Mannanöfn

83. fundur
Fimmtudaginn 02. febrúar 1995, kl. 11:27:57 (3761)


[11:27]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Umræða um nafngiftir er ekki ný af nálinni hér á Alþingi. Vorið 1991 urðu mjög fjörugar umræður um þau lög sem nú er verið að leggja til að breyta. Það var þá þegar bent á ýmsa vankanta á þeim lögum og það er komið í ljós að þær ábendingar voru ekki að ástæðulausu. Nú hefur verið að ákveða að taka upp heimild til þess að bera millinöfn og það er eitt þeirra atriða sem þegar í upphafi var fyrirsjáanlegt að yrði mjög erfitt að mæla gegn vegna þess að þessi siður er bæði nokkuð fastur í sessi hér á Íslandi og enn fremur að það er verið að leysa þarna ákveðið vandamál þar sem fólk í sömu fjölskyldu vill bera saman nafn en við erum engu að síður að reyna að varðveita okkar gamla sið að hafa ekki ættarnöfn heldur föður- og móðurnöfn.
    Varðandi föður- og móðurnöfnin í 8. gr. vil ég halda til haga einni athugasemd sem kom einnig fram í umræðunni vorið 1991. Ég held að það þurfi að skoða vandlega hvort eigi ekki að heimila að kenna bæði við föður og móður. En ég fæ ekki betur séð á 8. gr. en þar sé gert ráð fyrir því að einungis sé eitt kenninafn notað þannig að þeir sem nú þegar hafa tekið upp þann sið að kenna sig bæði við föður og móður eru í raun að brjóta þau lög sem nú eru í gildi og verði þetta frv. að lögum einnig þau. Ég held að þetta sé atriði sem þarf að skoða betur. Vissulega sjáum við rökin fyrir því að nöfn geta orðið mjög löng ef bæði er kennt við föður og móður en samt sem áður er þetta staðreynd að það eru margir sem kjósa að hafa þennan háttinn á og ég held að það yrði íslenskri nafnahefð ekki til skaða heldur hugsanlega bara þróun sem er eðlileg og hluti af því sem þegar hefur gerst ef það yrði heimilað að kenna bæði við föður og móður, kjósi fólk það.
    Að öðru leyti hef ég ekki miklar athugasemdir við nafnareglurnar sjálfar. Lengd nafns var töluvert í umræðu seinast þegar þetta mál var til umræðu vegna þess að þá var verið að tölvuvæða og menn sáu nokkuð ofsjónum yfir því að ef nöfn færu yfir þann kvóta sem tölvan þyldi en ég sé ekki í fljótu bragði að það sé verið með slíkar undarlegar og ósveigjanlegar reglur lengur. Ég treysti að hæstv. ráðherra leiðrétti mig ef þessi hugmynd er enn inni því hún var svo afkáraleg að ég vil helst ekki eyða fleiri orðum að því. Þar kom m.a. í ljós að ágætir þáv. þingmenn höfðu nöfn sem voru það löng að tölvan í þjóðskránni einfaldlega hafnaði þeim. Þetta er auðvitað algerlega fara út í hött. Við megum ekki fara að láta tæknina ráð yfir nöfnum okkar.
    Ég hef eina efnislega athugasemd í viðbót sem varðar ekki nafngiftir sem slíkar heldur réttindi barna. Það er enn og aftur á ferðinni í þessu frv. ákvæði sem ég tel með öllu óásættanlegt og mun aldrei geta fellt mig við, en það er í 13. gr. frv. þar sem enn virðist vera gert ráð fyrir því að það megi breyta eiginnafni eða millinafni barna við ættleiðingu hafi það ekki náð 12 ára aldri án þess svo mikið sem bera það undir barnið, þ.e. barnið upp að 12 ára aldri þarf ekki að samþykkja slíka nafnbreytingu. Mér finnst þetta mjög óheppilegt svo að ekki sé meira sagt og mikil óvirðing við þau börn sem kunna að verða ættleidd og hafa vanist því í kannski allt að 12 ár að heita ákveðnu nafni því nafn er nokkuð mikilvægur hluti af sjálfsmynd barnsins. Ef barn og foreldrar, t.d. ættleiðingarforeldrar komast að þeirri niðurstöðu að það sé í rauninni hægt að breyta þessu nafni þannig að allir séu sáttir þá er út af fyrir sig ekkert því til fyrirstöðu en þarna finnst mér vegið mjög að réttindum barna yngri en 12 ára. Það er þó a.m.k. búið að gera þá bragarbót að nú þarf að bera það undir barnið og fá samþykki þess á aldrinum 12--16 ára. Þakka skyldi. Mér finnst það nú bara lágmark. Ég vil gjarnan spyrja hæstv. ráðherra ef hann hefur tíma til að fylgjast með hvort hann sé ekki tilbúinn að endurskoða þetta atriði varðandi það að barn skuli a.m.k. vera haft með í ráðum og þurfi helst að veita samþykki sitt þó að það sé ekki orðið 12 ára. Ég veit að um það er töluvert deilt hvað er hægt að leggja á börn miklar ákvarðanir séu þau undir 12 ára aldri og þetta ræddum við m.a. þegar barnalögin voru til umræðu en mér finnst þetta það stór hluti af því sem börn upplifa sig sjálf og er sjálfsmynd þeirra að það verði að finna eitthvað ásættanlegra heldur en þetta ákvæði í 13. gr. þessa frv. þar sem einungis segir: ,,Breyting á eiginnafni eða millinafni barns undir 16 ára aldri skal háð samþykki þess hafi það náð 12 ára aldri.`` Sem sagt, hafi það ekki náð 12 ára aldri, þá þarf ekki að leita samþykki.
    Ég held að ég láti þessar athugasemdir nægja. Það má vel vera að síðar í þessum umræðum eða í nefnd komi upp fleiri atriði og hugsanlega verður 2. umr. þessa máls, ef það gengur fram hér á þeim stutta tíma sem eftir er, aðalumræðan því að þetta er mjög viðkvæmt mál. Mannanöfn eru það og við verðum að fara mjög af gát. Reynslan 1991 sýnir okkur það.