Almenn hegningarlög

83. fundur
Fimmtudaginn 02. febrúar 1995, kl. 10:35:21 (3751)

[10:35]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Á undanförnum árum hafa verið flutt hér ýmis frv. sem snerta breytingar á hegningarlögum og sum þeirra hafa orðið að lögum en önnur ekki eins og gengur. Hins vegar eru ákveðnir þættir í hegningarlögunum sem hafa aldrei fengist teknir fyrir hér á undanförnum árum af einhverjum undarlegum ástæðum, hafa alltaf stöðvast vegna þess að menn hafa sagt að þau mál væru í endurskoðun. Ég er sérstaklega með í huga 108. gr. hegningarlaganna og önnur ákvæði er snerta hin svokölluðu meiðyrðamál. Ég held að það sé æskilegt að spyrja hæstv. dómsmrh. undir þessari umræðu hvort það er á döfinni af hans hálfu að leggja hér fyrir einhverjar breytingar á þessum þáttum hegningarlaganna, m.a. með hliðsjón af því að fyrir þinginu liggur frv. til stjórnarskipunarlaga sem gerir ráð fyrir breytingu á mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar m.a. að því er þetta ákvæði varðar, prentfrelsis- og tjáningarfrelsisákvæðið. Ég teldi að það væri æskilegt að breyta um leið hegningarlagaákvæðum þeim sem lúta að sama málaflokki.
    Eins og fram hefur komið þá hefur t.d. Rithöfundasamband Íslands miklar áhyggjur af því að uppsetning mála í stjórnlagafrv. eins og það liggur fyrir sé ekki nægilega afgerandi. Úr því mætti að sjálfsögðu bæta með því að taka af skarið með breytingum á hinum almennu hegningarlögum. Ég vil þess vegna nota þetta tækifæri, auk þess sem málin eru reyndar á dagskrá hér síðar á þessum fundi, til að spyrja hæstv. ráðherra hvort ætlunin sé að draga þau mál hér inn sérstaklega, þ.e. þau ákvæði hegningarlaganna sem lúta að meiðyrðum og tjáningarfrelsi.