Kísilgúrverksmiðja við Mývatn

81. fundur
Þriðjudaginn 31. janúar 1995, kl. 14:33:40 (3671)


[14:33]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég nefndi fáránleika í máli mínu áðan en það var ekki í því samhengi að við ræddum hér um samgöngumál heldur að við hv. þingmenn stæðum í deilum um mál sem við værum alveg sammála um. Ég hef viðurkennt frumkvæði núv. samgrh. í þessu máli og skárra væri það nú því að ég hef talað fyrir þessu alveg frá því að ég byrjaði að taka þátt í opinberri stefnumótun, að þarna væri eitt brýnasta verkefni óleyst í samgöngumálum. Þannig að ég hef ekki borið neinn kinnroða fyrir því og ég er ekki í neinum vandræðum með að ræða þessi mál. En ég benti hins vegar á þá einföldu staðreynd að eins og vegáætlun hefur verið samþykkt á þessu kjörtímabili þá var það gert hvað snertir Norðurl. e. samkvæmt samhljóða tillögu allra þingmanna kjördæmisins.