Réttur til veiða í efnahagslögsögu Íslands

80. fundur
Mánudaginn 30. janúar 1995, kl. 15:58:49 (3644)

[15:58]
     Flm. (Tómas Ingi Olrich) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum nr. 13/1992, um rétt til veiða í

efnahagslögsögu Íslands. Þetta er 264. mál þingsins á þskj. 313. Flm. er einn af 20 hv. þm. Sjálfstfl. og Alþfl. sem hafa talið nauðsynlegt að gera breytingu á lögum nr. 13/1992, um rétt til veiða í efnahagslögsögu Íslands.
    Frv. er í tveimur greinum og efnisgrein frv. hljóðar svo., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,2. mgr. 3. gr. laganna orðast svo:
    Sjávarútvegsráðherra er þó heimilt að takmarka heimildir skv. 1. mgr. þegar um er að ræða veiðar úr sameiginlegum nytjastofnum sem veiðast bæði innan og utan íslenskrar efnahagslögsögu hafi íslensk stjórnvöld ekki gert samning um nýtingu viðkomandi stofns við stjórnvöld hlutaðeigandi ríkis og alvarlegur ágreiningur er um stjórnun á nýtingu stofnsins.``
    Í grg. með frv. þessu er gerð grein fyrir því að frv. hafi verið lagt fram á 117. löggjafarþingi en ekki mælt fyrir því. Frv. er nú endurflutt óbreytt og kemur fram í grg. að með lögum nr. 13/1992, um rétt til veiða í efnahagslögsögu Íslands, hafi erlendum fiskiskipum verið heimilað að landa eigin afla og selja í íslenskum höfnum og sækja þangað alla þá þjónustu er varðar útgerð skipsins. Í lögunum var þó sett löndunarbann á erlend fiskiskip ef um var að ræða veiðar úr sameiginlegum nytjastofnum sem veiðast bæði innan og utan íslenskrar efnahagslögsögu hafi íslensk stjórnvöld ekki gert samning um nýtingu viðkomandi stofns við stjórnvöld hlutaðeigandi ríkis. Í lögunum var hins vegar tekið fram að í slíkum tilfellum var sjútvrh. heimilt að víkja frá löndunarbanninu þegar sérstaklega stóð á. Ekki var í lögunum né í nefndaráliti gerð tilraun til að skilgreina hvaða aðstæður væri átt við að öðru leyti en því að kveðið var á um það í lögunum að erlendum veiðiskipum væri ávallt heimilt að koma til hafnar í neyðartilvikum.
    Upphaflegu frv. sjútvrh. um rétt til veiða í efnahagslögsögu Íslands, sem var 135. mál á 115. löggjafarþingi, var breytt í grundvallaratriðum í meðförum þingsins. Í frv. var gert ráð fyrir að erlendum veiðiskipum væri löndun heimil eða eins og kom fram í framsöguræðu sjútvrh., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Meginbreyting þessa frv. frá gildandi rétti er að erlendum veiðiskipum verður almennt heimilt að landa eigin afla og selja í íslenskum höfnum og sækja þangað þjónustu fyrir skipið.``
    Sjútvrh. var hins vegar samkvæmt frv. heimilt að takmarka þær heimildir vegna skipa er stunduðu veiðar úr nytjastofnum sem veiðast bæði innan og utan íslenskrar efnahagslögsögu hefðu íslensk stjórnvöld ekki gert samning um nýtingu viðkomandi stofns við stjórnvöld hlutaðeigandi ríkis.
    Helstu rök fyrir breytingunni sem gerð var í meðförum þingsins á þessu þingmáli voru þau að löndunarbannið drægi úr líkum á að aðrar þjóðir gætu nýtt sér sameiginlega stofna og hefði bannið því þau áhrif að ýta undir að samningar yrðu gerðir um þá stofna sem ósamið er um við nágrannaþjóðir okkar. Kom í þessu tilliti einkum til álita sameiginlegur karfastofn á hafsvæðinu milli Grænlands og Íslands. Í umræðum um málið var þó vikið að þeirri mikilvægu undantekningu sem hefur verið gerð á þessu grundvallarsjónarmiði að því er varðar rækjustofninn á Dohrn-banka sem er sameign Íslendinga og Grænlendinga. Landað hefur verið úr þessum stofni árum saman þótt ekki hafi verið samið um nýtingu hans við grænlensk yfirvöld. Hefur komið fram að ein af forsendunum fyrir því að sjútvrn. hefur ekki treyst sér til að banna að landa rækju sé sú að það telur bann við löndun úr sameiginlegum rækjustofni Grænlendinga og Íslendinga ekki líklegt til að knýja á um að samkomulag náist um nýtingu stofnsins.
    Það er því ljóst að í framkvæmd laganna hefur verið verulegur munur á því hvernig heimildum til löndunar hefur verið beitt eftir því um hvaða afla er að ræða.
    Það er rétt að geta þess að löndunarbann á karfa úr sameiginlegum stofnum hefur ekki leitt til þess að samið hefur verið við nágrannaþjóðir okkar um karfaveiðarnar. Það verður að segjast alveg eins og er að það er afskaplega ólíklegt að löndunarbann á karfa muni hafa þau áhrif að ýta undir að samningar verði gerðir milli Grænlendinga og Íslendinga um karfastofninn. Ástæður þess eru margvíslegar en þó ræður þar mestu að á Grænlandi er mjög takmarkaður áhugi fyrir því að veiða karfa. Er það bæði vegna þess að verð á karfa er þar metið svo lágt að það þjóni ekki hagsmunum Grænlendinga að gera út á hann sjálfir. Þeir eru til þess að gera ánægðir með þá samninga sem þeir hafa nú við t.d. Evrópusambandið um að fá skipti á karfakvótanum fyrir þorskkvóta. Grænlendingar gera ekki út á karfa en þeir gera út á þorsk og því eru þeim þessi skipti hagstæð. Það er einnig ljóst að karfakvóti ESB hefur ekki verið veiddur að öllu leyti og má því segja að hlutur Grænlendinga í þessum samningi sé að nokkru leyti pappírsfiskur.
    Grænlendingar hafa engin skip sem henta til karfaveiða og það má því segja að það sé mjög lítill grundvöllur fyrir því að þeir leggi út í veiðar af þessu tagi, þeir eru því ánægðir með skipan mála og engin ástæða fyrir þá að fara sérstaklega út í samninga við Íslendinga um þennan stofn og síst af öllu er hægt að færa fyrir því sterk rök að löndunarbann á karfa ýti undir að slíkur samningur verði gerður. Það eru hreinlega ekki forsendur fyrir þessum samningi og því engin ástæða til þess að láta löndunarbann gilda um karfastofninn fremur en um rækjustofninn.
    Virðulegi forseti. Í ljós hefur komið að sjútvrn. hefur litið svo á að ekki séu neinar forsendur fyrir því að nýta ákvæði laganna um heimild til landana þegar um er að ræða skip sem veiða úr sameiginlegum stofnum sem ósamið er um að öðru leyti en að því er varðar rækjuaflann. Hefur þetta komið berlega í ljós þegar Útgerðarfélag Akureyringa hefur sótt um leyfi til að landa karfaafla úr togara Mecklenburger Hochseefischerei sem fyrirtækið á meiri hluta í. Er ljóst að ráðuneytið hefur mótað viðhorf sitt í samræmi við umræður á Alþingi um þetta mál þar sem löndunarbann var lögfest sem grundvallarregla og átti að þjóna því hlutverki að knýja nágrannaþjóðir okkar til samninga og frávik frá því löndunarbanni var

skilgreint sem meiri háttar utanríkismál.
    Við framkvæmd laganna hefur komið í ljós að aukin atvinna, sem hlýst af löndunum erlendra skipa, er ekki talin koma til álita þegar ráðuneytið fjallar um undanþáguheimildir. Eru meintir samningahagsmunir Íslendinga látnir vega þyngra á vogarskálunum en áhrif á atvinnulíf sem þó er í meiri lægð en verið hefur lengi. Það er því ljóst að þessir meintu samningshagsmunir sem erfitt er að rökstyðja vega þyngra í umræðunni og í framkvæmdinni heldur en þeir atvinnuhagsmunir sem tengjast löndunum erlendra togara hér á landi sem eru þó miklu nærtækari möguleikar.
    Í því frv. sem hér er lagt fram, virðulegi forseti, er gert ráð fyrir að horfið verði til þess grundvallarsjónarmiðs, sem kom fram í frv. sjútvrh. sem lagt var fram á 115. löggjafarþingi, að erlendum veiðiskipum sé heimilt að landa eigin afla og selja í íslenskum höfnum. Sjútvrh. er þó heimilt að takmarka heimildir til löndunar þegar um er að ræða veiðar úr sameiginlegum nytjastofnum sem veiðast bæði innan og utan íslenskrar efnahagslögsögu hafi íslensk stjórnvöld ekki gert samning um nýtingu viðkomandi stofns við stjórnvöld hlutaðeigandi ríkis og alvarlegur ágreiningur er um stjórnun á nýtingu stofnsins. Er í því orðalagi tekið tillit til 5. gr. í bókun 9 með samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði. Er gert ráð fyrir að sjútvrh. geti ekki beitt undanþáguákvæði 2. mgr. nema til þess standi gild rök og ljóst sé að það þjóni íslenskum hagsmunum.
    Hér er á ferðinni þingmál sem miðar að því að færa núgildandi lög um rétt til veiða í efnahagslögsögu Íslands í áttina til þess frv. sem sjútvrh. lagði fram upphaflega á 115. löggjafarþingi en í því frv. var rétturinn til löndunar grundvallarreglan en heimild til löndunarbanns fráviksákvæði. Þetta gengur því gegn þeirri breytingu sem gerð var í þinginu sem fólst í því að setja löndunarbannið sem grundvallarreglu en heimildina til þess að veita leyfi til að landa afla sem fráviksatriði.
    Eini munurinn á þessu þingmáli sem hér er lagt fram á þskj. 313 og á frv. sjútvrh. á 115. löggjafarþingi er það að í lok 2. mgr. 3. gr. laganna, eins og frv. gerir ráð fyrir að hún verði, er tekið fram að það sé áskilið að alvarlegur ágreiningur sé um stjórnun og nýtingu stofnsins. Þar er verið að taka tillit til bókunar 9 sem fylgir samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði. Í 5. gr. þeirrar bókunar, sem fjallar um viðskipti með fisk og aðrar sjávarafurðir, er svohljóðandi ákvæði, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Samningsaðilar skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að öll fiskiskip, sem sigla undir fána annarra samningsaðila, hafi jafnan aðgang og þeirra eigin fiskiskip að höfnum og markaðsmannvirkjum vegna frumvinnslu ásamt öllum tækjum og aðstöðu sem þeim tengjast.
    Þrátt fyrir ákvæði undanfarandi málsgreinar má samningsaðili hafna löndun á fiski úr fiskistofnum sem báðir aðilar hafa hagsmuni af að nýta og sem alvarlegur ágreiningur er um stjórnun á.``
    Þetta orðalag, virðulegur forseti, er tekið upp á þskj. í brtt. sem frv. felur í sér.
    Ég tel því að í framkvæmd þessara laga hafi það komið mjög skýrt í ljós að það eru engin sérstök rök fyrir því að löndunarbann sem verið hefur á karfa úr sameiginlegum karfastofni Íslendinga og Grænlendinga hafi ýtt undir samninga um þann stofn. Samningar hafa ekki verið gerðir um rækjustofnana sem eru sameiginlegir. Þar hefur löndun verið heimil og má því segja að nokkurs ójafnvægis hafi gætt í meðferð stjórnvalda á rækjuafla annars vegar og þeirri atvinnu sem hefur hlotist af því að það hefur verið heimilt að afla rækju úr sameiginlegum stofnum og svo að því er varðar karfaaflann en þeim afla hefur verið bannað að landa.
    Virðulegi forseti. Ég held að hér sé um að ræða mikilvægt mál sem varðar í raun og veru atvinnulífið miklu. Það skiptir miklu máli hvort við leiðum í lög sem grundvallarreglu frelsi eða höft. Upphaflega frv. um breytingu á lögum um rétt til veiða í efnahagslögsögu Íslands gekk út á heimild til löndunar. Það var löndunarfrelsi en undanþáguákvæði á því. Lögin sem samþykkt voru fólu í sér grundvallarregluna um löndunarbann. Ég hygg að það hafi verið óheillaspor sem þarna var stigið og full ástæða til að leiðrétta það en tilraun er gerð til þess með þessu þingmáli.
    Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu og legg til að eftir 1. umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hæstv. sjútvn.