Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

83. fundur
Fimmtudaginn 02. febrúar 1995, kl. 17:01:35 (3811)


[17:01]
     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt þegar menn eru að leggja mat á hættuástand vegna snjóflóða þá sé það gert út frá þeim sjónarhóli að það er reginmunur á því hvort við erum annars vegar að tala um útivistarsvæði að sumarlagi og sumarhúsabyggð sem eingöngu er til búsetu að sumarlagi eða hvort við erum að tala um heilsársbyggð þorps, kauptúns eða kaupstaðar. Á þessu er reginmunur. Og það sem menn voru að komast hjá með þeirri ákvörðun sem þarna var tekin í fyrra var það að sumarhúsabyggðin í Tunguskógi, sem spilaði svo stórt hlutverk í lífi Ísfirðinga, væri lögð niður með því að setja þau skilyrði að búseta væri háð því að menn væru þar eingöngu á þeim tíma sem álitið væri að snjóflóðahætta væri ekki til staðar.
    Nú er það annað mál og sér á parti sem er tryggingaþátturinn sem hv. þm. nefndi áðan. Ef ég skildi það mál rétt á sínum tíma þá er það svo að það væri háð mati tryggingafélagsins og ef tryggingafélag væri tilbúið til þess að tryggja þá væri viðlagatryggingin ábyrg. Það er hins vegar annað mál. Meginatriðið er þetta sem ég sagði, að það er á því reginmunur hvort við erum að tala um svæði þar sem búseta er allan ársins hring eins og í þorpunum og kaupstöðunum vítt og breitt um landið eða hvort við erum að tala um sumarhúsabyggð, sumarhúsalóðir þó það vilji þannig til að þeir séu í nágrenni við þéttbýli. Á þessu er auðvitað mikill munur. Og ég held að það hafi verið skynsamleg niðurstaða sem yfirvöld komust að í fyrra að leyfa þessa byggð með þessum ströngu skilmálum.
    Það má vel vera að dagsetningin 15. apríl sé ekki endilega hin kórrétta, ég skal ekkert um það segja. En það varð hins vegar niðurstaðan eftir að menn höfðu skoðað þetta að leyfa þessa byggð með þessum ströngu skilmálum og menn hafa auðvitað virt þetta og munu virða þetta. Og þó að minni manna nái skammt þá vil ég fullyrða það sem íbúi á þessu svæði að við höfum ekki gleymt þeim voveiflegu atburðum sem urðu í fyrra og verða sífellt til að minna okkur á þessa miklu hættu sem vofir yfir. Við sem einu sinni höfum staðið frammi fyrir hættunni á snjóflóðum gleymum því ekki svo glöggt. Það get ég fullyrt.