Ráðstafanir vegna erfiðleika loðdýrabænda

79. fundur
Mánudaginn 30. janúar 1995, kl. 15:14:58 (3629)

[15:14]
     Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) :
    Virðulegi forseti. Eins og öllum er kunnugt hafa dunið miklir erfiðleikar yfir loðdýraræktina í landinu. Í upphafi bundu mjög margir miklar vonir við það að með því að koma á loðdýrarækt á Íslandi væri hægt að renna fleiri stoðum undir atvinnulíf í sveitum landsins og margt benti til þess raunar í upphafi að það mætti takast. Því miður urðu síðan á leiðinni miklir og ófyrirsjáanlegir erfiðleikar sem hafa valdið miklum búsifjum víða um sveitir landsins eins og öllum er kunnugt um. Skuldir hrönnuðust upp og tekjur drógust saman, einkanlega vegna þess að þær forsendur sem menn höfðu byggt sínar fjárfestingar á um verðþróun á afurðunum brugðust að verulegu leyti. Þetta hefur valdið miklum erfiðleikum víða á sveitaheimilum og haft í för með sér ófyrirsjáanlega erfiðleika sem hafa tengst mörgum fjölskyldum vítt og breitt um landið. Þessa sögu þekkja sennilega mjög margir hér inni.
    Fyrir nokkrum árum var gripið til þess ráðs að skuldbreyta í rekstri loðdýrabænda og þær skuldir voru tryggðar af Ríkisábyrgðasjóði. Það var þó ljóst mjög fljótlega og kannski jafnvel ljóst þegar gripið var til þessara aðgerða að loðdýraræktin við óbreyttar aðstæður mundi ekki geta risið undir þessum miklu skuldum og í raun og veru var þessi skuldbreyting byggð á verulegri óskhyggju. Þess vegna kom í ljós þegar nefnd sem undirritaður m.a. sat í fór að skoða þessi mál á árinu 1992 að það væri óhjákvæmilegt að grípa til aðgerða sem myndu fela í sér lækkun skulda á loðdýraræktinni í landinu. Það var ljóst að jafnvel þó tekjur greinarinnar kynnu að hækka, sem raunar hefur síðan komið á daginn, þá væri þessi skuldaskafl eins og það var gjarnan nefnt, gjörsamlega ófær og það yrði þess vegna að létta þessum skuldum að einhverju leyti af greininni.
    Niðurstaða nefndarinnar sem ég nefndi var sú í meginatriðum að það bæri að grípa til samræmdra aðgerða til að lækka skuldir á loðdýraræktinni í landinu, það væri ódýrast fyrir þjóðfélagið, það væri ódýrast fyrir lánardrottnana og það væri farsælast fyrir landbúnaðinn og sveitirnar í landinu. Niðurstaða nefndarinnar var sú að leggja til afléttingu skulda Ríkisábyrgðasjóðs og lækkun skulda í Stofnlánadeild auk ýmissa annarra aðgerða.
    Ég hef leyft mér að leggja fyrir hæstv. landbrh. fyrirspurn sem er í þremur liðum og hljóðar svo, með leyfi virðulegs forseta:
    1. Hefur verið lokið við að fullu að gera ráðstafanir vegna erfiðleika loðdýrabænda sem ríkisstjórnin ákvað síðari hluta árs 1992?
    2. Hvað leiddu þær ráðstafanir til mikillar skuldalækkunar fyrir loðdýrabúskapinn í landinu?
    3. Hver er nú rekstrarstaða loðdýrabúskaparins að loknum þessum skuldalækkunum og í ljósi núverandi heimsmarkaðsverðs á refa- og minkaskinnum?