Tóbaksvarnalög

81. fundur
Þriðjudaginn 31. janúar 1995, kl. 15:59:09 (3690)


[15:59]
     Guðrún J. Halldórsdóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hafi orð mín hljómað þannig að ég haldi það að fólk hafi alla tíð vitað að það væri að skaða aðra með reykingum þá er það rétt að það var óskynsamlega mælt vegna þess að auðvitað vitum við það að lengst af þeirri tíð sem reykt hefur verið vissi fólk ekkert um það. En ég var heldur ekki að segja annað en að bæði ég og aðrir, því ég reykti í fjöldamörg ár og innan um aðra, hefðum kúgað aðra með þessu. Ég lít svo á að það sé kúgun þegar fólk reykir svona hvert ofan í annað. Ég benti líka á það að fólk hefði margt hvert þagað lengi vel einmitt til þess að valda ekki þeim erfiðleikum og átökum á vinnustað sem leiða til afskaplega slæms andrúmslofts. Það benti ég strax á vegna þess að þetta er auðvitað staðreynd.
    Ég sagði líka að það væri nauðsynlegt að koma með lög sem væru ákveðin og gætu kveðið nákvæmlega á um það hvaða rétt fólk hefði. Ég sagði ekki einu sinni að þessi lög væru nákvæmlega rétt, ég sagði að fólk mundi koma sér saman um hvað væri rétt í þessu máli eða leið sem hægt væri að fara. Þetta held ég að ég hafi sagt, alla vega ætlaði ég að segja það, vegna þess að auðvitað veit ég manna best vegna þeirra starfa sem ég hef átt utan þessara þingsala að það þarf að finna leið til þess að allir geti verið sáttir og unað nokkurn veginn hlutskipti sínu í störfum og í tilverunni almennt.