Kísilgúrverksmiðja við Mývatn

81. fundur
Þriðjudaginn 31. janúar 1995, kl. 14:03:09 (3660)


[14:03]
     Tómas Ingi Olrich :
    Virðulegi forseti. Ég vil lýsa yfir stuðningi við það frv. sem hér er til umræðu. Ég ætla ekki að koma neitt að ráði inn á lagfæringu á skattamálum kísilgúrverksmiðjunnar sem felst í þessu frv. Ég er þeim efnisatriðum fyllilega sammála. En ég ætla hins vegar að fjalla um þann sérstaka sjóð sem frv. gerir ráð fyrir að verði starfræktur og hafi það hlutverk að kosta undirbúning aðgerða til að efla atvinnulíf í þeim sveitarfélögum sem nú eiga verulegra hagsmuna að gæta vegna starfsemi framleiðslufélagsins eins og stendur orðrétt í 2. gr. frv.
    Það er svo að Mývatnssveit er vegna þeirra náttúrufyrirbæra sem þar eru mjög sérstakt svæði og öðrum svæðum viðkvæmara að því er varðar atvinnustarfsemi. Þetta er jafnframt einhver vinsælasti ferðamannastaður á landinu, bæði í augum okkar Íslendinga en þó ekki síst í augum útlendinga og fjölmargir útlendingar koma til Íslands með þá hugmynd eina að koma til Mývatns. Ekki aðeins er náttúrufar þar sérstætt að því er varðar eldfjallasvæðið eða ,,volkanismann`` sem stundum er svo kallað heldur er það einnig mjög sérstakt að því er varðar fuglalíf og einstakt í sinni röð að því leyti enda nýtur það sérstöðu í íslenskri löggjöf vegna þessara aðstæðna.
    Nú er það svo að kísilgúrverksmiðjan sem þar starfar og er ágætis fyrirtæki var sett á laggirnar áður en almenn sjónarmið um umhverfisvernd höfðu skotið rótum hér á landi og raunar í heiminum þannig að sú verksmiðja var sett á stofn án þess að tillit væri tekið til þeirra sjónarmiða sem síðar ruddu sér til rúms. Ég held að flestallir séu þeirrar skoðunar að öðruvísi hefði verið stofnað til þessarar verksmiðju ef hún hefði verið reist í dag. Þó að ég vilji ekki segja að rekstur hennar samrýmist ekki þeim viðkvæmu vandamálum sem þarna eru þá hygg ég að það hefði verið öðruvísi að því staðið. Það eru ákveðnir erfiðleikar í sambandi við þessa verksmiðju og það hafa verið gerðar ráðstafanir sem setja framtíð hennar í nokkra tvísýnu. Ég tel hins vegar að það mál sem hér er á ferðinni beri ekki að skoða fyrst og fremst í ljósi þessarar tvísýnu sem hefur verið sköpuð um framtíð kísilgúrverksmiðjunnar. Ég held að við eigum að líta svo á að það væri æskilegt að þessi sjóður yrði notaður til þess að rannsaka rækilega hvernig megi nýta þá auðlind sem þarna er að finna og þá á ég við í hugtakinu auðlind bæði t.d. heita vatnið sem þarna er, þau náttúruundur sem þarna er að finna og fuglalífið, hvernig megi nýta þetta íbúum héraðsins til framdráttar með þeim hætti að það skaði ekki á nokkurn hátt þau náttúrulegu verðmæti sem þarna er að finna. Ég er sannfærður um að það er hægt að finna leiðir til þess að ýta undir kröftugt atvinnulíf og þá á ég kannski einkum og sér í lagi við kröftuga ferðaþjónustu í Mývatnssveit með þeim hætti sem er fyllilega samrýmanlegur sjónarmiðum umhverfisverndar. En sannleikurinn er sá að á þessu sviði hefur farið fram mjög lítið rannsóknastarf, virðulegi forseti, sem veit að því að kanna möguleika ferðaþjónustunnar hér á landi og það er engin sérstök rannsóknastofnun sem hefur haslað sér völl á sviði ferðaþjónustu. Það er engin grunnþjónusta á bak við þessa atvinnugrein eins og við höfum t.d. í iðnaðinum. Það má segja að það séu tvær stofnanir sem þjóna iðnaðinum, þ.e. Iðntæknistofnun og Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins og það má segja að Orkustofnun þjóni orkuiðnaðinum sérstaklega. Á sama hátt þjóna rannsóknastofnanir eins og RALA landbúnaðinum og sjávarútvegurinn styðst við Hafrannsóknastofnun og Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins. Ekkert af þessu er að finna í baklandi ferðaþjónustunnar og þar af leiðandi hefur í raun og veru stefnumörkun í þessari grein verið ábótavant. Við skulum ímynda okkur hvað hefði gerst í stefnumörkun í sjávarútvegsmálum sem virðist nú vera þessari þjóð býsna mikið og vandasamt viðfangsefni. En hvað hefði gerst í þeim málum ef þessi atvinnugrein hefði ekki stuðst við öflugt rannsóknarbakland? Þá hefði stefnumörkun í þessari grein orðið mjög erfið. Við ættum að líta á ferðaþjónustuna út frá svipuðum sjónarhóli og segja: Það hlýtur að há ferðaþjónustunni í stefnumörkun til lengri tíma að hún hefur ekki það rannsóknaumhverfi sem hún þarf. Þess vegna vil ég leggja á það áherslu við hæstv. iðnrh. að þegar hann hefur starf við að láta semja reglugerð um þennan sjóð, þá finnst mér það vera verðugt viðfangsefni að kanna fræðilega með rannsóknaverkefnum hvernig hægt væri að ýta undir það að ferðamennskan í Mývatnssveit þróist með þeim hætti að þar væru þeir möguleikar nýttir sem náttúran býður þarna upp á. Það mætti jafnvel bjóða upp á fleiri möguleika eins og t.d. hugsanleg tengsl við þá þekkingu sem hér á landi er í meðferð heits vatns og jafnvel á sviði heilsugæslu, sem gæti þá tengst heilsugæslustofnunum í héraðinu, en að mikil áhersla verði lögð á það við starfrækslu þessa sérstaka sjóðs að styrkja fræðilegan grundvöll þessara athugana. Ég held að þá mundi hæstv. iðnrh. í raun og veru ýta undir brautryðjendastarf í atvinnuþróun hér á Íslandi. Ég get upplýst þingheim um það að á vegum Rannsóknarráðs Íslands er verið að skoða þessi mál beinlínis í þeim tilgangi að reyna að styrkja rannsóknarumhverfi þessarar atvinnugreinar. Það er búið að taka þetta mál sérstaklega til umfjöllunar þar. Það er búið að taka þetta mál inn í langtímastefnumörkun Rannsóknarráðs Íslands. Engu að síður væri það á vissan hátt nýjung af hálfu hæstv. iðnrh. ef hann beitti sér fyrir þessu. Það mundi falla mjög vel að áformum Rannsóknarráðs Íslands í þessum efnum. Þetta gæti orðið upphaf að því að það yrði sérstök þróun ferðamálanna í Mývatnssveit sem ég held að sé orðið brýnt verkefni og gæti orðið þessu héraði og ferðamennskunni í heild mjög til góðs.