Tóbaksvarnalög

81. fundur
Þriðjudaginn 31. janúar 1995, kl. 15:51:47 (3688)


[15:51]
     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegi forseti. Aðeins nokkur orð um þetta frv. til tóbaksvarnalaga og þá umræðu sem hér hefur farið fram.
    Ég tel að það sé mjög nauðsynlegt að í landinu séu allnákvæm og ströng lög um tóbaksvarnir. Fyrir þá sem stjórna stórum stofnunum þar sem margir vinna er mjög nauðsynlegt að hafa til að styðjast við reglur og lög sem kveða á um það hvað megi í þessum efnum og hvað ekki. Það er nefnilega ekki bara þannig að tóbaksreykingafólk hafi fram til þessa álitið að það væri því leyfilegt að eyðileggja sína eigin heilsu með reykingum heldur hafa þeir líka verið þess fullvissir að þeir mættu eyðileggja heilsu allra annarra í kringum sig. Þetta hefur á mjög mörgum vinnustöðum verið til mikilla erfiðleika því fólk hefur þagað frekar heldur en að lenda í miklum deilum vegna þess að vinnustaðir þar sem miklar deilur eru eru óþolandi og ekki hægt að vinna á þeim.
    Þess vegna tel ég að það að hafa strangar reglur um hvar megi reykja og hvort megi reykja á hinum ýmsu vinnustöðum sé mjög nauðsynlegt.
    Sá er munurinn á tóbaksreykingum og nef- eða munntóbaksneyslu að þeir sem eru í reykingum menga alltaf loftið í kringum sig og menga þar af leiðandi líka það loft sem við sem ekki reykjum látum ofan í okkur, en þeir sem nota munntóbak og neftóbak eiga þó þetta mál fyrst og fremst við sjálfan sig og í mesta lagi þann sem þvær af þeim, ef þeir gera það ekki sjálfir. Þarna er stór munur á.
    Ég tel að það sé augljóst mál af hverju ekki er hægt að banna innflutning á sígarettum og reyktóbaki almennt og það eru þessi 25% þjóðarinnar sem eru í þessari neyslu. Það er ekki hægt að sýna þeim slíkt ofríki að neita þeim um að neyta þess. Á hinn bóginn er vel hægt að neita þeim um að neyta þess hvar sem er vegna þess að þeir þurfa að taka tillit til annarra. Þetta er mjög mikið atriði.
    Ég hef horft á það með nokkurri hryggð á undanförnum síðustu árum að ungt fólk sem ég sé í kringum mig er farið að reykja í meira og meira mæli. Ég held ekki að það sé vegna þess að það hafi uppgötvað að sá áróður sem uppi hafði verið gagnvart þeim og öðrum um skaðsemi reykinga væri eitthvað falskur eða allt of yfirdrifinn. Ég held að þarna komi fyrst og fremst upp viss tilhneiging til sjálfstæðis, til að sýna að maður sé töff og maður fyrir sinn hatt, eins og við gerum alltaf á unga aldri. Við þurfum alltaf að bjóða valdhöfunum, þeim sem hafa yfirtóninn í samfélaginu, birginn. Ég held að það sé það sem er að gerast meðal þessa ágæta unga fólk sem við því miður með sorg horfum á hvernig er að fara með sig, margt hvert, með reykingunum.
    Þó hefur mér virst sá munur á hjá því unga fólki sem byrjar að reykja núna að það gerir sér grein fyrir því að það er ekki leyfilegt og eðliegt og sjálfsagt að reykja ofan í hvern mann. Mér finnst sá höfuðmismunur á ungu fólki í dag og því gamla sem reykti með mér og í kringum mig árum saman.
    Ég tel að það sé nauðsynlegt að setja þessi tóbaksvarnalög, kannski má eitthvað breyta þeim, kannski erum við að fara offari í einhverjum atriðum málsins, það verður náttúrlega rannsakað og skoðað í heilbr.- trn. og líka hér í þinginu. En svona lög þurfa að vera. Þau þurfa að vera ákveðin og styðja þá sem eiga að stuðla að því að reykingar og tóbaksnotkun verði minni í landinu.