Tóbaksvarnalög

81. fundur
Þriðjudaginn 31. janúar 1995, kl. 15:47:58 (3687)


[15:47]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil aðeins taka undir það enn og aftur sem hér hefur verið sagt um þetta munntóbak og þetta fínkorna neftóbak sem svo er kallað. Í 8. gr. er ákvæði um að banna að flytja inn, framleiða og selja munntóbak og þar er vel hægt að bæta þessu ákvæði við.
    Ég vil vitna hér í grein um snuff og snus, sem er skrifuð af Þuríði Backmann, fræðslufulltrúa KÍ, í Austra í febrúar 1994. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Munn- og neftóbaksnotkun hefur lengi tíðkast í Noregi og Svíþjóð og kallast þar ,,snus``. Þar er notkunin svo algeng að yfirvöld hafa ekki treyst sér til að banna sölu á þessum tegundum frekar en sígarettum. Þar hefur líka verið tekið strangar á reykingum á vinnustöðum en hér og margir reykingamenn því farið í reyklaust tóbak. Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins flutti inn þessar tóbakstegundir fyrir nokkrum árum en hætti því vegna eindreginna tilmæla landlæknis og fleiri aðila. Síðustu árin hefur fínmulið lyktblandað neftóbak þó verið sérpantað fyrir tóbaksverslun í Reykjavík og um skeið einnig munntóbak í grisjum. Útsölustöðum fjölgar stöðugt og dæmi er um sölu í sjoppu menntaskóla.
    Á árinu 1987 var innflutningur 45 kíló, en 1993 var magnið orðið 1.475 kíló, sem er 11% af heildarneftóbaksnotkun. Að bera saman neyslu þessara tveggja neftóbakstegunda eftir vigt er svipað og að meta neyslu hass og kókaíns eftir sömu aðferð.
    Hvers vegna er þetta fínkorna neftóbak og nýja munntóbak svona varasamt? Í fyrsta lagi vegna þess að það höfðar til ungs fólks og þar með til nýrra nikótínista.``
    Þess vegna vil ég leggja áherslu á að það er mjög nauðsynlegt að þetta ákvæði verði inni í þessum nýjum lögum, þetta verði bannað í innflutningi ásamt munntóbakinu vegna þess að þetta er einmitt það

sem við erum að gera með því að koma með svona frv. og leggja áherslu á að það verði samþykkt sem lög, það er að reyna að varna því að unga fólkið byrji á þessu.
    Eins og kom fram áðan hjá hv. 14. þm. Reykv. er sjálfsagt erfitt að kenna gömlum hundi að sitja og það verður að vera réttur hvers og eins hvort hann vill halda áfram að spilla sinni heilsu með reykingum. Að öðru leyti ætla ég ekkert að svara því sem hún sagði hér. En ég tel að það sé mjög nauðsynlegt að forvarnaaðgerðir séu í gangi og að þetta ákvæði sé einnig inni í lögunum, að banna þetta sérstaka tóbak sem margir hafa lýst miklum áhyggjum út af hversu notkunin á því hefur aukist á síðustu árum.