Ráðstafanir vegna erfiðleika loðdýrabænda

79. fundur
Mánudaginn 30. janúar 1995, kl. 15:18:54 (3630)

[15:18]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Fyrst er spurt:
    ,,Hefur verið lokið við að fullu að gera ráðstafanir vegna erfiðleika loðdýrabænda sem ríkisstjórnin ákvað síðari hluta árs 1992?``
    Ákvarðanirnar fólust einkum í að lækka eins og frekast var unnt skuldir greinarinnar bæði hjá

bændum og fóðurstöðvum og að styðja við rekstur hennar með því að greiða jafnaðargjald á fóður. Stofnlánadeild landbúnaðarins, Byggðastofnun og Framleiðnisjóður hafa lokið skuldaniðurfellingu hjá bændum. Byggðastofnun og Framleiðnisjóður hafa létt skuldum af fóðurstöðvum en ekki hefur endanlega verið gengið frá niðurfellingu lána fóðurstöðva hjá Stofnlánadeildinni. Þá hefur ríkissjóður yfirtekið ábyrgðir bænda hjá Ríkisábyrgðasjóði. Hluti af þessum ráðstöfunum var skilyrtur með þeim hætti að aðrir lánardrottnar þyrftu líka að fella niður skuldir. Sú niðurfelling er metin á 100 millj. kr. Ráðuneytið fékk Gunnar Sturluson lögfræðing til að aðstoða þá bændur sem verst voru settir. Það var gert til að tryggja sem best að allir þeir sem rétt áttu á aðstoð fengju notið hennar. Ríkissjóður og Framleiðnisjóður hafa greitt jöfnunargjald á loðdýrafóður að upphæð 190 millj. kr. á árunum 1992--1994. Ríkissjóður hefur nú hætt þeim greiðslum en Framleiðnisjóður greiðir enn jöfnunargjald á fóður til minkabænda. Jöfnunargjaldið var rétt um 7 kr. á kg fóðurs enn er nú 4 kr.
    Nú er litið svo á að lokið sé framkvæmd þeirra ráðstafana sem stefnt var að. Einungis er eftir að ganga frá nokkrum lausum endum í Stofnlánadeildinni í tilvikum þar sem staðið hefur á að uppfylla þau skilyrði sem deildin setti fyrir aðstoð. Þetta á einungis við um fóðurstöðvar.
    Spurt er: ,,Hvað leiddu þær ráðstafanir til mikillar skuldalækkunar fyrir loðdýrabúskapinn í landinu?``
    Talið er að þessar ráðstafanir hafi lækkað skuldir búgreinarinnar um nálega 1,3 milljarða kr. Hjá Ríkisábyrgðasjóði um 450 millj. kr., Stofnlánadeild 542 millj. kr., Byggðastofnun 40 millj. kr., Framleiðnisjóði 130 millj. kr. og hjá öðrum 100 millj. kr.
    Spurt er: ,,Hver er nú rekstrarstaða loðdýrabúskaparins að loknum þessum skuldalækkunum og í ljósi núverandi heimsmarkaðsverðs á refa- og minkaskinnum?``
    Loðdýrabændur eru nú um 80 og ljóst má vera að þessar aðferðir hafa létt mjög undir með þeim á síðustu árum. Verðþróun á skinnum var fram að yfirstandandi uppboðstímabili jákvæð en veruleg verðlækkun nú í haust, sérstaklega á minkaskinnum, veldur greininni áframhaldandi erfiðleikum. Meðalskinnaverð í mink er rétt um 1.300 kr. en útreikningar gera ráð fyrir að það þurfi að lágmarki að vera um 2.000 kr. til að greiða rekstrarkostnað, laun, afskriftir og afborganir og vexti af stofn- og afurðalánum. Jöfnunargjald á fóður jafngildir um 200 kr. á skinn. Af þessu má ljóst vera að minkabændur eiga enn í erfiðleikum, sérstaklega þeir skuldugu. Meðalverð á refaskinnum er um 5.000 kr. á skinn og gefur það verð þolanlega afkomu. Það má þó ekki lækka mikið til að afkoman fari að verða neikvæð.
    Töluverðar breytingar hafa átt sér stað í fóðurframleiðslunni og hefur vaxtakostnaður á hvert kíló fóðurs lækkað. Bændaskólinn á Hvanneyri hefur nú tekið við því hlutverki að vera miðstöð fræðslu í loðdýrarækt og unnið er að því í samvinnu við bændasamtökin að leiðbeiningaþjónusta í loðdýrarækt verði staðsett á Hvanneyri. Þá hefur verið ákveðið að flytja inn ref og mink til kynbóta. Ekki er ljóst hvar refurinn verður vistaður en minkurinn verður vistaður á búi Hvanneyrarskólans. Af þessu má sjá að víða er unnið til hagsbóta fyrir greinina. Þrátt fyrir batnandi hag er ekki talið ráðlegt að hvetja til fjölgunar loðdýrabænda við þær aðstæður sem nú ríkja.