Tjáningarfrelsi

83. fundur
Fimmtudaginn 02. febrúar 1995, kl. 12:45:06 (3773)


[12:45]
     Kristín Einarsdóttir :
    Frú forseti. Ég þarf ekki að taka fram að ég styð þessa tillögu þar sem ég er einn flm. Ég vil ekki láta hjá líða að koma hér og ræða aðeins almennt um tjáningarfrelsið því að það er auðvitað eins og aðrir hafa bent á og ég held að við hljótum að vera öll sammála um grundvallaratriði í lýðræðisþjóðfélagi eins og við viljum lifa í. Hins vegar hefur sýnt sig eins og m.a. er rakið í greinargerðinni með þessu frv. í fskj. og hefur reyndar margoft komið fram að þá hefur verið misbrestur á þessu. Það er auðvitað ómögulegt að við skulum búa við það að hægt sé að túlka íslensk lög með þeim hætti sem dómstólar hafa gert varðandi tjáningarfrelsi.
    Hv. þm. Svavar Gestsson talaði um það að dómstólar hefðu framið mannréttindabrot. Ég held að erfitt sé að halda því fram og frekar sé hægt að segja heldur að löggjöfin sé bara ekki nógu skýr í þessum efnum þannig að dómstólar skuli geta túlkað lög með þeim hætti sem hingað til hefur verið gert. Dæmin sanna að það þarf að fara fram endurskoðun á löggjöfinni í heild og ákvæðum hegningarlaganna varðandi þetta mál.
    Hv. 8. þm. Reykv. Geir H. Haarde rakti ýmis atriði varðandi tjáningarfrelsið sem eru settar skorður nú þegar. Ég held að við verðum að gera okkur grein fyrir því að sú gagnrýni sem hefur komið fram á það ákvæði sem þingflokksformenn settu fram sem tillögu varðandi stjórnarskrána verði að skoðast í ljósi núgildandi ákvæða eða ákvæða sem við teljum mjög mikilvægt að séu í íslenskri löggjöf. Ég get tekið að því leyti til undir allt sem hv. þm. Geir H. Haarde sagði áðan, við hljótum að sameinast um það. Ef það ákvæði sem er í frv. til stjórnarskipunarlaga sem hefur verið til umræðu hér um breytingar á mannréttindakafla stjórnarskrárinnar er hægt að túlka þannig að það sé breyting í þessa átt verður auðvitað að reyna að finna eitthvert orðalag sem er skýrt. En ég þori að fullyrða, og þá vil ég gera það hér fyrir hönd þingflokks Kvennalistans sem stendur að því frv. og hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir er flm. að, það er alls ekki meiningin að þrengja ákvæði sem er í gildandi lögum um tjáningarfrelsi. Ég get sagt það fyrir hönd allra sem eru í þeirri nefnd sem fjallar um þetta mál að það er alls ekki meiningin. Hins vegar vil ég einmitt vara við því að ákvæðið sé svo opið að það megi t.d. túlka það eins og þau atriði sem hér hafa verið nefnd. Ég vil minna á það af því að hér var aðeins talað um að hafa Svíþjóð til fyrirmyndar að þar hafa ákvæði um tjáningarfrelsið verið túlkuð þannig að ekki sé hægt að banna dreifingu t.d. á barnaklámi. Þeir hafa lent í vandræðum vegna þess að þar hefur verið höfðað til ákvæðis stjórnarskrárinnar um tjáningarfrelsi. Ég vara því mjög við því að við túlkum ekki þau ákvæði það rúmt þó við viljum gjarnan tryggja og rýmka tjáningarfrelsið og breyta þessum ákvæðum sem hafa gilt í íslenskri löggjöf þá erum við alls ekki að tala um að við viljum heimila slíkt. Við þurfum því að finna annaðhvort orðalag eða skýringu á því við hvað er átt ef hægt er að misskilja það sem fram kemur varðandi stjórnarskrána, þ.e. þau ákvæði sem verið er að leggja til þar. Það held ég að við hljótum öll að vera sammála um og eigum frekar að einbeita okkur að því að finna leið út úr því í staðinn fyrir að vera að halda það að fólk sé að meina eitthvað annað en það hefur meint varðandi það atriði. Ég vil taka undir það um 108. gr. hegningarlaga að alger óþarfi er að vera með slíkt ákvæði inni í lögum og tel að við eigum að fella það burtu.
    Ég vil síðan leggja áherslu á það að endurskoðun laga um tjáningarfrelsi verði hraðað og það er mjög gott ef hægt væri að gera það samhliða endurskoðun á stjórnarskránni. En þó vil ég að mannréttindakafli stjórnarskrárinnar verði samþykktur. Ég vil ekki að þetta tefji það vegna þess að tekið er fram í tillögunni að í upphafi næsta þings eigi að leggja fram tillögu. Ég tel að það geti verið mjög ásættanlegt að ef ekki næst að endurskoða þetta núna fyrir lok þessa þings, sem ég óttast, að það verði þá a.m.k. ekki til þess að hefta það að við getum gert breytingu á stjórnarskránni ef við náum saman um þær breytingar sem eru til góðs að því er varðar mannréttindakaflann. Þetta vildi ég nú segja af tilefni þessarar tillögu og endurtek að ég vona að við náum saman varðandi mannréttindakafla stjórnarskrárinnar og vinnum að því með jákvæðu hugarfari en förum ekki að ímynda okkur að einhver annarleg sjónarmið liggi að baki þeim breytingum eins og t.d. að það hafi verið meiningin að hefta tjáningarfrelsi. Ég held að það sé af og frá að nokkur hafi haft það í huga.