Niðurgreiðsla og afsláttur til húshitunar

79. fundur
Mánudaginn 30. janúar 1995, kl. 15:30:28 (3634)


[15:30]
     Iðnaðarráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Hv. fyrirspyrjandi spyr:
    ,,Hver hafa verið framlög á fjárlögum til niðurgreiðslu á raforku á árunum 1990--1994 reiknað á verðlagi þessa árs?`` Framlög á fjárlögum til niðurgreiðslu á raforku til hitunar íbúðarhúsnæðis og raunverulegar niðurgreiðslur á árunum 1990--1994 til verðlags í janúar 1995 með vísitölu framfærslukostnaðar hafa verið sem hér segir: Á árinu 1990 296,4 millj. kr. en greiddar voru út 264,2 millj., 1991 328,9 millj. en greiddar voru út 304,7 millj., 1992 363,8 millj. kr. en greiddar voru út 360,4 millj., 1993 382,1 millj. kr. en greiddar voru út 382,1 millj. og 1994 401,4 millj. kr. en greiddar voru út 405,8 millj.
    Þá spyr hv. fyrirspyrjandi hver hafi verið árlegur afsláttur Landsvirkjunar á orkusölu til húshitunar á árunum 1990--1994 reiknað í krónum á kwst. á verðlagi þessa árs. Afsláttur Landsvirkjunar á raforkusölu til hitunar íbúðarhúsnæðis, einnig á verðlagi í janúar 1995, hefur verið sem hér segir: 1990 90,9

aurar á kwst., 1991 20,1 eyrir á kwst., 1992 21,4 aurar á kwst., 1993 26,7 aurar á kwst. og 1994 29,7 aurar á kwst. Rétt er að taka fram að til 1. júní 1991 var afslátturinn miðað við allt að 40 þús. kwst. ársnotkun en eftir það við 30 þús. kwst. ársnotkun. Árleg raforkuþörf til hitunar á húsnæði vísitölufjölskyldunnar er tæplega 33 þús. kwst. Afslátturinn nær því ekki til tæplega 3 þús. kwst. af ársnotkun fjölskyldunnar.
    Í þriðja lagi spyr hv. þm.: ,,Hefur náðst markmið svokallaðrar orkuverðsjöfnunarnefndar frá árinu 1991 um jöfnun orkuverðs?`` Þótt verulega hafi miðað á kjörtímabilinu hefur markmið orkuverðsjöfnunarnefndar ekki verið náð að fullu. Tillögur nefndarinnar miðuðu annars vegar við að niðurgreiðslur úr ríkissjóði yrðu auknar og hins vegar við sérstakar aðgerðir til lækkunar á heildsöluverði Landsvirkjunar. Þær aðgerðir áttu að miða að því að heildsöluverð á raforku til hitunar íbúðarhúsnæðis lækkaði niður í kostnaðarverð orku frá nýjum virkjunum að viðbættum flutningskostnaði til dreifiveitna. Til þess að ná markmiði orkuverðsjöfnunarnefndar þyrftu niðurgreiðslur ríkisins að hækka úr 1,26 kr. á kwst. í 1,67 kr. á kwst. eða um 41 eyri á kwst. sem jafngildir um það bil 130 millj. kr. hækkun á fjárveitingu. Til að ná markmiði nefndarinnar varðandi Landsvirkjun þyrfti afsláttur fyrirtækisins að hækka um nálega 65 aura á kwst. eða ríflega þrefaldast frá því sem hann er nú. Rétt er þó að taka fram að nefndin gerði ráð fyrir að rúmlega helmingur aukins afsláttar Landsvirkjunar eða um 35 aurar á kwst. yrðu eftir hjá dreifiveitunum þar sem þær greiða nú í reynd niður raforkutaxta til húshitunar. Nefndin gerði ráð fyrir að sá hluti kæmi fram í lækkun á öðrum gjaldskrárliðum veitnanna.
    Virðulegi forseti. Ég vil aðeins í þessu sambandi taka fram að enn er ekki búið að ráðstafa því viðbótarfé sem Alþingi veitti á fjárlögum nú til niðurgreiðslna enda er gert ráð fyrir því að iðnrh. eigi sérstakar viðræður við Landsvirkjun, að Landsvirkjun fyrir sitt leyti láti ekki sinn hlut eftir liggja og veiti álíka aukningu á niðurgreiðslum til húshitunar og ríkið hefur aukið niðurgreiðslur sínar um en þar munar talsvert eins og fyrr er sagt.
    Þá vil ég einnig upplýsa að sumar dreifiveitur hafa látið sitt af höndum rakna til þess að auka niðurgreiðslur á íbúðarhúsnæði eða húshitun vegna íbúðarhúsnæðis og er þar sérstaklega að nefna Orkubú Vestfjarða en það má segja að ekki sé mikill munur á orkukostnaði vísitölufjölskyldunnar til húshitunar eins og nú standa sakir og eins og orkuverðsjöfnunarnefnd gerði ráð fyrir að hann yrði en það er ekki síst vegna þess að Orkubú Vestfjarða hefur sjálft að eigin rammleik ákveðið að lækka allverulega gjaldskrá til húshitunar og er því með hagstæðari útgjöld á orkuveitusvæði sínu en t.d. gengur og gerist á orkuveitusvæði Rariks.