Kísilgúrverksmiðja við Mývatn

81. fundur
Þriðjudaginn 31. janúar 1995, kl. 13:59:05 (3659)

[13:59]
     Iðnaðarráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Frv. þetta, frv. til laga um breytingu á lögum nr. 80/1966, um kísilgúrverksmiðju við Mývatn, hefur tvíþættan tilgang. Annars vegar miðar frv. að því að breyta skatthlutfallstölu 9. gr. laga um kísilgúrverksmiðju við Mývatn og hins vegar hefur frv. þann tilgang að lögfesta ákvæði um sérstakan sjóð sem ætlað er að efla atvinnulíf í þeim sveitarfélögum sem nú eiga verulegra hagsmuna að gæta vegna starfsemi Kísiliðjunnar hf.
    Hvað varðar fyrra atriðið þá kemur fram í 9. gr. laga um kísilgúrverksmiðju við Mývatn að ríkisstjórninni er veitt heimild til að kveða svo á með samningi að þau félög sem stofnuð voru til að framleiða og selja kísilgúr úr Mývatni, annars vegar Kísiliðjan hf. og hins vegar Celite Ísland hf. greiði hvort um sig einn tekjuskatt í stað annarra skatta. Skatthlutfallstala laganna er 45% en jafnframt var ríkisstjórninni heimilt að kveða svo á að skattur framleiðslufélagsins færi eigi niður úr tilteknu marki fyrir hvert skattár án tillits til tekna. Lágmarksskattgreiðsla þessi er nú 15 þús. Bandaríkjadollarar á ári.
    Eins og kunnugt er hafa á síðustu árum verið gerðar breytingar á skattlagningu hlutafélaga hér á landi. Breytingum þessum er lýst í athugasemdum með frv. og kemur þar fram að þær hafa leitt til lækkunar á skatthlutfalli hlutafélaga. Þykir rétt og eðlilegt að gera hliðstæðar breytingar á skatthlutfallstölu laga um kísilgúrverksmiðju við Mývatn sem í reynd urðu hjá öðrum fyrirtækjum. Að mati fjmrn. hafa ofangreindar skattbreytingar lækkað skatthlutfall hlutafélaga um tæplega 6% af hagnaði eða um 17% af álögðum tekjuskatti. Svarar það til lækkunar á skatthlutfalli greindra laga í 36--39%. Í ljósi þessa alls er því lagt til að skatthlutfallstala laga nr. 80/1966 verði lækkað úr 45% í 36% og að breyting þessi verði látin gilda frá og með álagningu ársins 1994 vegna rekstrar á árinu 1993 í samræmi við gildistökutíma hinnar almennu lækkunar á skatthlutfalli fyrirtækja.
    Námaleyfi Kísiliðjunnar hf. var endurnýjað 7. apríl 1993. Í námaleyfinu er ákvæði um stofnun sérstaks sjóðs sem ætlað er að kosta undirbúning aðgerða til að efla atvinnulífið í sveitarfélögum sem nú eiga verulegrar hagsmuna að gæta vegna starfsemi Kísiliðjunnar hf. Ráðstöfunarfé sjóðsins er tiltekinn hluti af námagjaldi verksmiðjunnar, nánar tiltekið 20% til ársins 2001 og 68% frá og með árinu 2002 til og með ársins 2010 en námaleyfið rennur út í lok þess árs. Ef miðað er við að framleiðsla Kísiliðjunnar haldist í svipuðu horfi myndi hlutur sjóðsins af námagjaldinu vera 500--600 þús. kr. á ári á fyrra tímabilinu en um 5 millj. kr. á ári á því seinna. Það hefur sýnt sig að áðurnefndum sjóði hefur verið markaður fullþröngur bás. Því tel ég nauðsynlegt að efla og styrkja þennan sjóð svo hann verði færari um að sinna hlutverki sínu. Í því skyni er í frv. þessu lagt til að bætt verði nýrri grein við lögin um kísilgúrverksmiðju við Mývatn þar sem tilvist, tilgangur og tekjur sjóðsins eru bundnar í lög. Jafnframt er lagt til að ráðstöfunarfé sjóðsins verði aukið með þeim hætti að heimilt verði að láta renna til sjóðsins allt að 20% af tekjum ríkisins sem hluthafa í Kísiliðjunni hf. Heimild þessi nær því ekki til skatttekna ríkisins af Kísiliðjunni. Í frv. er gert ráð fyrir að iðnrh. geti með reglugerð sett nánari ákvæði um áðurnefndan sjóð. Eðlilegt þykir þar sem um er að tefla talsverða fjármuni að sjóðnum verði settar skýrar starfsreglur sem tryggi að ráðstöfunarfé sjóðsins komi að sem mestum notum.
    Virðulegi forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og til hv. iðnn. og fer þess á leit við hv. nefnd að það verði afgreitt á þessu þingi.