Mannanöfn

83. fundur
Fimmtudaginn 02. febrúar 1995, kl. 11:35:34 (3762)


[11:35]
     Guðný Guðbjörnsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þau sjónarmið sem koma fram bæði í máli hæstv. dómsmrh. og í greinargerð frv. að nöfn fólks eru mjög mikilvægur hluti af þeirra sjálfsmynd og því mjög mikilvægt að vanda til löggjafar af þessu tagi. Ég er í því sambandi ákaflega stolt af okkar íslensku hefð að konur þurfi ekki að skipta um nafn við giftingu eins og víða tíðkast erlendis. En ég er þó á því að það sé ekki allt í lagi hvað varðar ýmislegt sem snertir þessa löggjöf og ég ætla hér einkum að gera að umræðuefni mál er varðar jafnrétti kynjanna þó að það sé, eins og aðrir hafa komið inn á, mjög margt fleira sem er

við þetta frv. að athuga.
    Í greinargerð frv. er sagt að með lögunum um mannanöfn frá árinu 1991 hafi að mestu verið útrýmt kynjamisrétti eldri mannanafnalaga, m.a. með ákvæði sem heimilar að ættarnöfn gangi í kvenlegg. Hv. þm. Anna Ólafsdóttir Björnsson kom inn á þetta efnisatriði áðan og ég vil ítreka það hér að ég tel að það sé ekki nógu gott að hafa fyrirkomulagið eins og það er núna. Ég er sem sagt þeirrar skoðunar að í reynd sé enn þá kynjamisrétti í þessum lögum en í meðferð frv. árið 1991 lagði ég fram brtt. þess efnis að fólki væri heimilt að kenna sig bæði við föður og móður. Eftir miklar umræður í nefnd og fleiri aðila í þjóðfélaginu féll ég frá þeirri brtt. fyrst og fremst með þeim rökum að það var mjög erfitt, nöfnin yrðu löng og af tæknilegum ástæðum mundi það ekki ganga upp eins og staðan var þá. Ég tel án þess að ég hafi fullkannað það --- nú eru liðin 4--5 ár --- að það hefði átt að vera búið að lagfæra slík atriði og er enn sömu skoðunar að ég tel að í 8. gr. eigi að vera heimild til að kenna sig bæði við móður og föður því að það val sem hér er boðið upp á og er í lögunum frá 1991 virkar þannig í reynd að ef um hjónabandsbarn er að ræða þá má líta á það sem móðgun við föður ef nafn móður er valið. Og ég held að það sé ástæðan fyrir því að í reynd eru ekki mjög margir aðrir en börn einstæðra mæðra sem kenna sig móður sína eða einhverjir sem alls ekki vilja kenna sig við föður sinn. Þetta kerfi, þó að fornt og gott sé að mörgu leyti, viðheldur í raun og veru þeirri hefð að gera karlmenn og feður sýnilega en mæður hverfa. Því mæli ég eindregið með að 8. gr. verði breytt þannig að fólk geti kennt sig bæði við föður og móður, þannig að dóttir Jóns og Guðrúnar geti verið Guðrúnar- og Jónsdóttir en ekki bara Jónsdóttir eða Guðrúnardóttir. Slíkar hefðir tíðkast í öðrum löndum og það þýðir ekki að halda því fram að þetta sé gott fyrir sjálfsmynd kvenna, þetta kerfi okkar, því að í raun og veru er það karlmaðurinn sem alltaf er sýnilegur með nöfnum barnanna en konurnar hverfa.