Læknaráð

81. fundur
Þriðjudaginn 31. janúar 1995, kl. 14:39:56 (3678)

[14:39]
     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Fyrri hluta árs 1991 skipaði heilbr.- og trmrh. nefnd sem falið var að endurskoða lög um læknaráð, nr. 14/1942. Í nefndina voru skipuð Páll Sigurðsson ráðuneytisstjóri, sem var formaður, Gunnlaugur Claessen, þáv. ríkislögmaður, Haukur Þórðarson yfirlæknir, Ólafur Axelsson hæstaréttarlögmaður, Ólafur Ólafsson landlæknir, Sigurður Líndal prófessor, Steingrímur Gautur Kristjánsson héraðsdómari og Þorsteinn A. Jónsson skrifstofustjóri. Ritari nefndarinnar var Dögg Pálsdóttir skrifstofustjóri. Nefndin samdi það frv. sem hér er lagt fram.
    Í starfi sínu hafði nefndin hliðsjón af breyttum áherslum í málsmeðferð stjórnsýslunnar frá því að lög um læknaráð voru sett árið 1942. Samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu hefur landlæknir veigamiklu hlutverki að gegna varðandi eftirlit með starfi heilbrigðisstétta og heilbrigðisstofnana. Samkvæmt gildandi lögum um læknaráð er landlæknir jafnframt formaður læknaráðs. Það er talið að það geti ekki samrýmst nútíma stjórnsýsluháttum og nýjum stjórnsýslulögum að sami embættismaður fjalli um mál bæði í nefnd sem lög skipa hann til formennsku í og eins í embætti sínu. Slík er þó raunin þegar læknaráð, sem landlæknir er forseti fyrir samkvæmt lögum, sendir álitsgerðir varðandi t.d. siðamál til embættis landlæknis vegna mála sem embættið hefur beint til ráðsins.
    Í frv. því sem hér liggur fyrir er gert ráð fyrir umtalasverðri skipulagsbreytingu á læknaráði. Gert er ráð fyrir að læknaráð starfi framvegis í tveimur deildum, réttarmálaráði og siðamálaráði. Gert er ráð fyrir að í siðamálaráði skuli sitja fimm læknar sem læknadeild Háskóla Íslands tilnefnir til fimm ára í senn. Ráðið skal sjálft kjósa sér formann. Hlutverk réttarmálaráðs verður að láta dómurum eða ríkissaksóknara í té sérfræðileg álit varðandi læknisfræðileg efni og meðferð veitt af starfsmönnum heilbrigðisþjónustunnar. Gert er ráð fyrir að um hvert mál fjalli þrír menn, formaður eða varaformaður ráðsins, einn ráðsliði, sem formaður tilnefnir og einn maður utan ráðsins sem hefur sérþekkingu á því álitaefni sem fjallað er um hverju sinni. Niðurstöður ráðsins skulu að jafnaði rökstuddar og ávallt ef sá sem álits beiðist æskir þess, svo og ef ágreiningur er í ráðinu um niðurstöður.
    Í gildandi lögum er réttarmáladeild skipuð mönnum sem skipaðir hafa verið í tiltekin embætti hjá ríkinu, en það fyrirkomulag þykir óhentugt nú þegar sérfræðiþekking er orðin jafnfjölbreytt og raun ber vitni. Það fyrirkomulag sem hér er lagt til er því einfaldara í sniðum, en á jafnframt að tryggja vandaða málsmeðferð.
    Gert er ráð fyrir í frv. að í siðamálaráði læknaráðs sitji þrír menn, einn lögfræðingur og tveir læknar. Ráðherra skipar formann ráðsins. Siðamálaráði er ætlað að sinna sömu verkefnum og siðamáladeild

læknaráðs sinnir nú, auk þess sem gert er ráð fyrir að því verði falin verkefni úrskurðarnefndar um ágreiningsmál samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu. Úrskurðarnefnd um ágreiningsmál hefur fengið sífellt fleiri mál til umfjöllunar á síðustu árum. Starfsaðstaða nefndarinnar hefur á hinn bóginn verið erfið og hún því vanbúin til að sinna málum sem þessum. Samkvæmt frv. verður hlutverk siðamálaráðs að láta almenningi, heilbrrh. og landlækni í té álit sitt á því hvort greining, meðferð, aðgerð, hegðun eða framkoma starfsmanns í heilbrigðisþjónustu sé tilhlýðileg eða ekki og láta heilbrrh., samkvæmt beiðni, í té álit á því hvort svipta beri starfsmann í heilbrigðisstétt starfsréttindum vegna háttsemi eða endurveita honum slík réttindi hafi hann verið sviptur þeim. Niðurstöður siðamálaráðs skulu rökstuddar.
    Í frv. eru ákvæði um að læknaráð, þ.e. bæði réttarmálaráð og siðamálaráð, skuli ákveða mál innan tiltekins tímafrests, sem ákveðinn er þrír mánuðir í frv. Þó er gert ráð fyrir að dómari sem óskar álits réttarmálaráðs geti gefið ráðinu styttri frest ef sérstaklega stendur á. Það er talið sérstaklega mikilvægt að setja reglur um málsaðila hjá læknaráði því nokkuð hefur borið á kvörtunum yfir því að seint gangi að fá álitsgerðir þess læknaráðs sem nú starfar. Á þetta ekki síst við um álit sem dómstólar óska eftir hjá læknaráði.
    Frv. gerir ráð fyrir að læknaráði verði búin þannig starfsaðstaða að deildir ráðsins geti sinnt starfi sínu með þeim hætti sem frv. gerir ráð fyrir. Gert er ráð fyrir að lög þessi öðlist gildi 1. jan. 1996 og að við gildistöku þeirra falli úr gildi lög um læknaráð, nr. 14/1942 og 2.--7. málsl. 5. mgr. 3. gr. laga um heilbrigðisþjónustu.
    Virðulegi forseti. Ég hef nú rakið helstu efnisatriði nýs frv. til laga um læknaráð. Hér er um að ræða nauðsynlega endurskoðun á liðlega 50 ára gömlum lögum sem óneitanlega voru barn síns tíma. Ég ítreka að breyttar kröfur í stjórnsýslunni gera það nauðsynlegt að lagaákvæði um læknaráð séu endurskoðuð með þeim hætti sem hér er lagt til. Ég leyfi mér því að mæla með að frv. þetta fái afgreiðslu á þessu þingi og að frv. verði vísað til 2. umr. og meðferðar hv. heilbr.- og trn.