Tjáningarfrelsi

83. fundur
Fimmtudaginn 02. febrúar 1995, kl. 12:51:18 (3774)


[12:51]
     Flm. (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þær umræður sem hér hafa farið fram og tel út af fyrir sig að þær séu til marks um að þingmenn séu jákvæðir gagnvart þessari tillögu sem hér er flutt.

    Það sem aðallega hefur verið rætt er mannréttindakafli stjórnarskrárinnar og ég tel að það sé mjög mikilvægt sem fram kom í máli hv. tveggja síðustu ræðumanna, 10. þm. Reykv. og 8. þm. Reykv., um það mál. Ég vil í fyrsta lagi segja að umræðan um þetta mál er jákvæð. Ég tel að það sé gott að þingflokksformennirnir fluttu frv. og það er gott að aðilar í þjóðfélaginu hafa tekið við sér og sent athugasemdir. Það er náttúrlega hið sanna gagnvirka lýðræði að menn skiptist á rökum og gagnrökum. Ég tel að það eigi þess vegna að hlusta á þær raddir sem komið hafa bæði frá Verslunarráðinu og frá Rithöfundasambandinu og velta því fyrir sér hvernig hægt er að koma til móts við þau sjónarmið sem þar eru uppi. En líka við þær raddir sem hafa komið frá Amnesty International um mannréttindaákvæði stjórnarskrárfrv. en þar segja menn t.d. að það vanti mjög mikið á að frv. sé í lagi satt best að segja. Það er eitt atriði líka sem hefur vakið mikla athygli í sambandi við þetta frv. þingflokksformannanna og það snertir svokallað Þorgeirs-mál sem ég nefndi hér áðan og ég held þess vegna að eigi að skoða það í tengslum við þá afgreiðslu sem fram undan er á stjórnarskrármálinu og hegningarlagafrv. sem er inn í allshn. og á þessari tillögu. Ég sé það þá þannig fyrir mér að það mætti hugsa sér að tjáningarfrelsisþáttur málsins yrði afgreiddur með fjórum efnisatriðum. Þá er ég bæði að hugsa um stjórnarskrárfrv. og líka um 108. gr. hegningarlaganna.
    Það er í fyrsta lagi að ég held að það sé óhjákvæmilegt að það komi fram í stjórnarskránni að efnaleysi fólks megi ekki skerða möguleika þess á að nýta sér tjáningarfrelsi. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að taka það fram m.a. með hliðsjón af fenginni reynslu og hliðsjón af því að ég er viss um að það er í raun og veru andi stjórnarskrárfrv. að öðru leyti. Hvernig á að koma orðum að því í greininni sjálfri skal ég ekki um segja en ég held að það væri mjög æskilegt að þetta kæmi beinlínis inn í greinina í stjórnarskránni eða þær skýringar fylgdu frá Alþingi að þannig ætti að líta á málið.
    Í öðru lagi finnst mér mikilvægt að það komi fram í sambandi við stjórnarskrárfrv. og þessi mál og tjáningarfrelsið að við leggjum ekki að jöfnu illgjörn meiðyrði og særandi sannleiksorð eins og það hefur verið orðað. Ég held að það sé mjög mikilvægt að menn geri greinarmun á þessu tvennu við meðferð mála og mér finnst að helsti skorturinn við umfjöllun um þessi mál af hálfu okkar að undanförnu sé sá að okkur hefur ekki tekist að orða muninn á þessu með nægilega málefnalegum og sannfærandi hætti en á þessu er auðvitað mikill munur. Hvort um er að ræða það sem kallað hefur verið særandi sannleiksorð annars vegar eða illgjörn meiðyrði hins vegar. Á þessu er verulegur munur. Hann er hins vegar ekki ,,objektívur`` heldur ,,subjektívur``, huglægur, og það er erfitt að færa svona hluti í orð. Ég held að það væri sem sagt mjög mikilvægt að þessi tvö atriði varðandi tjáningarfrelsið yrðu skoðuð betur í sambandi við stjórnarskrárfrv. sem slíkt.
    Í þriðja lagi tel ég að það væri líka mjög mikilvægt vegna þeirrar umræðu sem nú hefur farið fram um þessi mál úti í þjóðfélaginu að þessi tillaga sem hér liggur fyrir eða efni hennar með einhverjum hætti verði afgreitt á þessu þingi. Þá er ég ekki að tala um að málinu verði lokið á þessu þingi heldur að það verði unnið í málinu í framhaldi af ákvörðun sem yrði tekin á þessu þingi um leið og stjórnarskrárfrv. yrði afgreitt og það lagað.
    Ég tel sem sagt að það sé ástæða til að undirstrika það að við sameinumst um að lýsa vilja Alþingis til þess að opna tjáningarfrelsið, styrkja aðgang þjóðarinnar að tjáningarfrelsinu, það er það sem við viljum. En við viljum auðvitað skapa möguleika til þess í þágu almannahagsmuna, t.d. í heilbrigðismálum eins og þeirra sem hér voru nefndir áðan af hv. 8. þm. Reykv., að það verði hægt að koma við vissum takmörkunum á þeim grundvelli.
    Í fjórða lagi þá teldi ég að það væri mikilvægt spor í þessari umræðu um tjáningarfrelsi og mannréttindi að fella burtu 108. gr. sem ég held að allir séu að verða sammála um. Á þessum grunni ímynda ég mér að það væri hægt að ná tiltölulega víðri sátt um tjáningarfrelsisþátt stjórnarskrárfrv. sem er langstærsta málið sem við erum með hér til meðferðar. Segjum að við afgreiðum stjórnarskrárfrv. óbreytt. Það má ekki gerast eftir þá umræðu sem farið hefur fram. Það verður eitthvað að koma þarna til viðbótar. Og það t.d. að við erum með þetta stjórnarskrárfrv. annars vegar og hins vegar dóminn vegna Þorgeirs Þorgeirssonar og einnig mál Halls Magnússonar og létum þannig eins og við vissum ekkert af því að þessir dómar væru til, það gengur ekki. Við verðum að taka tillit til þess að þarna hefur fengist alveg tiltekin niðurstaða í máli Þorgeirs Þorgeirssonar og Halls Magnússonar, við viljum taka á því máli og við verðum að taka á því máli. Þess vegna held ég að þær umræður um þá tillögu sem hér hafa farið fram séu jákvæðar og ég hvet þess vegna Alþingi til þess að afgreiða tillöguna og efni hennar með jákvæðum hætti.