Vegáætlun 1995--1998

77. fundur
Fimmtudaginn 26. janúar 1995, kl. 17:49:17 (3619)


[17:49]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hér hefur verið talað af hv. þm. Stefáni Guðmundssyni og ýmsum öðrum þingmönnum eins og öllu fé samkvæmt vegáætlun hafi verið skipt eftir tilteknum prósentum, það er nú alls ekki svo. Alls ekki svo enda hafa sérstök stórverkefni verið í gangi og stærsta verkefnið fram að þessu eru jarðgöngin fyrir vestan svo að öllu fé hefur síður en svo verið skipt eftir þessari reglu. Á hinn bóginn lá það alveg ljóst fyrir að það hafði verið vanrækt á síðustu árum að leggja fram fé til nauðsynlegrar vegagerðar hér á Reykjavíkursvæðinu. Og eins og ég hef áður sagt þá er víða mjög mikil slysahætta og er auðvelt að sýna fram á arðsemi slíkrar vegagerðar.
    Ég held ég geti líka fullyrt að fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar í Reykjavík hafi allir stjórnmálaflokkar, allir þeir flokkar sem buðu fram í Reykjavík bæði innan R-listans og einnig þeir sem stóðu að lista Sjálfstfl. verið sammála um að samgrh. hafi illa staðið sig í samgöngumálum Reykvíkinga. Ég hafði því satt að segja talið að það stæði fullur vilji þeirra flokka sem stóðu að R-listanun að því að reyna að bæta þar úr skák. En það hefur kannski verið þannig að einn sannleikur henti hér á Reykjavíkursvæðinu hjá þessum stjórnmálaflokkum og annar úti á landi.