Dreifing sjónvarps og útvarps

83. fundur
Fimmtudaginn 02. febrúar 1995, kl. 14:23:41 (3791)


[14:34]
     Flm. (Stefán Guðmundsson) :
    Virðulegi forseti. Ég tala hér fyrir till. til þál. um dreifingu sjónvarps og útvarps. Flutningsmenn með mér í þessu máli eru Finnur Ingólfsson, Páll Pétursson, Guðni Ágústsson, Ingibjörg Pálmadóttir, Jón Kristjánsson, Pétur Bjarnason og Valgerður Sverrisdóttir. Þáltill. hljóðar svo:
    ,,Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að sjá svo um að á næstu tveimur árum verði fjármagn tryggt svo að standa megi við afdráttarlausa viljayfirlýsingu Alþingis frá 11. maí 1988 um að komið verði upp þeim búnaði sem þörf er á svo að allar útsendingar útvarps og sjónvarps náist hvar sem er á landinu og á helstu fiskimiðum við landið.``
    En í grg. með þáltill. segir m.a.:
    ,,Árið 1987 flutti fyrsti flutningsmaður þessarar þingsályktunartillögu svohljóðandi tillögu um sama efni:
    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að sjá svo um að á næstu þrem árum (1988, 1989 og 1990) verði nægjanlegt fjármagn tryggt svo að koma megi upp þeim búnaði sem þarf til þess að allar útsendingar Ríkisútvarpsins frá stöðvum þess í Reykjavík náist hvar sem er á landinu.
    Í framhaldi af því samþykkti Alþingi 11. maí 1988 svofellda ályktun:
    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta nú þegar gera kostnaðar- og framkvæmdaáætlun um að útsendingar Ríkisútvarpsins, þ.e. hljóðvarps og sjónvarps, náist hvar sem er á landinu og á helstu fiskimiðum við landið.
    Áætlunin miðist við að hægt verði að framkvæma þetta verkefni fyrir árslok 1991.
    Engum vafa er undiropið að vilji Alþingis var sá með samþykkt ályktunarinnar að efni tillögunnar yrði framkvæmt, þ.e. að búið yrði þannig að dreifikerfi hljóðvarps og sjónvarps að sendingar næðust á öllu landinu og á helstu fiskimiðum við landið. Vilji Alþingis á ekki að koma á óvart, fremur hitt hvað veldur því að ekki hefur verið framfylgt því sem segir í útvarpslögum: ,,Ríkisútvarpið skal senda út til alls landsins og næstu miða tvær hljóðvarpsdagskrár og minnst eina sjónvarpsdagskrá árið um kring.``
    Sú staðreynd blasir við að enn hefur ekki tekist að dreifa hljóðvarps- og sjónvarpssendingum til allra landsmanna. Víða stendur svo á að fólk, sem býr á ákveðnum svæðum, fær ekki notið sjónvarps og nýtur mjög lélegra hlustunarskilyrða hljóðvarps. Enn verra er þetta ástand hvað varðar móttökuskilyrði á miðunum umhverfis landið.``
    Það ætti öllum að vera ljóst að Ríkisútvarpið er ekki aðeins frétta- og fræðslumiðill, Ríkisútvarpið er einn mikilvægasti hlekkurinn í því öryggisneti sem okkur Íslendingum er svo nauðsynlegur að ekki bresti. Það hefur nú sannast svo áþreifanlega í þeim veðraham sem gengið hefur yfir landið að engin keðja er sterkari en veikasti hlekkurinn.
    Eins og ég vék að fyrr er vilji Alþingis alveg ljós í þessu máli. Alþingi vill að því verði komið fram sem segir í útvarpslögum. Það er óásættanlegt að lengur sé vikist undan því að taka á þessu þýðingarmikla máli. Flutningsmenn þáltill. hafa upplýsingar um að um 40--50 bæir hafi ónothæf myndgæði sjónvarps og um 30 hafi mjög slæm gæði myndar. Þetta ástand er ekki viðunandi enda í andstöðu við markaða stefnu í útvarpsmálum. Sú stefna hlýtur að gilda um allar aðalsendingar á vegum Ríkisútvarpsins hvort

heldur um hljóðvarpið er að ræða með sínar tvær rásir eða sjónvarpið.
    Mér er það ljóst og okkur flutningsmönnum öllum að hér er endalaust hægt að skjóta sér á bak við það að fjármagnið skorti til þessara framkvæmda. En ég vil benda á að það sem skiptir líka máli er forgangsröðun framkvæmda á vegum Ríkisútvarpsins. Ég tel að þetta sé það verkefni sem eigi að setja fremst í forgangsröð. Ríkisútvarpið hefur miklum skyldum að gegna við fólkið í landinu enda standa landsmenn allir undir kostnaði við rekstur þess, beint eða óbeint. Ríkisútvarpið er samkvæmt tilgangi sínum sameiginleg menningarstofnun þjóðarinnar og aðalfréttamiðill sem ætlað er að ná til alls landsins. Því er ekki hægt að segja að Ríkisútvarpið standi fyllilega undir nafni meðan dreifikerfið er eins og raun ber vitni. Í rauninni þarf Ríkisútvarpið að sinna landsbyggðinni því betur sem þessi samkeppni í útvarpsrekstri á sér fyrst og fremst stað í þéttbýli. Ríkisútvarpið verður að skera sig úr að þessu leyti, miðað við aðrar útvarpsstöðvar, leggja áherslu á að senda út efni sem ætlað er öllum landsmönnum og vinna ötullega að uppbyggingu dreifikerfisins.
    Með skipulegum áætlunum og viðeigandi áherslum við röð framkvæmda hjá Ríkisútvarpinu og auknu framkvæmdafé ætti að vera unnt að ná því takmarki sem þessi þingsályktunartillaga stefnir að.
    Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði síðan vísað til hv. menntmn.