Ráðstafanir vegna erfiðleika loðdýrabænda

79. fundur
Mánudaginn 30. janúar 1995, kl. 15:22:41 (3631)


[15:22]
     Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) :
    Virðulegur forseti. Ég vil í upphafi þakka hæstv. landbrh. fyrir afar skýr svör við fyrirspurnum mínum. Svörin hafa leitt í ljós að hér hefur verið haldið með markvissum hætti á málum og það hefur tekist sem var aðalmarkmiðið þegar við skiluðum af okkur nefndarstarfinu að tryggja það að skuldir loðdýrabænda gætu lækkað umtalsvert, lækkað þannig að þessar skuldir yrðu viðráðanlegri.
    Það er aftur á móti rétt sem fram kom í máli hæstv. landbrh. að það er mjög mikið áhyggjuefni að verðþróun á minkaskinnum sérstaklega varð með þeim hætti sem hún varð nú sl. haust. Við höfðum gert ráð fyrir því flest að nú væri lokið þeirri miklu lægð sem loðdýrabúskapurinn væri kominn í og menn höfðu vænst þess að með þessum almennu skuldalækkunaraðgerðum, sem hið opinbera tók sem betur fer á, væri hægt að búa til borð fyrir báru þannig að menn gætu farið að takast á við framtíðina í þessum búskap og létta af sér þeim mikla klafa erfiðleika og óþæginda sem hefur plagað þessa grein allt of lengi. Þess vegna eru þetta mikil vonbrigði fyrir okkur en það er ekki á færi stjórnvalda að ráða þar fram úr. Ég tel að aðalatriði þessa máls sé að hér hefur verið leitt í ljós að það hefur í fyrsta skipti verið tekið á skuldamálum loðdýraræktarinnar með myndarlegu átaki og sjálfsögðu átaki. Þó að það hafi verið góðs viti sem gert hafði verið áður að búa til skjól með skuldbreytingum þá var það deginum ljósara og var held ég öllum ljóst á þeim tíma jafnvel að það gæti ekki verið þannig til frambúðar. Menn voru einfaldlega að tefla þar biðleik og framtíðarákvarðanirnar biðu. Með því að lækka skuldir loðdýraræktarinnar um 1,3 milljarða kr. hefur rekstrarstöðunni verið breytt að svo miklu leyti sem það er á valdi hins opinbera og ríkisvaldsins en það er aftur á móti áhyggjuefni eins og ég sagði áðan þessi verðþróun sem hefur orðið í loðdýraræktinni og hæstv. landbrh. rakti.