Almenn hegningarlög

83. fundur
Fimmtudaginn 02. febrúar 1995, kl. 10:32:08 (3750)


[10:32]
     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breyting á almennum hegningarlögum. Hér er um að ræða breytingu á 262. gr. hegningarlaganna. Samkvæmt þeirri grein varðar það bókhaldsskyldan mann sektum eða varðhaldi að láta hjá líða að halda lögskyldar bækur eða gerist hann sekur um stórfellda óreglusemi í bókhaldinu.
    Í skýrslu fjmrh. um störf nefndar sem kannað hefur umfang skattsvika og lögð var fyrir Alþingi 18. apríl 1986 og í skýrslu nefndar sem fjmrh. skipaði 18. nóv. 1992 um umfang skattsvika og tillögur um

aðgerðir gegn þeim eru ábendingar um að sett verði í almenn hegningarlög nýtt ákvæði sem yrði einn liður í samfelldri heildaráætlun um aðgerðir gegn skattsvikum.
    Frv. þetta er einn þáttur í heildarendurskoðun á viðurlagaákvæðum í skatta- og bókhaldslögum. Í almennum hegningarlögum eru nú ekki ákvæði um viðurlög við brotum á skattalögum heldur eru slík ákvæði í viðkomandi skattalöggjöf og áðurgreind 262. gr. almennra hegningarlaga, sem fjallar um bókhaldsbrot, er að ýmsu leyti gölluð og ófullnægjandi.
    Tilgangur þessa frv. er því tvíþættur. Í fyrsta lagi er stefnt að því að auka varnaðaráhrif refsiákvæðanna með því að leggja refsingu við hinum alvarlegri skattsvika- og bókhaldsbrotum í hegningarlögum. Við það er miðað að dómur fyrir hegningarlagabrot hafi að öðru jöfnu meiri varnaðaráhrif en dómur fyrir sérrefsilagabrot. Í öðru lagi er stefnt að þyngri refsiviðurlögum í framkvæmd með því að herða og binda neðra refsimarkið þegar tilteknar aðstæður eru fyrir hendi.
    Í frv. er lagt til að lögfest verði eyðuákvæði um alvarleg brot gegn reglum sem lýst er efnislega í öðrum lögum að hluta til eða öllu leyti. Hliðstæðri aðferð var beitt þegar 173. gr. a, sem fjallar um meiri háttar ávana- og fíkniefnabrot, var lögfest.
    Ég vil vekja sérstaka athygli á því að þó frv. þetta verði lögfest eru það eftir sem áður refsiákvæði skattalaga sem hafa mesta þýðingu varðandi skattsvik. Í þessu frv. er lagt til að meiri háttar brot einstaklinga gegn þeim skattalögum sem mesta þýðingu hafa varðandi skattsvik varði við almenn hegningarlög. Það sama gildir um brot á lögum um bókhald og lögum um ársreikninga.
    Með frv. fylgja ítarlegar athugasemdir og ég vísa til þeirra varðandi einstök ákvæði þess.
    Ég legg svo til, frú forseti, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allshn.