Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

83. fundur
Fimmtudaginn 02. febrúar 1995, kl. 16:57:01 (3809)


[16:57]
     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi þakka hv. 4. þm. Austurl. fyrir mjög fróðlega ræðu sem var mikilvægt innlegg fyrir okkur, ekki síst okkur sem höfum minni þingreynslu og þekkjum ekki þessi mál í gegnum þingsöguna með sama hætti og hv. þm. sem ég veit að hefur sýnt þessu máli ævinlega mjög mikinn áhuga og kom glögglega fram í hans máli. En vegna þess að hann vék aðeins nokkrum orðum í lok síns máls að uppbyggingunni í Tunguskógi í nágrenni Ísafjarðar vil ég segja það að ég held að við hv. þm., þó að við séum báðir áhugamenn um það að öryggi íbúa sé tryggt og við séum báðir einlægir áhugamenn um að eins vel sé gengið frá snjóflóðavörnum og hægt er, séum við kannski ekki alveg sammála um það hvernig ætti að standa að málum í uppbyggingunni í Tungudal. Ég vil þess vegna láta það koma fram sem mitt sjónarmið að ég tel að það hafi verið mjög eðlileg niðurstaða hjá yfirvöldum og þar meðal hjá skipulaginu og umhvrn. að standa þann veg að málum eins og gert var í Tunguskógi við Ísafjörð í Skutulsfirði vegna þess að þar var eingöngu verið að tala um að byggja upp sumarhúsabyggð. Þar var ekki verið að tala um það að byggja upp heilsársbyggð. Það kom fram að byggðin þarna er skilyrt með þeim hætti að það er hugsunin að leyfa eingöngu búsetu í byggðinni í Tunguskógi yfir hásumarið á þeim tíma sem snjóflóðahætta er ekki fyrir hendi.
    Þetta er mjög þýðingarmikið, þetta skiptir mjög miklu máli og við vitum það að tengsl íbúa Ísafjarðar við byggðina í Tunguskógi er mjög sterk og við sem þekkjum til þarna gerum okkur ljóst að Ísafjörður hefði ekki verið samur eftir snjóflóðið ef ekki hefði verið tekin sú ákvörðun sem tekin var á síðasta ári að heimila byggðina með þessum ströngu skilmálum.
    Ég held að menn geri sér allir grein fyrir því, ekki síst íbúarnir á þessu svæði, að þetta leggur þeim þungar skyldur á herðar og menn munu auðvitað reynslunni ríkari umgangast þennan veruleika af miklu meiri alvöru en menn hafa gert fram að þessu. Það er rétt sem hv. þm. sagði að við erum stundum fljót að gleyma, en menn hafa ekki gleymt og munu ekki gleyma þeim voveiflegu atburðum sem þarna áttu sér stað og menn gera sér grein fyrir því að þeir verða að virða þær reglur sem settar voru og þess vegna var þetta eðlileg ákvörðun sem tekin var á síðasta ári.