Forkaupsréttarákvæði fiskveiðistjórnarlaga

83. fundur
Fimmtudaginn 02. febrúar 1995, kl. 13:47:35 (3781)


[13:47]
     Stefán Guðmundsson :
    Virðulegi forseti. Því miður er nú þetta umræða í styttra laginu og því ekki hægt að fara eins ítarlega yfir þetta mál eins og ástæða hefði verið til. Ég vil þó aðeins segja örfá orð í þessu sambandi og víkja fyrst að því sem hv. þm. Guðni Ágústsson vék að í máli sínu þar sem hann hafði orð á því að ég hefði beitt mér fyrir því við þessa lagasetningu að heimild væri gefin til þess að opna fyrir leiðir til þess að tryggja forkaupsrétt heimamanna á skip. Það er rétt, þetta gerði ég, enda staðfesti hæstv. núv. sjútvrh. það.
    Gallinn í málinu sem hér er til umræðu og ef við viljum einangra okkur við það mál eitt og sér sem átti sér stað í Vestmannaeyjum var sá að það er rétt eins og hér hefur komið fram að þetta skip hefur verið til sölu í marga mánuði. Frá því í sumar hefur þetta skip verið til sölu og heimamenn hafa ekki nýtt sér þann forkaupsrétt sem þá var. Það var líka heimamaður að selja skipið frá Vestmannaeyjum. Þetta hlýtur að vera umhugsunarefni. Mér finnst það mjög miður að menn skuli ætla að fara að efna hér til einhvers ófriðar á milli manna og byggðarlaga eða útgerðarfyrirtækja. Ég held að það sé engum greiði gerður með því og ég held að lögin sem slík hafi ekki verið brotin. ( Gripið fram í: Andi laganna.)
    Ég skal einnig segja frá því hér vegna þess að hér er vikið að litlu byggðarlagi norður í landi sem er Hvammstangi: Á þremur árum hefur þetta litla sveitarfélag Hvammstangi misst frá sér eða orðið að selja frá sér hvorki meira né minna en fimm skip með aflaheimildum þannig að það þarf enginn að vera hissa á því þó að það hrikti í á þessum stöðum. En það er mikil einföldun hjá mönnum sem tala yfirleitt um sjávarútvegsmál þegar menn afgreiða það á einn hátt að það sé allt kvótanum að kenna. Það er mikil einföldun á staðreyndum.