Dreifing sjónvarps og útvarps

83. fundur
Fimmtudaginn 02. febrúar 1995, kl. 15:03:22 (3797)


[15:03]
     Flm. (Stefán Guðmundsson) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka þingmönnum fyrir góðar undirtektir við þessa till. og þær koma mér satt að segja ekki á óvart. Það er alveg hárrétt sem hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson benti á að mikil tæknibreyting hefur orðið á hinum síðustu árum í þessum efnum og ég ætla ekki að setja mig í dómarasæti hvað er þar best. Ég trúi því að þeir tæknimenn sem fjalla um þessi mál muni horfa til þeirrar miklu framþróunar og sjá það kannski manna best hvað hentar okkur í þeim efnum.
    Ég er þess líka meðvitandi að kostnaðartölur við þetta eru nokkuð háar ef allt er lagt saman en ég vil þó benda á að það er okkur ekki um megn að gera slíkt, það fullyrði ég. Ég bendi einnig mjög sterklega á að mjög víða er hægt að gera úrbætur í þessum málum sem duga bærilega án þess að leggja út í mjög kostnaðarsamar framkvæmdir. Það er alveg ljóst og víða á þessum afskekktari stöðum hefur fólk verið að reyna að búa í haginn fyrir sig í þessum efnum á hinn frumstæðasta hátt og ég er sannfærður um ef tæknilið útvarpsins eða Pósts og síma sem sjá um, held ég, þessa þætti mundi leggjast á eitt þá er hægt að finna og bæta allvíða úr með ekki miklum kostnaði.
    Virðulegi forseti. Ég tek einnig undir það sem kom fram hjá hv. 3. þm. Vesturl. að vissulega er galli að vera að tala um þetta mál hér og nú að hæstv. menntmrh. fjarstöddum. Ekki síst vegna þess sem segir í tillgr. en þar segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela menntmrh. að sjá svo um að á næstu tveimur árum verði fjármagn tryggt svo standa megi við afdráttarlausa viljayfirlýsingu Alþingis frá 11. maí 1988.``
    Við erum að leggja til að hæstv. menntmrh. verði falið að sjá svo um og það er engin tilviljun að svona stendur þetta í tillgr. Ástæðan fyrir því er einmitt sú sem hér hefur einnig verið vikið að að þann 11. maí 1988 samþykkti Alþingi svohljóðandi ályktun í framhaldi af till. sem ég flutti þá um sama efni:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta nú þegar gera kostnaðar- og framkvæmdaáætlun um að útsendingar Ríkisútvarpsins, þ.e. hljóðvarps og sjónvarps, náist hvar sem er á landinu og helstu fiskimiðum við landið.
    Áætlunin miðist við að hægt verði að framkvæma þetta verkefni fyrir árslok 1991.``
    Í mínum huga hefur Alþingi talað skýru máli með þessari samþykkt. Ekki fer á milli mála hver vilji Alþingis var í þessu efni. Þegar þessi tillaga var til umræðu talaði fjöldi þingmanna í málinu og tóku allir undir að hún væri þörf og við ættum að hrinda þessu í framkvæmd. Þess vegna var aðeins gerð orðalagsbreyting á tillöguflutningnum af menntmn. og það er hún sem flutti þessa till. að lokum sem ég var að lesa upp og var samþykkt á Alþingi.
    Því beini ég þessu nú til hæstv. menntmrh. að hann sjái svo um að við samþykkt Alþingis verði staðið. Því tek ég undir það enn og aftur að það er auðvitað galli að hæstv. ráðherra menntamála, sem hér er verið að vísa til, skuli ekki geta tekið þátt í umræðunni. En ég trúi því og tel mig reyndar vita að hæstv. menntmrh. hefur vilja til þess að koma þessu máli í framkvæmd og ég vil trúa því að það verði. Ég vænti þess þó að stutt sé eftir af þinghaldinu væri það sómi fyrir okkur alþingismenn að koma því svo fyrir að þessi tillaga væri afgreidd enn og aftur á Alþingi. Ég held að það sé það sem við þurfum til að geta lokið málinu. Við sjáum hversu alvarleg tíðindi hafa gerst vegna þess að þessi hlekkur í öryggiskeðjunni hefur brostið sem er Ríkisútvarpið sjálft. Við vitum það einnig sem þekkjum til íslenskra sjómanna að ekki er viðunandi lengur að geta ekki orðið við því að þeir geti notið þess að horfa á sjónvarp og hlusta á íslenska Ríkisútvarpið.
    Því beini ég þeim orðum mínum mjög eindregið til menntmn. að hún taki þetta mál upp og vinni röggsamlega í því og sjái til þess að málið geti hlotið afgreiðslu fyrir þinglok.