Hækkun áburðarverðs

84. fundur
Föstudaginn 03. febrúar 1995, kl. 10:39:50 (3831)


[10:39]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Eins og hv. þm. er kunnugt varð sú breyting nú um áramótin að innflutningur á áburði hefur verið gefinn frjáls og af þeim sökum hafa auðvitað viðhorf og samkeppnisstaða Áburðarverksmiðjunnar gerbreyst frá því sem áður hefur verið. Það háttar svo um flutninga til og frá landinu að ef vara er skráð á hafnir úti á landi þá kostar það hið sama frá erlendum höfnum hvort sem við erum að tala um Seyðisfjörð, Akureyri, Reyðarförð eða Reykjavík þannig að flutningskostnaðurinn er inni í verðinu. Að vísu hafa sumir haldið því fram að það sé e.t.v. skammt í það að krafa muni koma upp um það að tillit verði tekið til kostnaðar í sambandi við vöruflutninga til og frá landinu þannig að afskekktar byggðir sitji þar við verra borð heldur en verið hefur. Þessar raddir eru vissulega uppi, en á hinn bóginn er það svo að flutningskostnaður er hinn sami hvert sem farið er.
    Þegar við erum að ræða um samkeppnisstöðu Áburðarverksmiðjunnar nú erum við auðvitað að tala um það að hún geti mætt samkeppninni hvar sem er á landinu og ég vil líka minna á að sl. 10 ár hefur Áburðarverksmiðjunni verið mjög vel stjórnað eins og sést á því að áburðarverð á sl. ári var að meðaltali aðeins 57% að raungildi af því sem það hafði verið 10 árum áður. Ég held að það liggi líka fyrir að Áburðarverksmiðjan nú er betur undir samkeppni búin gagnvart öðrum löndum en áður var sem gefur bjartsýni á að lengur en ella sé hægt að halda áburðarframleiðslu hér áfram þannig að hún sé samkeppnisfær.
    Ég hlýt líka að minna á í þessu sambandi að verðjöfnun hefur verið á ýmsum framleiðsluvörum, bæði innlendum og erlendum, hvort sem við tölum um bensín eða olíu. Við getum líka aðeins rifjað upp að samkeppni í verslun er orðin svo hörð hér á landi að innlendir framleiðendur eru látnir greiða flutningskostnað fyrir vörur út á land, t.d. til Akureyrar, sem er gert að skilyrði í mörgum tilvikum fyrir því að um slík viðskipti geti orðið að ræða.
    Auðvitað má segja að það sé umdeilanlegt með hvaða hætti Áburðarverksmiðjan eigi að svara hinni erlendu samkeppni. Stjórn verksmiðjunnar veltir því upp hvort það geti orðið til hagræðis og jafnræðis við neytendur að lögleiddur yrði sérstakur flutningsjöfnunarsjóður vegna tilbúins áburðar með svipuðum hætti og gildir um flutningskostnaðarjöfnun á sementi svo sem gert var þegar Sementsverksmiðjan missti einokunaraðstöðu sína. Þá er talið augljóst að slík löggjöf hefði gert samkeppnisstöðu verksmiðjunnar til muna betri gagnvart innfluttum áburði. Á hinn bóginn taldi stjórnin að sá háttur hefði mikla fyrirhöfn í för með sér, skýrslugerð og kostnað þannig að til lengdar mundi verðmiðlun af því tagi óhjákvæmilega leiða til hærra áburðarverðs en ella. Því væri best að horfast í augu við orðinn hlut og mæta samkeppni á jafnréttisgrundvelli með bættri þjónustu, betri vöru, lægra og samkeppnishæfu verði og betri skilmálum en vænta má að samkeppnisaðilar gætu boðið. Af þessu leiðir að enda þótt verðskrá Áburðarverksmiðjunnar geri ráð fyrir ákveðnu grundvallarverði eru það fyrrgreindir aðilar, kaupendur og endurseljendur, umboðs- og umsýsluaðilar sem ráða endanlegu verði til neytenda. Ef verksmiðjan ætlaði sér að semja við einstaka neytendur um sérstakan afslátt eftir því hvar þeir búa þá væri hún í raun komin í verðsamkeppni við sjálfa sig, segir í minnisblaði sem ég fékk frá Áburðarverksmiðjunni en auðvitað er það ljóst að endurseljendur hafa nokkurt svigrúm til samninga og geta gefið bændum kost á að flytja sjálfir áburð sinn ef þeir telja sér hag í því.
    Ég hef ekki tíma til að ræða þessi mál frekar í fyrri ræðu minni en málið er flókið og menn hafa verið að reyna að finna leiðir til þess að styrkja samkeppnisstöðu Áburðarverksmiðjunnar til þess að hún geti starfað áfram.