Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

83. fundur
Fimmtudaginn 02. febrúar 1995, kl. 16:03:07 (3803)


[16:03]
     Pétur Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Frv. þetta er samið á grundvelli tillagna nefndar sem skipuð var í fyrra eftir að snjóflóð urðu á Vestfjörðum, nánar tiltekið í Tungudal við Skutulsfjörð og til hliðsjónar var haft frv. sem þá lá fyrir þinginu flutt af hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni og fleirum.
    Ég fagna því að þetta frv. skuli vera komið á dagskrá jafnframt því sem ég á von á því að á sama hátt og hið fyrra frv., sem nefnt var, var tekið til endurskoðunar eftir atburðina sem urðu í fyrravor þá muni þeir verða hafðir til hliðsjónar við meðferð þessa frv. í nefnd og hvernig á þessum málum verður tekið.
    Atburðir síðustu vikna og þau snjóalög sem nú eru komin víðs vegar um landið færa okkur heim sanninn um það að við höfum vanmetið þessa hættu árum saman. Við höfum rekið okkur á það að byggt hefur verið á mörgum svæðum víðs vegar á landinu sem sýnir sig nú að eru fjarri því að vera án hættu vegna snjóflóða.
    Það er ánægjulegt að heyra það að nefnd sú sem er að störfum vinnur af kappi og mun væntanlega safna upplýsingum og koma þeim á framfæri og þær munu verða nýttar í vinnu þessa máls á næstunni.
    Við sjáum það núna, þó við höfum kannski á undanförnum árum verið fullsofandi varðandi varnir gegn snjóflóðum, þá hafa menn samt sem áður smátt og smátt verið að gera sér ljósar en fyrr mikilvægi þess að tryggja byggð einmitt gegn vá af þessu tagi. Þau okkar sem sátum fund með hinum norska sérfræðingi, Karsten Lid, um snjóflóðavarnir í Noregi, ráku sig á að þeir hafa unnið mun lengur og mun skipulegar. Þeir hafa í höndum miklu meiri gögn frá fyrri tímum og þeir miða sínar varnir og sitt mat við mun lengra tímabili heldur en við höfum gert og e.t.v. við höfum getað gert þar sem heimildir okkar um snjóalög, veðurfar og ýmsar aðstæður aðrar, eru ekki jafnítarlegar og þeir hafa til ráðstöfunar.
    Auðvitað er aðalatriðið í þessu máli að tryggja öryggi íbúanna. Það sér hver maður að ef heimili manns er ekki öruggt þá getur búseta hvar sem er ekki verið trygg. Það er frumskilyrði að tryggja öryggi íbúanna og húsa þeirra þar sem þeir búa.
    Í athugasemdum við frv. er sagt frá því að varið hafi verið tæpum 15 millj. til hættumats eða sem svarar 2,5 millj. kr. á ári. Það er sýnt að þessa upphæð þarf að stórauka. Það þarf að vinna og það er mjög brýnt að að því verði unnið mun meira, að þessum rannsóknum og hættumat, eins og það hefur verið framkvæmt, þarf þar að auki að taka til gagngerrar endurskoðunar.
    Það kemur einnig fram að til varnarvirkja gegn snjóflóðum sé áætlað að verja hátt á sjötta hundrað milljónum, eða 567 millj. kr. Nú þegar þessi mál verða tekin til gagngerrar athugunar hljóta menn að verða að gera upp við sig, þar sem um er að ræða takmarkaðan hluta byggða sem er í hættu eða getur verið í hættu af snjóflóðum, hvort heldur eigi að ráðast í það að byggja mjög dýrar varnir ef hægt er að afmarka þessi byggðasvæði út af fyrir sig --- víða háttar svo til að það er hægt --- hvort það eigi heldur að verja hundruðum milljóna í varnargarða eða varnaraðgerðir eða færa íbúðahverfi til eða jafnvel að hvort tveggja verði gert. Með varnaraðgerðum verði hættusvæði minnkað, stærra svæði gert öruggt og jafnframt verði þar sem erfiðast er að tryggja varnir --- varnir verða auðvitað að vera þannig að tryggt sé eða svo nærri því að tryggt sé sem mögulegt er að komast að ekki falli snjóflóð á þessi svæði. Það hlýtur að vera krafa þeirra sem hafa byggt íbúðarhús sín á svæðum sem nú eru eða verða eftir nýtt mat í ótvíræðri hættu fyrir snjóflóðum að þeim verði bættur sá kostnaður sem þeir verða fyrir við það að yfirgefa hús sín sem þeir byggðu á sínum tíma í góðri trú og samkvæmt heimildum sem giltu.
    Það er ekki nægilegt að komið sé til móts við þarfir íbúanna í þessu því þó að hver íbúi fái bættan sinn húsakost þá þarf sveitarfélagið, sem oft og tíðum er vanmegnugt til stórra framkvæmda, að leggja í ýmsan kostnað við það að byggja upp ný hverfi á nýjum stöðum. Það eru alls konar veitukerfi sem þarf að setja upp. Það þarf að skipuleggja ný hverfi, leggja götur og svo framvegis.
    Nú er vafalaust allt of snemmt á þessu stigi málsins að vera að fjölyrða eða leggja til lausnir í einstökum atriðum og ég lít svo á að framkoma þessa frv., umræður um það og vinna sem fara mun fram í nefnd um það, verði til þess að menn leggist allir á eitt því hér held ég að sé um mjög brýnt hagsmunamál mjög margra að ræða og íslensku þjóðarinnar í heild, enda held ég að það sé um þetta breið samstaða. Vinna þetta mál eins vel og kostur er og leita þeirra varna sem bestar geta orðið.
    Í umræðunni sem frestað var í gær varpaði hv. 3. þm. Vestf. fram spurningu til hæstv. félmrh. sem

ég vil gjarnan ítreka og varðar þetta mál. Hann spurði um 4. gr. þar sem stendur, með leyfi hæstv. forseta: ,,Greiða má allt að 90% af kostnaði við undirbúning og framkvæmdir við varnarvirki.`` Síðan segir: ,,Kostnaður við kaup á löndum, lóðum og fasteignum vegna varna telst með framkvæmdakostnaði.`` Um þetta er beðið betri skýringa og ég tel nauðsynlegt að séu þær skýringar fyrir hendi nú þegar að fá þeim svarað. Ef ekki, þá í þessari vinnu að leitast við það að þeim verði svarað svo menn geti vitað svolítið á hverju er von.
    Eins vil ég ítreka það að þessar aðgerðir hljóta að miða fyrst og fremst að því að tryggja öryggi íbúanna. Heimilið er helgasti staður hvers manns og helsta vígi og geti hann ekki verið öruggur þar þá skortir margt á lífsgæðin eins og allir gera sér ljóst. Og aðalatriðið í þessari umræðu allri, sem ég vona að verði haft að leiðarljósi, er að tryggja öryggi og síðan hitt að menn meti hvar og hvenær munu varnir koma að gagni og hvar þarf að grípa til róttækari aðgerða.