yfir aðra, þetta hefur verið gert. En við þurfum líka að gera okkur grein fyrir því að það kemur að því að það þarf að borga þessi lán og það kemur þá niður á framkvæmdum í vegamálum.
    Ég held ég muni það rétt að ég hlustaði hér á hæstv. samgrh. ekki fyrir löngu síðan þegar hann lét þau orð falla að skuldir vegna flóabátanna séu nú rétt um 2,5 milljarðar kr. Það er morgunljóst að allar þessar skuldbindingar sem hafa verið settar á Vegasjóð munu draga úr framkvæmdum í almennri vegagerð. Ég vil einnig spyrja hæstv. ráðherra og bið hann að svara því hér vegna þess að við skiptingu þessa sérstaka átaksverkefnis upp á 3,5 milljarða hefur ríkisstjórnin ákveðið að taka upp aðra skiptireglu en hefur verið í gildi í mörg undanfarin ár og ég veit ekki annað en að hafi reynst bærilega og þeir sem að þessum málum hafa komið, bæði fulltúar Vegagerðar ríkisins og þingmenn, hafi unað þessum skiptiprósentum og skiptahlutum nokkuð vel. Þess vegna langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra: Er það meiningin að breyta þessum skiptareglum almennt? Er ráðherrann með einhverjar hugmyndir um að breyta frá því sem áður hefur verið farið eftir um skiptingu á vegafé milli kjördæma? Það væri fróðlegt að fá svar við því.
    Ég vil hins vegar leggja áherslu á að það sem mér finnst á skorta er það að við þingmenn, og þá beini ég orðum mínum líka til hæstv. ráðherra, að menn leggi aukna áherslu á langtímaáætlun í vegagerð. Ég held að það sé gríðarlega mikilsvert mál að menn vinni að langtímaætlun í vegagerð sem er bæði markviss og framsækin en þó umfram allt þarf hún að vera raunsæ. Ég vil hvetja hæstv. ráðherra til þess að vinna að því máli þó ég viti að hann á ekki langan tíma eftir á ráðherrabekk þá vil ég samt biðja hann og hvetja til þess að fara að leggja línurnar að slíku.
    Virðulegur forseti. Ég skal ljúka máli mínu þó margt sé enn ósagt. Ég vildi leggja áherslu á það í máli mínu og hefði viljað benda á það hversu safnvegir í þessum tillögum eru illa haldnir og er vissulega ástæða fyrir okkur í samgn. að ræða þau mál, bæði hvað við kemur safnvegum og landsvegum. En ég skal, virðulegur forseti, hlýða kallinu.