Mannanöfn

83. fundur
Fimmtudaginn 02. febrúar 1995, kl. 11:58:47 (3765)


[11:58]
     Geir H. Haarde :
    Virðulegi forseti. Ég stend fyrst og fremst upp til að fagna því að þetta frv. skuli vera komið fram.
    Við vorum mörg sem höfðum afskipti af afgreiðslu þeirrar löggjafar um mannanöfn sem nú er í gildi og var afgreidd á Alþingi vorið 1991. Það vill svo skemmtilega til að hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir var einmitt í þinginu þá sem varamaður og við áttum ágætt samstarf um ýmsar breytingar sem náðu þá fram að ganga. Niðurstaða í málinu á þeim tíma varð samkomulag. Hins vegar var því ekkert að leyna að ágreiningur var um ýmsa þætti en menn gengu til samkomulags um að afgreiða málið í trausti þess að framkvæmd laganna mundi lánast vel og um þetta gæti orðið sátt meðal þjóðarinnar.
    Því miður er það svo eins og fram hefur komið í umræðunum að þessi sátt er ekki fyrir hendi og þá held ég að sé alveg rétt að viðurkenna það með því að breyta lögunum eins og hér er lagt til. Ég held að það sé auðvitað mjög brýnt að við höldum okkar gömlu mannanafnahefð sem reyndar er tvenns konar að því er varðar kenninöfn bæði að menn kenni sig til föður eða móður eða beri ættarnafn. Það sem hefur kannski fyrst og fremst valdið erfiðleikum í framkvæmdinni er annars vegar það sem ég hef leyft mér að kalla vissa þröngsýni að því er varðar heimildir til að bera ákveðin einstök nöfn og hér hafa verið nefnd dæmi í umræðunni. Þar er ekki bara um að kenna framkvæmd mannanafnanefndar heldur er auðvitað því um að kenna líka að mannanafnanefnd hefur ekki treyst sér til að ganga lengra en hún hefur talið að lagabókstafurinn gæfi henni tilefni og leyfi til.
    En það sem ég vil fyrst og fremst gera að umtalsefni eru millinöfnin svokölluðu. Ég minnist þess mjög glöggt að þegar þetta mál var hér til meðferðar vorið 1991 þá var í frv. því sem þáv. hæstv. menntmrh., Svavar Gestsson, lagði fram ekki gert ráð fyrir neinni heimild til að menn bæru millinöfn. Ég minnist þess að ég flutti brtt. í neðri deild sem þá var þar sem gert var ráð fyrir slíkri heimild og hún var þar samþykkt. Hún var hins vegar felld í efri deild sem hafði fengið málið fyrst til meðferðar þannig að málið var komið í ákveðið uppnám á milli þingdeildanna út af þessu eina atriði hvort heimiluð skyldu millinöfn. Á endanum varð það niðurstaða af minni hálfu að falla frá þeirri brtt. í stað þess að láta málið niður falla og verða ekki að lögum eins og ella hefði blasað við. Ég ber því að mínu leyti vissa ábyrgð á því eins og aðrir þingmenn á þeim tíma að þetta fór á þann veg að millinöfn eru ekki heimiluð í núgildandi lögum. Þetta gerðu menn að sjálfsögðu, eða við sem vildum hafa heimild fyrir þeim, í trausti þess að eins og ég sagði að þjóðin mundi sætta sig við það. Það hefur bara komið í ljós að millinafnahefð hér á Íslandi er orðin það rík, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr, að það er ekki hægt að banna fólki að bera slík nöfn ef það á annað borð vill það. Þess vegna held ég að það sé skynsamlegt að horfast í augu við þá staðreynd og taka slíka heimild upp með jafneindregnum hætti og hér er lagt til í III. kafla frv. og reyndar í 1. gr. þess og reyna þá frekar ef menn eru á móti millinöfnum að stýra því í þann farveg sem lagt er til með þessu frv. T.d. að menn noti þá ættarnöfn sín frekar sem millinöfn o.s.frv.
    Ég held að þetta sé eðlileg breyting í ljósi þeirra viðbragða sem fram hafa komið og að hún sé skynsamleg. Reyndar held ég að það væri ekkert ofverk þingsins að ljúka þessu máli núna í vor. Ég held að þingmenn flestir séu það vel inni í þessu máli og hafi fengið það mikil viðbrögð við núgildandi lögum að þeir geti tekið afstöðu til málsins. Það er það skammt síðan nákvæm umfjöllun var um þetta í þinginu að menn muna það.
    Það er nefnilega þannig að það er fullt af fólki, einstaklingum úti í þjóðfélaginu, sem telja að þessi lög hafi bitnað á sér og það hafi verið brotinn á þeim réttur með núgildandi lögum sem bíða eftir því að fá þessi mál í höfn eins og frv. gerir ráð fyrir eða einhverjum viðlíka hætti. Ef til að mynda allshn. gæti hugsað sér að gera einhverjar breytingar sem þó stefna í þessa átt þá held ég að það sé fjöldi fólks sem bíður bara eftir því að málið sé afgreitt jafnvel þó það sé ekki nákvæmlega í þessari mynd eins og hér er ef sú stefna sem hér er mörkuð nær fram að ganga. Ég er því ekki alveg sammála síðasta ræðumanni um að það sé nauðsynlegt að bíða með afgreiðslu þessa máls. A.m.k. treysti ég mér til þess að taka þátt í afgreiðslu þess á þessu þingi því það er náttúrlega alveg ómögulegt að einstaklingar úti í bæ með svona viðkvæm persónuleg málefni eins og nöfn barna sinna eða eigin jafnvel þurfi að bíða í óvissu um hvenær þeir geti ráðið sínum málum endanlega til lykta að þessu leyti til.