Kísilgúrverksmiðja við Mývatn

81. fundur
Þriðjudaginn 31. janúar 1995, kl. 14:20:12 (3666)


[14:20]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég minni á í þessu sambandi að þingmenn Norðurl. e. hafa lagt metnað sinn í það að ná sameiginlegri niðurstöðu um skiptingu vegafjár og engin breyting hefur orðið hvað það snertir á þessu kjörtímabili þannig að allt tal um óeiningu þar er náttúrlega út í loftið. Lítum á hin opinberu gögn í málinu. Vissulega hefur alla tíð verið svo að menn hafa rökrætt áður en menn hafa komist að niðurstöðu, en niðurstaðan í þessu tilfelli er sameiginleg.
    Ég minni einnig á að varðandi persónulega afstöðu mína á fyrsta þingi þessa kjörtímabils flutti ég þáltill. með hv. þm. Eyjólfi K. Jónssyni sem laut að því að skynsamlegt væri að auka framkvæmdafé til vegagerðar meðan hér væri lægð í vegamálum og við tókum sérstaklega til að ljúka við hringleiðina. Þar var lögð sérstök áhersla á vegasambandið um Norðausturland. Þetta var reyndar áður en tillögur núv. ríkisstjórnar komu fram um aukið fjármagn til vegagerðar.