Niðurgreiðsla og afsláttur til húshitunar

79. fundur
Mánudaginn 30. janúar 1995, kl. 15:40:59 (3638)


[15:40]
     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Auðvitað er góðra gjalda vert og verðugt viðfangsefni að reyna að lækka hitakostnaðinn. Það er rétt að því hefur verið beint til Landsvirkjunar að taka þátt í því sem hún hefur gert. Ég vek athygli hv. þm. á því að stjórn Landsvirkjunar lýtur ekki alfarið fyrirmælum ríkisins. Landsvirkjun er sameignarfyrirtæki ríkis, Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar og þingkjörnir fulltrúar, þ.e. þeir sem fara ef svo má segja með hlut ríkisins, hafa ekki meiri hluta í þessari stjórn. En Landsvirkjun hefur eins og hér hefur komið fram lagt talsvert mikið af mörkum í það að greiða niður húshitunarkostnaðinn. Landsvirkjun kemst hins vegar ekki til notendanna og þetta þarf að fara í gegnum hendur Rafmagnsveitna ríkisins og það er eðlilegt að Rafmagnsveiturnar taki líka þátt í þessu. En Landsvirkjun hefur ekki mikið svigrúm. Hún er rekin með miklum halla og það hefur verið rakið hér að það er vegna þess að ráðist hefur verið í fjárfestingar eins og Blönduvirkjun án þess að tekjur komi á móti fyrir þá orkuvinnslugetuaukningu sem af því skapast og var 1.772 millj. árið 1993.