Vernd svæðislýsinga smárása í hálfleiðurum

81. fundur
Þriðjudaginn 31. janúar 1995, kl. 13:55:20 (3657)


[13:55]
     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Ég get ekki stillt mig um að segja nokkur orð. Það vill svo til að þetta efni hefur verið rætt hér í þingsölum áður, þ.e. vernd svæðislýsinga smárása í hálfleiðurum. Ég ætla að rifja upp þá sögu.
    Eins og mörg önnur frv. sem koma úr Brussel- fabrikkunni þá settust menn við að þýða frv. um þetta efni frá Brussel. Þeir vissu nú ekkert um hvað þeir voru að fjalla því þeir skildu ekki hvað voru hálfleiðarar frekar en smárásir eða svæðislýsingar og röðuðu saman orðum í texta. Hæstv. fyrrv. iðnrh., Jón Sigurðsson, mælti fyrir þessu frv. á Alþingi og það var auðheyrt á lestri hans að hann hafði heldur ekki hugmynd um hvað hann var að segja sem var þó óvenjulegt með þann mann sem hafði náttúrlega yfirburðagáfur yfir okkur hina eins og öllum er kunnugt. Síðar kom það í ljós við meðferð málsins í iðnn. þegar við fórum að skoða frv., við skildum það ekki heldur af því að það hafði verið vitlaust þýtt. Í staðinn fyrir smárásir stóð hálfleiðari ef ég man rétt fremur heldur en öfugt. Þegar búið var að raða orðunum rétt í textann kom í ljós að það var svolítil meining í frv. En sýnilega hefur ekki verið nóg að gert og þess vegna neyðist hæstv. iðnrh. til að flytja þetta frv. hér núna. Ég hef ekki efnislegar athugasemdir við það en rifja þessa sögu upp til gamans vegna þess að hér er um mjög merkilegt mál að ræða sem á skilið að eiga sess í þingsögunni.