Tóbaksvarnalög

81. fundur
Þriðjudaginn 31. janúar 1995, kl. 16:32:28 (3697)


[16:32]
     Guðrún Helgadóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég held að þessi umræða hafi verið afar gagnleg og í þessum síðustu orðum hæstv. ráðherra kom fram að skoðun hans stangast á við 15. gr. að því leyti að hann lýsti þeirri skoðun sinni að á vinnustöðum bæri að hafa eitthvert afdrep fyrir það fólk sem neytir tóbaks en þó svo að aðrir samverkamenn þurfi ekki að líða fyrir það. Hins vegar stendur í 15. gr. frv. alveg afdráttarlaust, með leyfi hæstv. forseta, að tóbaksreykingar séu með öllu óheimilar í grunnskólum, á opinberum samkomum, heilsugæslustöðvum, læknisstofum, sjúkrahúsum, framhaldsskólum o.s.frv.
    Séu það skilaboð hæstv. ráðherra til nefndarinnar, og ég harma nú að fólk í hv. heilbr.- og trn. skuli ekki leggja á sig að hlusta á þessa umræðu, þá skiptir verulegu máli það sem ráðherra sagði og ég er alveg sammála honum. Þessi mál verða ekki leyst nema í vinsemd og fyrst af öllu með uppfræðslu til barna og unglinga og vinsamlegri sambúð við það fólk sem því miður hefur ánetjast tóbaksnotkun. Við værum ekki að tala um þetta eins og ég hef áður sagt ef þetta væri ekkert vandamál. Það er erfitt að hætta að reykja og það fólk sem ekki getur það á einhvern þjóðfélagslegan rétt og getur verið afburða starfsmenn eftir sem áður og því væri fáránlegt að hrekja það fólk burt af vinnustöðum fyrir það eitt að reykja. Ég er þess vegna sammála hæstv. ráðherra um að við leysum þetta á siðmenntaðan hátt og reykingamönnum, hinum bersyndugu, verði veitt einhver og kannski dálítið geðfelldari afdrep en víða tíðkast nú til þess að stunda þennan löst sinn og án þess þó að þurfa að angra aðra. En þá held ég að þurfi að breyta 15. gr. Að vísu er í 18. gr. talað um að séu reykingar leyfðar samkvæmt ákvæðum 14.--17. gr. skuli það vera á afmörkuðu svæði, en það er afar erfitt eða a.m.k. auðvelt fyrir ofstækisfullt fólk að segja: 15. gr. segir: Tóbaksreykingar eru með öllu óheimilar. Þetta held ég að þurfi að leiðrétta, hæstv. forseti.