Tóbaksvarnalög

81. fundur
Þriðjudaginn 31. janúar 1995, kl. 15:56:51 (3689)


[15:56]
     Guðrún Helgadóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er afar óvenjulegt að heyra hv. 18. þm. Reykv. tala öðruvísi en af skynsemi, en það gerði hún reyndar núna og af mikilli ósanngirni, sem er einnig henni ólíkt. Það er meira en lítil ásökun að bera reykingafólki það að það hafi allan tímann vitað að það var að skaða annað fólk og kært sig kollótt. Þetta er ekki rétt. Í fyrsta lagi er náttúrlega ekki svo ýkja langt síðan að það varð ljóst að hugsanlegt sé að fólk beri skaða af því að vera í reyk sem annað fólk framleiðir.
    Í öðru lagi held ég að þetta vandamál verði ekki leyst með lögum. Auðvitað væri eðlilegast að á hverjum vinnustað kæmu menn sér saman um hvar má reykja og hvar má ekki reykja þannig að enginn þyrfti að líða fyrir þá sem reykja. Slíkar deilur reynir siðmenntað fólk að leysa á vinsamlegan hátt. Ég held að þetta offors þjóni engum tilgangi og ég er satt að segja hissa að heyra hv. 18. þm. Reykv., sem ævinlega mælir mannvit hér í þingsölum, tala í þá veru sem hún gerði nú. Auðvitað langar engan að skaða annað fólk og flestir vildu sjálfsagt vera lausir við þann leiða löst sem reykingar eru. En við værum ekki

að deila hér um frv. ef það væri auðvelt mál að losna við þennan löst. Vandinn er sá að þetta er vandamál fyrir allstóran hóp landsmanna og því verður auðvitað að reyna að breyta með einhverri skynsemi og einhverri vinsemd. Við viljum ekki hafa þjóðfélag þar sem einn hópurinn kúgar annan og ég held að á mörgum vinnustöðum hafi deilur um þetta mál vakið meiri leiðindi og verra andrúmsloft en flest annað. Auðvitað verður siðmenntað fólk að reyna að leysa svona mál og það verður ekki gert með neinum látum.