Jöfnun verðlags

80. fundur
Mánudaginn 30. janúar 1995, kl. 16:42:12 (3647)


[16:42]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. flm. fyrir að leggja þetta frv. fram, reyndar ekki í fyrsta sinn sem það er lagt fram. Kannski má geta þess í leiðinni að ég hafði einmitt hug á því á þessu þingi að leggja fram sérstaklega frv. um það að landið skyldi gert að einu gjaldsvæði Pósts og síma og sérstaklega með símtöl að þau væru öll verðlögð á sama hátt. En þar sem ég sá að þetta var hér inni í þessu frv. þá finnst mér í raun ekki ástæða til þess að leggja það fram sérstaklega en vil að sjálfsögðu einmitt ekki síst þess vegna taka undir það sem hér segir í 2. gr. frv.
    Þó að mikið hafi áunnist í þessum málum til jöfnunar í símamálum þá er löngu orði tímabært að landið sé allt eitt gjaldsvæði. Það mætti kannski einnig vísa því til þeirrar nefndar sem núna er að ræða um jöfnun atkvæðisréttar og hugsanlega landið allt eitt kjördæmi, sem vafalaust verður í framtíðinni, að huga að því að landið verði eitt gjaldsvæði í símamálum og eitt gjaldsvæði hvað snertir allar nauðsynjar sem fólk þarf á að halda. Ég held að það þurfi líka að stefna að því. Ef við eigum að standa undir nafni að þetta sé velferðarþjóðfélag, þá held ég að það sé eitt af þeim meginmarkmiðum sem við verðum að ná að fólk geti búið við svona svipað verðlag í nauðsynjum hvað varðar lífskjör.
    Það er kannski erfitt um vik eins og stendur í 3. gr. að tryggja að það sé enginn mismunur á rafhitunarkostnaði og verðskrá Hitaveitu Reykjavíkur fyrir upphitun heimilis. Við vorum einmitt að ræða þetta mál rétt áðan í fyrirspurnum og sú sem hér stendur hefur oftar en einu sinni rætt það mál í ræðustól á hv. Alþingi en mér finnst einmitt ástæða til að gera hér aðeins betur grein fyrir því eins og þau mál standa núna að það hefur ósköp lítill árangur náðst á þessu kjörtímabili þar sem það er viðurkennd staðreynd frá

Rafmagnsveitum ríkisins að kostnaður við upphitun á þeim svæðum sem nota raforku til húshitunar, kostnaður þeirra heimila er nánast nákvæmlega sá sami, jafnvel aðeins meiri heldur en hann var í upphafi kjörtímabils þessarar ríkisstjórnar. Það hefur því engin jöfnun náðst þó það hafi verið auknar niðurgreiðslur eins og þeir réttilega bentu á í umræðum áðan.
    Vissulega hafa verið auknar niðurgreiðslur í krónum talið en jafnframt hefur verðið hækkað. Það hefur hækkað þó nokkuð oft frá Landsvirkjun og dreifiveiturnar hafa orðið að taka á sig hækkun líka þar af leiðandi. Síðan hefur virðisaukaskattur verið lagður á húshitun og þannig stendur í dag að kostnaður þeirra neytenda sem búa á þessum svokölluðu köldu svæðum er nánast sá sami miðað við byggingarvísitölu og hann var um mitt ár 1991. Það er leitt til þess að vita að ríkisstjórnin hefur á þessu kjörtímabili lagt 14% virðisaukaskatt á húshitun og það skilar ríkisstjórninni 400 millj. kr. Þegar búið er að taka tillit til þeirrar niðurgreiðslu sem felst í því að jafna kostnað neytandans af virðisaukaskattinum þá hefur ríkissjóður eftir 400 millj. kr. sem heimilin greiða í þennan 14% virðisaukaskatt. Það er nokkurn veginn nákvæmlega sú upphæð sem notuð er til niðurgreiðslu á rafhitun í dag. Þannig hefur nú ríkisstjórnin farið að því á þessu kjörtímabili að standa við loforð sitt um lækkun húshitunarkostnaðar að hún hefur aðeins lagt á virðisaukaskatt á húshitun og fengið þannig tekjur til að standa undir niðurgreiðslunum en þær niðurgreiðslur sem voru í upphafi kjörtímabilsins eru raunverulega ekki lengur fyrir hendi í fjárlögum.
    Það er ein hugmynd sem er sett fram í 3. gr. þessa frv. um að hugsanlega sé hægt að gera eitthvað í þessu með því að leggja á fast gjald á alla raforkuvinnslu til að standa undir viðhaldi og afskriftum af sveitalínum vegna þess að það er mjög erfitt að halda við öllum þeim línum sem þurfa að liggja út um landið. Rafmagnsveitur ríkisins hafa engan veginn fengið eðlilegt framlag á fjárlögum til að halda við dreifikerfinu og gerð hefur verið úttekt á því að það þarf nokkur hundruð millj. kr. til þess að halda því við. Hins vegar hefur alltaf verið mjög lítið lagt til þess málaflokks á fjárlögum. Sú hugmynd að leggja fast gjald á alla raforkuvinnslu er í raun og veru góðra gjalda verð og það veltir kannski upp þeirri spurningu hvort það sé í raun og veru eðlilegt að allir þeir sem geta nýtt orkulindir okkar eins og fallvötn og hita í jörðu eigi að hafa aðgang að því án þess að greiða neitt fyrir það. Þá erum við auðvitað farin að ræða um hvort auðlindaskattur í víðara samhengi ætti þá að gilda. Einu sinni var verðjöfnunargjald líka lagt á raforku sem var síðan notað til að jafna út mismundandi kostnað. En það var fellt niður og hefur ekki verið tekið upp aftur hin síðari ár.
    Ég held að það sé mjög nauðsynlegt að vinna að jöfnun húshitunarkostnaðar og ég minni aftur á það sem kom áðan til umræðu, þ.e. till. til þál. um lækkun húshitunarkostnaðar. Ef eftir henni væri unnið þá held ég að þetta markmið mundi alveg nást. Að þessari þáltill. stóðu fulltrúar frá öllum stjórnmálasamtökum og það átti samkvæmt áætlun ríkisstjórnarinnar í upphafi þessa kjörtímabils að vinna eftir þáltill. þó hún hafi ekki verið samþykkt fyrir lok síðasta kjörtímabils en það hefur bara því miður ekki verið gert því eins og ég sagði er það nákvæmlega sami kostnaður sem neytendur á hinum köldu svæðum þurfa að greiða í dag ef við miðum við byggingarvísitölu. Raunar hef ég línurit frá Rafmagnsveitum ríkisins þar um þannig að það er hér staðfest.
    4. gr. er um að vinna að því að jafna vöruverð í landinu og að breyta lögum um Samkeppnisstofnun og samkeppnislögunum. Það veltir aftur upp þeirri spurningu hvort ekki þurfi verulega að skoða það hvort eitthvað er til í því að heildsölufyrirtæki bjóði smásöluverslunum úti á landi vörur á hærra verði, þau selji þeim á hærra verði vörur í heildsölu en þau gera hér á Reykjavíkursvæðinu og þannig geti þau boðið þetta lægra hér og stórverslanir selt síðan vöruna aftur á lægra verði. Með öðrum orðum: Er landsbyggðin að borga þarna fyrir lægra verð á höfuðborgarsvæðinu? Ég teldi það vera eitt af hlutverkum Samkeppnisstofnunar að skoða þetta mál.
    Ég fagna því að þetta frv. er komið fram og það vekur a.m.k. athygli á því óréttlæti sem viðgengst hér á landi hvað snertir nauðsynjar fjölskyldna út um landið, hversu misjafnt það er og hvaða aðgang fólk hefur að þessari þjónustu og þessum vörum á sambærilegum kostnaði. Mér finnst ekki síður þurfa að skoða það í tengslum við þá nýju kjarasamninga sem bæði ríki og vinnuveitendur þurfa að gera við stéttarfélög á næstu mánuðum að skoða hversu misjafn framfærslukostnaður heimilanna er í landinu.
    Ég þakka fyrir þetta enn og aftur enda þótt mér sýnist ef maður er raunsær að því miður takist ekki að afgreiða þetta fyrir þinglok en allt um það þá vekur það athygli á þessu þarfa máli.