Framleiðsla og sala á búvörum

80. fundur
Mánudaginn 30. janúar 1995, kl. 17:00:55 (3649)

[17:00]
     Flm. (Páll Pétursson) :
    Herra forseti. Það gerðist hér milli jóla og nýárs að loks fékkst niðurstaða í GATT-málið og 29. des. var samþykkt hér á Alþingi svohljóðandi ályktun:

    ,,Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd samning um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar sem undirritaður var í Marakess í Marokkó 15. apríl 1994.
    Alþingi ítrekar að þrátt fyrir fullgildingu samningsins gildi óbreytt skipulag á innflutningi landbúnaðarvara þar til lögum hefur verið breytt með hliðsjón af samningnum. Þær lagabreytingar, þar með taldar tollabreytingar, skulu gerðar með hliðsjón af GATT-tilboði Íslands til að veita innlendri framleiðslu nauðsynlega vernd. Landbrh. verði tryggt forræði um allar`` --- ég endurtek --- ,,allar efnislegar ákvarðanir í því stjórnkerfi sem varðar landbúnað og innflutning landbúnaðarvara og komið verður á fót á grundvelli þessarar ályktunar.``
    Í framhaldi af þessari ályktun Alþingis hef ég leyft mér ásamt með hv. þm. Guðna Ágústssyni og Jóhannesi Geir Sigurgeirssyni að flytja frv. sem prentað er á þskj. 547, frv. til laga um breyting á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum.
    Eins og menn muna þá urðu miklar umræður á sl. vori um búvörulögin og mikil togstreita í landbn. um það hvernig þeim málum skyldi skipað. Í búvörulögin var bætt við málsgrein sem nú er orðin úrelt og ekki á lengur við. Hún hljóðar svo, herra forseti:
    ,,Við ákvörðun verðjöfnunargjalda skal ráðherra hafa sér til ráðuneytis nefnd þriggja manna. Skal einn skipaður án tilnefningar, annar af fjmrh. og hinn þriðji af viðskrh. Nefndin skal afla upplýsinga um verð sem álagning gjaldanna miðist við en jafnframt tryggja nauðsynlegt samráð milli ráðuneyta þannig að þess sé gætt að samanlögð álagning innflutningsgjalda sé innan þeirra marka sem greinir í 6. mgr. Náist ekki samkomulag í nefndinni skal ráðherra bera málið undir ríkisstjórn áður en ákvörðun er tekin um upphæð verðjöfnunargjalda.``
    Niðurstaða deilnanna í fyrravor var sem sagt sú að settur var yfirfrakki, og það frekar tveir en einn, á hæstv. landbrh. í þessu efni. Nú hefur Alþingi ákveðið skipan þessara mála í framtíðinni og það er einungis lagahreinsun að samþykkja þetta frv.
    Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. landbn.