Jöfnun verðlags

80. fundur
Mánudaginn 30. janúar 1995, kl. 16:15:28 (3645)

[16:15]
     Flm. (Ragnar Arnalds) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um jöfnun verðlags. Flm. eru ásamt mér Margrét Frímannsdóttir og Jóhann Ársælsson.

    Markmið þessa frv. kemur skýrt fram í 1. gr. en það er að stuðla að því að lífskjör þjóðarinnar verði sem jöfnust, óháð búsetu. Í þeim tilgangi ber að tryggja eftir því sem kostur er að algengustu lífsnauðsynjar og almenn þjónusta verði boðnar á sama verði hvar sem er á landinu.
    Það er tvímælalaust löngu orðið tímabært að algengustu lífsnauðsynjar og almenn þjónusta sé boðin á sama verði hvar sem er á landinu. Lífskjör þjóðarinnar eiga að vera sem jöfnust, óháð búsetu. En staðreyndin er sú að á mörgum sviðum er verulegur munur á verðlagi eftir landshlutum. Þar má nefna bæði rafmagns- og hitunarkostnað, símakostnað, smásöluverð í verslunum og yfirleitt verð á hvers konar þjónustu sem háð er flutningskostnaði.
    Í þessu frv. er leitast við að jafna þennan mun á þremur sviðum, þ.e. hvað varðar símakostnaðinn, raforkuverðið og hvað varðar heildsöluverð á hvers konar söluvarningi.
    Ef við lítum fyrst á símakostnaðinn þá segir í 2. gr. frv., með leyfi forseta:
    ,,Eigi síðar en 1. apríl 1995 skal samgrh. ákveða að landið allt sé eitt gjaldsvæði og öll símtöl innan lands séu verðlögð á sama hátt, óháð vegalengdum milli notenda.``
    Það verður ekki séð að nokkur rök eða nokkur sanngirni mæli með því að dýrara sé fyrir símnotanda í einum landsfjórðungi en öðrum að hringja til höfuðborgarsvæðisins, svo dæmi sé nefnt. Hér syðra búa langflestir landsmenn og þar eru langflestar ríkisstofnanirnar, meiri hluti landsmanna. Hingað þurfa margir að hringja. Það eru engin tæknileg rök sem mæla með því að það eigi þá að vera dýrara að hringja inn á þetta svæði úr nálægum sveitarfélögum eða vestan eða austan eða norðan af landi. Mishá gjöld eftir svæðisnúmerum er tvímælalaust leifar frá liðinni tíð þegar símaþjónustan var handvirk. Það má vel vera að það hafi á sínum tíma verið dýrara að tala frá Reykjavík til Akureyrar heldur en frá Reykjavík til Hafnarfjarðar ef tekið var tillit til þess hve margir símastaurar væru á leiðinni. En það er bara liðin tíð að samtöl fari fram í gegnum símastaura eða með aðstoð þeirra. Nú er þetta í loftinu meira eða minna og þarna er um að ræða mismunun sem á engan rétt á sér, sem er algjörlega úrelt og á því tafarlaust að afnema.
    Ódýrustu þriggja mínútna símtöl kosta núna 5,60 kr. en þegar taxtinn er hæstur geta símtölin kostað 21,20. Hlutfallið er því tæplega 1:4 nánar tiltekið 1:3,8. Þetta hlutfall er í æpandi ósamræmi við veruleikann og á engan rétt á sér. Þetta hlutfall á auðvitað að vera 1:1 það á að vera nákvæmlega jafndýrt alls staðar að tala í símann. Það má að vísu viðurkenna að hlutfallið hefur farið lækkandi á undanförnum árum. Það var miklu hærra, það var á sínum tíma 1:10 en það hefur farið lækkandi. Hvers vegna er þá ekki þetta spor stigið til fulls og full jöfnun framkvæmd? Það er mér algjörlega óskiljanlegt.
    Ég vil í þessu sambandi geta þess að Póst- og símamálastofnunin greiðir árlega 900 millj. kr. til ríkisins, það er um 10% af tekjum. Þarna er því augljóslega um svigrúm að ræða ef stofnunin væri látin greiða í ríkissjóð eitthvað minna, hún væri skattlögð eitthvað örlítið minna þá væri auðvelt að skapa svigrúm til að framkvæma fullan jöfnuð símgjalda.
    Ef við snúum okkur svo að jöfnun raforkuverðs þá verðum við að viðurkenna að þar er um miklu flóknara mál að ræða einfaldlega vegna þess að skipulag raforkumála er mjög flókið. En hins vegar þarf enginn að efast um að það er hægt að ná fullri jöfnun raforkuverðs, til þess eru margar færar leiðir. Í þessu frv. er við það miðað að vandinn sé leystur með sameiginlegu átaki Landsvirkjunar og ríkissjóðs svo og hugsanlega einhverju framlagi orkuneytenda í formi orkugjalds ef talið er að ekki verði hjá því komist. Rafmagnsverð til ljósa og heimilisnotkunar er núna 14% hærra hjá Rafmagnsveitum ríkisins en hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Þarna er munurinn vissulega ekki eins mikill og er í símagjöldunum, þarna er miklu minni munur því það var 400% munur í símagjöldunum en hér er þó ekki nema 14% munur. En sá munur er auðvitað allt of mikill. Munurinn hefur vissulega minnkað verulega á síðustu árum og á vissum sviðum er svipað verð t.d. á iðnaðartöxtum sem m.a. gilda fyrir fiskvinnsluna, það er góðra gjalda vert. En því miður er þessi mismunur enn fyrir hendi í raforkusölu til ljósa og til almennrar heimilisnotkunar. Það er talið að árssala Rafmagnsveitna ríkisins til ljósa og almennrar heimilisnotkunar mundi lækka um 100 millj. kr. ef taxtinn væri gerður hliðstæður því sem er hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Af því sjáum við að það kostar ekki nema 100 millj. kr. að ná þarna fram fullum jöfnuði milli Rafmagnsveitna ríkisins annars vegar og Rafmagnsveitu Reykjavíkur, það er ekki stór upphæð. Þegar menn velta fyrir sér hver sé ástæðan fyrir því að þessi munur er fyrir hendi á töxtum þá verður að hafa það í huga að Rafmagnsveitur ríkisins eru látnar bera kostnað af viðhaldi og afskriftum af dreifiveitum um sveitir landsins og þessar afskriftir, bara afskriftirnar einar af dreifilínum í sveitum munu kosta 164 millj. kr. árlega. Rarik fær örlítið brot af þessum kostnaði árlega greiddan úr ríkissjóði, þ.e. 14 millj. kr. en það dregur skammt. Þarna standa út af 150 millj. af kostnaði sem Rarik verður að standa undir og hliðstætt gildir um Orkubú Vestfjarða.
    Ég hef aldrei skilið rökin fyrir því að viðskiptavinir Rafmagnsveitna ríkisins, sem m.a. eru að sjálfsögðu í þéttbýliskjörnum víðs vegar um land, eiga einir að standa undir kostnaði af dreifikerfum í sveitum. Af hverju skyldu Reykvíkingar eða Hafnfirðingar eða Akureyringar ekki alveg eins standa undir þessum kostnaði af dreifikerfi í sveitum og þeir sem búa í öðrum þéttbýliskjörnum á landinu? Það er alveg ljóst að ef Rafmagnsveitur ríkisins fengju eitthvað þessum afskriftum, t.d. helming af afskriftum sveitalínanna, greiddan af almannafé árlega þá ætti fyrirtækið auðvelt með að bjóða raforku til heimilisnota á hliðstæðu verði og Rafmagnsveita Reykjavíkur.
    Rafhitunarkostnaður var til umræðu fyrr í dag. Þar kom skýrt fram í fyrirspurn frá hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni sem hæstv. ráðherra Sighvatur Björgvinsson svaraði áðan að enn hefur jöfnuður ekki

náð ýkja langt hvað rafhitun snertir. Það vantar mikið á að þar hafi viðundandi markmið náðst. Ég upplýsti það þá og vil endurtaka hér að rafhitunarkostnaður er nú talinn nærri tvöfalt meiri fyrir meðalheimili en hitunarkostnaður samkvæmt verðskrá Hitaveitu Reykjavíkur. Ég er ekki að segja að það sé raunhæft að jafna þennan mun að fullu þannig að það verði nákvæmlega jafndýrt að hita hús með raforku úti á landi eins og það er að kynda hús með hitaveituvatni hér í Reykjavík. Ég ímynda mér ekki að það markmið sé raunhæft í bráð, þar er margt fleira sem kemur inn í myndina sem ruglar hana og gerir lausn vandans erfiðari, t.d. það að við erum með hitaveitur hringinn í kringum landið sem eru miklu dýrari í rekstri og selja orku á mikið hærra verði heldur en gert er hér í Reykjavík. Ég reikna ekki með að það yrði farið að fara með rafhitunartaxtana eina sér niður fyrir þann hitunarkostnað sem algengur er hjá hitaveitum úti á landi þar sem hann er verulega miklu hærri en í Reykjavík. En það mætti kannski setja sér það markmið að lækka þennan mun á hitunarkostnaði með rafhitun annars vegar og svo hitunarkostnaði samkvæmt hitaveitu í Reykjavík um t.d. 50%. Mér telst svo til og færi rök fyrir því í greinargerð að þetta muni kosta um 250 millj. kr. þegar rafmagnsveiturnar eru annars vegar.
    Með þessi rök í huga þá höfum við sem sagt flutt tillögu um það, sem er 3. gr. frv., að eigi síðar en 1. apríl 1995 skuli Landsvirkjun bjóða raforku í heildsölu til dreifiveitna á sama verði um land allt miðað við afhendingu orkunnar í spennistöð viðkomandi dreifiveitu. Jafnframt að ríkisstjórnin skuli vinna að samræmingu raforkuverðs í smásölu með ákvörðun hámarksverðs sem komi til framkvæmda eigi síðar en 1. apríl 1995.
    Við segjum líka í þessari frumvarpsgrein að tryggja beri að mismunur á rafhitunarkostnaði og verðskrá Hitaveitu Reykjavíkur fyrir upphitun meðalheimilis lækki um helming frá því sem var 1. sept. 1994 fram til 1. apríl 1995. Í því skyni að gera dreifiveitum raforku kleift að laga sig að samræmdu orkuverði verði ríkissjóði heimilt að yfirtaka hluta af skuldum þeirra, svo og að leggja fast gjald á alla raforkuvinnslu til að standa undir viðhaldi og afskriftum af sveitalínum. Þetta teljum við að sé lausnarorðið í þessum vanda en til viðbótar og jafnhliða gæti að sjálfsögðu komið til greina að auka niðurgreiðslur.
    Loks eru það verðlagsmálin almennt sem við gerum hér tillögu um. Það er svo að verðlag er verulega miklu hærra í matvöruverslunum úti á landi en er hér á höfuðborgarsvæðinu. Verðlagsstofnun kannaði þetta mál haustið 1991 í á annað hundrað matvöruverslunum um land allt og fékk það út að vöruverð í þessum verslunum væri allt að 9% hærra úti á landi en er á höfuðborgarsvæðinu. Það var hæst á Vestfjörðum en heldur lægra í öðrum landshlutum. Og það sem verra er, að þessi munur fer verulega vaxandi. Miðað við könnun sem hafði verið gerð tveimur árum áður var ljóst að það dregur frekar í sundur en hitt milli höfuðborgarsvæðisins annars vegar og landsbyggðar hins vegar.
    Í skýringum Verðlagsstofnunar á þessu fyrirbrigði kom það fram að ein af mörgum ástæðum gæti verið sú að stórmarkaðir á höfuðborgarsvæðinu hafa veitt vaxandi afslátt. Þeir hafa fengið hjá heildsölum lægra verð en það leikur sterkur grunur á því að þeir sem hafi orðið að borga þann kostnað séu einmitt verslanir á landsbyggðinni sem hafi orðið að gjalda fyrir í hærra innkaupsverði frá heildsölum. Það hefur þá að sjálfsögðu leitt til hærra smásöluverðs úti um land. Sem sagt, það bendir margt til þess að samkeppni stórmarkaða á höfuðborgarsvæðinu sem hefur mjög aukist í seinni tíð hafi orðið til þess að hækka verulega verðlag úti á landsbyggðinni. Landsbyggðin hefur verið látin borga herkostnaðinn af verðstríðinu hér í Reykjavík. Við teljum því að það sé óhjákvæmilegt að Samkeppnisstofnun sé falið að setja reglur sem geti stuðlað að sem jöfnustu vöruverði í landinu og að landsbyggðin njóti ekki verri kjara en gerist á höfuðborgarsvæðinu. Í því skyni er sett fram tillaga um 4. gr. á þann veg að það sé gert að hlutverki Samkeppnisstofnunar að vinna að því að jafna vöruverð í landinu og að Samkeppnisstofnun skuli stuðla að því að heildsölufyrirtæki bjóði smásöluverslunum vörur á sama verði um land allt og undirboð á einum stað séu ekki fjármögnuð með hærra verði annars staðar.
    Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði máli þessu vísað til efh.- og viðskn.