Læknaráð

81. fundur
Þriðjudaginn 31. janúar 1995, kl. 14:45:13 (3679)


[14:45]
     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegi forseti. Það frv. til laga sem hæstv. heilbrrh. hefur mælt fyrir um læknaráð er að mínu viti um margt merkilegt að því leyti til að það tekur á hlutum sem nauðsynlegt var að breyta, hlutum sem snúa að landlæknisembættinu. Og eins og fram kom í ræðu hæstv. heilbr.- og trmrh. þá er auðvitað óviðunandi að sá maður er gegnir því ágæta embætti sé beggja vegna borðsins. Ekki það að Ólafur Ólafsson sé ekki þess megnugur heldur hitt að embættið sem slíkt á auðvitað ekki að starfa með þeim hætti. Að því leyti til tel ég að hér sé um hið besta mál að ræða hjá hæstv. heilbr.- og trmrh. Það var full ástæða til að gera þarna bragarbót á og breyta starfsháttum læknaráðs með þeim hætti sem hér er lýst, án þess þó að ég ætli nákvæmlega að lýsa mig samþykkan öllum þeim einstöku breytingum sem þar eru lagðar til. En í heild sinni sýnist mér að málið taki á breyttum stjórnsýsluháttum sem nauðsynlegt er að taka á.
    Það var nokkuð merkilegt að þegar til stóð hér fyrir áramót að færa héraðslæknisembættin, leggja þau niður í Norðurl. e. og í Reykv. og færa þau að hluta til undir verkefni landlæknisembættisins, þá fannst mér það alls ekki geta gengið upp stjórnsýslulega séð þar sem landlæknir væri þá í mörgum tilfellum beggja vegna borðsins; að taka ákvarðanir um framkvæmd einstakra hluta en geta síðan síðar meir lent í þeirri aðstöðu að dæma í eigin málum. Þannig er auðvitað útilokað að haga stjórnsýslunni.
    Eins og fram kemur í frv. þá er gert ráð fyrir að læknamálaráð starfi í tveim deildum, þ.e. réttarmáladeild og siðamáladeild. Það hefur skort mjög á í störfum læknaráðs að það skilaði nógu fljótt frá sér álitsgerðum bæði til dómstóla og eins í einstökum málum, hvort sem það snýr að starfsfólki heilbrigðisþjónustunnar eða þá að einstaklingum sem leita réttar síns hjá læknaráði. Nú sé ég að í þessu frv. er gert ráð fyrir því að ákveðinn tímamörk séu sett á það hversu langan tíma læknaráð getur í hvorri deild um sig tekið sér til að fjalla um mál og það er mikil réttarbót fyrir þá sem þurfa að búa við og ekki síst þá sem eru að bíða eftir niðurstöðum læknaráðs. Þannig að í heild sinni finnst mér þetta frv. marka tímamót að því leyti til að það er verið að taka þarna á gömlum og úreltum lögum og færa til betri vegar og ekki síst í ljósi þess að það eru orðin ný stjórnsýslulög í landinu sem einmitt eiga að ganga til móts við einstaklingana þar sem þeir hafa eðlilegri aðgang að upplýsingum og um leið líka að fá skjótari og hraðari úrlausn sinna mála. Mér finnst þetta frv. ganga í þá átt og þar af leiðandi lýsi ég mig samþykkan meginefni frv., en áskil mér auðvitað rétt í starfi hv. heilbr.- og trn. til að skoða málið gaumgæfilega.