Vegáætlun 1995--1998

77. fundur
Fimmtudaginn 26. janúar 1995, kl. 17:51:10 (3620)


[17:51]
     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Hæstv. samgrh. hefur verið duglegur að koma í andsvör og skiptast á skoðunum við einstaka ræðumenn sem hér hafa talað í dag og er ekki nema gott eitt um það að segja. En hins vegar bar ég fram spurningar þegar ég talaði í upphafi þessarar umræðu um hvernig skipting framkvæmdaátaksins yrði á milli kjördæma, hvernig einstök kjördæmi myndu standa þegar þessu fjármagni sem ætlað er til framkvæmdaátaksins hefur verið skipt, hvert framkvæmdaátakið mundi verða í einstökum kjördæmum, hvernig þau muni standa frá því sem áætlað var. Ég fer fram á að hæstv. samgrh. segi mat samgrn. og mat sitt á þessum efnum þó ég viti það reyndar að það mun verða farið yfir málið í hv. samgn. þá trúi ég ekki öðru en að það hafi verið litið á þessi mál við undirbúning þessa máls hvernig einstök kjördæmi munu koma út þegar þessu framkvæmdaátaksfé hefur verið skipt. ( HG: Þeir hljóta að kunna prósentureikning.) Það hlýtur að vera auðvelt að svara því hvaða mat hæstv. samgrh. leggur á slíka hluti. Ég fer fram á að fá svör við því áður en þessari umræðu lýkur.