Fjöleignarhús

83. fundur
Fimmtudaginn 02. febrúar 1995, kl. 18:13:35 (3823)


[18:13]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er ekki algengt að það sé farið upp með brtt. svo stuttu eftir lagasetningu í máli sem er ekki stærra í sniðum eða flokkspólitískt deilumál eins og þessi lagasetning var nú ekki að ég tel um fjöleignarhús og reglur þar. En nokkrir hv. þm. hafa lagt inn brtt. til þess að fá fram breytingar á tilteknu ákvæði sem fór hér fram, ég hélt í allgóðu samkomulagi --- ég hef nú ekki athugað atkvæðagreiðslu á liðnu þingi eða þegar þetta var lögfest í mars 1994. Mér finnst hv. flm., sem hefur beitt sér fyrir þessu, vera hér í dálítið heitu vatni með þetta, og ég skil í rauninni ekki þau rök sem er verið að bera fram til þess að opna fyrir þessi ákvæði umfram það sem er í lögum þar sem er áskilið samþykki eigenda í viðkomandi húsi sem gæti nú kannski eins tekið tekið til leigjenda ef svo bæri við, ef íbúðir eru leigðar. Um svona hluti þarf að gilda gott samkomulag og það þarf að vera ríkur réttur þeirra sem geta orðið fyrir barðinu á þeirri ánægju sem aðrir telja sig uppskera af því að halda gæludýr eða standa fyrir slíku, þó það beri auðvitað ekki af meinbægni að ganga lengra en góð rök eru fyrir. Ég held að þessi hugmynd leysi engan vanda og ég held að menn eigi nú að búa við lagasetninguna eitthvað, þurfi að safna svona gildari rökum fyrir breytingu en hér liggja fyrir.