Framkvæmd búvörusamningsins

84. fundur
Föstudaginn 03. febrúar 1995, kl. 11:44:13 (3844)


[11:44]
     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka skýrslubeiðendum fyrir það að biðja um þessa skýrslu. Betur hefðu þeir beðið hæstv. þáv. fjmrh., Ólaf Ragnar Grímsson, að skrifa undir búvörusamninginn og alla fylgisamninga þannig að við hefðum sloppið við þá vandræðalegu umræðu og vandræðalegu meðferð sem af því hefur hlotist að núverandi ríkisstjórn hefur getað skotið sér á bak við það að ekki var formlega gengið frá öllu af hálfu fyrrv. fjmrh. En það er sannarlega ástæða til þess að ræða málefni landbúnaðarins og að því leyti er fengur að þessari skýrslu.
    Þessi skýrsla liggur nú fyrir og ég verð að játa það að mér finnst þetta vera fremur lítilfjörleg skýrsla og hún svarar ekki öllum spurningunum. E.t.v. var ekki spurt réttra spurninga í öllum tilfellum. En

þetta er ákaflega sorgleg skýrsla því jafnvel þó að skýrsluhöfundar taki ekki mikið upp í sig, þeir læðast um á kattaþófum, þá er þessi skýrsla opinberun á þeim harmleik sem hefur verið að gerast í sveitum landsins á þeim tíma sem búvörusamningurinn hefur gilt. Hún opinberar þau botnlausu vandræði sem leidd hafa verið yfir fjölda bændafjölskyldna í landinu. Þessi skýrsla sýnir samdrátt. Hún sýnir hrörnun, hún sýnir fátækt sem hefur haldið innreið sína í sveitir landsins. Búvörusamninginn, þó vafalaust hafi hann verið gerður í góðri trú á sínum tíma af þeim sem að því máli komu, hefur ekki reynst bjargráð fyrir bændur og það er augljóst þegar þessi skýrsla er skoðuð.
    Ríkisvaldið hefur ekki staðið við sinn hluta samningsins og íslensk bændastétt stendur miklu verr núna en hún gerði við upphaf samningsins. Það er ekki einungis í sveitunum sem þessi samdráttur hefur komið niður. Þéttbýlið sem byggist á úrvinnslu landbúnaðarafurða er náttúrlega nátengt framleiðslunni í sveitunum og þar hefur líka samdrátturinn orðið mjög tilfinnanlegur. Ef framleiðslan hrynur þá hrynja þorpin og bæirnir þar sem þjónustustörf við landbúnað eru verulegur þáttur í atvinnulífinu. Ef við gefum okkur að það séu í kringum 4.000 bændur á Íslandi þá er a.m.k. óhætt að margfalda þá tölu með fjórum eða fimm til að finna út hvað margir lifa á landbúnaði.
    Nú hefur landbúnaðarframleiðslan dregist saman, þ.e. fyrst og fremst sauðfjárframleiðslan. Hún hefur dregist saman þannig að bóndi sem átti 400 ær við upphaf samningstímans setti á um 260 í haust. Þetta gefur náttúrlega augaleið hver breyting hefur orðið á kjörum þessa fólks. Hæstv. landbrh. sagði hér rétt áðan að þetta hefði orsakað yfir 40% tekjulækkun. Ég held að það sé óhætt að segja 40--60% tekjulækkun a.m.k. og það fólk sem sauðfjárframleiðslu stundar er ekki hálfdrættingar í fjölskyldutekjum á við aðra.
    Nú er staða bænda mismunandi, meira að segja sauðfjárbænda því sem betur fer eru örfáir sem hafa enn þá þokkalega afkomu af sauðfjárrækt en þeir eru sárafáir. Það eru sárafá bú á Íslandi sem eru yfir því sem var grundvallarbú þegar samningurinn var gerður.
    En hvað á að gera við þetta fólk sem stundað hefur sauðfjárframleiðslu og nú eru ekki orðnir hálfdrættingar á við aðra í landinu að tekjum til? Það hefur orðið fyrir tekjutapi, eignirnar eru vannýttar og það er mikið dulið atvinnuleysi í sveitum. Menn hafa verið að éta upp eignir sínar og margir eru búnir að safna neysluskuldum til þess að draga fram lífið. Þeir hafa ekki möguleika á atvinnuleysisbótum þó ótrúlegt megi virðast. Bændur eru látnir greiða í Atvinnuleysistryggingasjóð en honum er lokað fyrir þeim. Hann er harðlokaður fyrir bændum, þeir þurfa að gefa upp alla von og segja sig hér um bil til sveitar til þess að hafa einhverja möguleika á að fá einhverjar hundsbætur úr Atvinnuleysistryggingasjóði.
    Þetta fólk hefur að engu að hverfa. Atvinnuástand í þéttbýlinu er þannig að það er ekki um auðugan garð að gresja til stórfelldra þjóðflutninga úr sveitum landsins í bæina eins og stendur. Það er kannski ástæða til að velta því aðeins fyrir sér hverjar eru orsakirnar fyrir því að sauðfjárframleiðslan er svona illa komin. Sauðfjárbændur búa einir kjötframleiðenda við kvóta. Þeir búa einir kjötframleiðenda við framleiðslutakmarkanir. Raunar búa kúabændur líka við framleiðslutakmarkanir en það er tiltölulega auðvelt að breyta umframmjólk í nautakjöt og það er fyrst og fremst skýringin af hverju framleiðslutakmarkanirnar í nautgriparæktinni hafa tekist, menn hafa getað gefið kálfunum umframmjólk og þrengt þar með að kjötmarkaðinum.
    Meiri skerðing kemur náttúrlega ekki til greina því það er algjör dauðadómur. Ég held að auðveldasta leiðin til þess að snúa þessari þróun við sé að lofa sauðfjárbændum að framleiða meira en þeir hafa heimildir til núna. Innanlandsmarkaðurinn er of lítill og það er ekki líklegt að neysluhlutföll kjöttegundanna breytist dilkakjöti í hag alveg á næstunni. Þá er engin leið önnur en að flytja út og leggja aukna áherslu á útflutning. Nú hefur útflutningi verið nokkuð sinnt og reyndar unnið stórmerkilegt starf að reyna að kynna lífrænan landbúnað og þá möguleika sem þar geta skapast vegna hreinleika og sérstakra aðstæðna á Íslandi þá á það að vera Íslendingum þægilegra en flestum öðrum sauðfjárframleiðendum að framleiða hreint og ómengað kjöt.
    En þrátt fyrir þetta gefur útflutningurinn ekki viðunandi tekjur þannig að hann geti orðið bjargráð eins og stendur nema til komi a.m.k. einhver tímabundinn markaðsstuðningur. Ég tel að það ætti að binda þennan markaðsstuðning við prósentu af skilaverði þannig að inn í kerfið yrði byggður hvati, byggð svipa á útflytjendur að reyna að ná sem allra hæstu verði. Útflutningsbæturnar unnu sér að vissu leyti til óhelgi með því að það var ekki borgað prósentvís út á skilaverðið heldur var borgað það sem á vantaði að skilaverðið næðist upp í grundvallarverð.
    Það má geta þess að sjávarútvegur og útflutningsiðnaður hefur búið við verulegan markaðsstuðning líka og markaðsleitarpeninga.
    Það var ekki stoltur hæstv. landbrh. sem stóð hér áðan og flutti þessa skýrslu og lifandis ósköp kenndi ég í brjósti um hæstv. landbrh. fyrir þetta að þurfa að koma hér og leggja fram skýrslu eins og þessa sem við höfum í höndunum. Hann er búinn að vera landbrh. í fjögur ár. Hann bjó að vísu ekki til þennan samning en hann sá um framkvæmd hans og var ábyrgur fyrir framkvæmdinni eins og hún hefur tekist til. Ég held að það sé óhjákvæmilegt að benda á, það þarf reyndar ekki að benda á það, það er öllum ljóst að það hefur verið vesöl frammistaða hjá hæstv. landbrh. Nú veit ég það að hæstv. landbrh. hefur viljað gera betur og hann hefur búið við að vissu leyti óhægar aðstæður þar sem hæstv. utanrrh. hefur tekið að sér að vera yfirlandbúnaðarráðherra og tekið fram fyrir hendurnar á hæstv. landbrh. En það má líka spyrja hvort það var sómasamlegt hjá hæstv. landbrh. að láta undan hæstv. utanrrh. æ ofan í æ.

    Hæstv. landbrh. fór að tíunda hvað þyrfti að vera í nýjum búvörusamningi. Ég vil spyrja hæstv. landbrh. hvað líður gerð nýs búvörusamnings. Ég hef grun um að það sé harla lítið sem búið er að gera í því efni. Það er kannski eins skynsamlegt að vera ekki að fela þessum hæstv. landbrh. að ganga frá málinu og láta það heldur bíða nýrrar ríkisstjórnar í þeirri von að ný ríkisstjórn hafi meiri skilning á málefnum landbúnaðarins en þessi hefur haft.
    Á búvörusamningstímanum hefur fjármagn frá hinu opinbera, þ.e. frá ríkinu til landbúnaðarins verið stórskert. Landbúnaðurinn hefur orðið fyrir miklu meiri skerðingu af hendi hins opinbera en nokkur önnur atvinnugrein í landinu. Ég tel að í nýjum búvörusamningi, sem e.t.v. einhvern tímann verður gerður og vonandi verður gerður, sé það óhjákvæmilegt að opna aftur fyrir umtalsverðan útflutning á dilkakjöti. Ég tel jafnframt að það verði að endurskoða beingreiðslurnar. Beingreiðslurnar voru teknar upp sem framlag til neytenda. Í staðinn fyrir að greiða vöruna niður, svo að neytendur gætu fengið hana ódýrari voru teknar upp beinar greiðslur. Þær eru ekki styrkur til bænda, þær eru í eðli sínu náttúrlega styrkur til neytenda.
    Ég held að það þurfi að athuga í þessu sambandi hvort ekki sé rangt að markaðstengja beingreiðslurnar eins og gert hefur verið, hvort það eigi að hafa þær framleiðslutengdar. Ég held að það þurfi líka í þessu sambandi að athuga vandlega GATT-samninginn og þær skyldur sem hann leggur okkur á herðar, hvort núverandi form stenst. Við höfum heimild til grænna greiðslna og e.t.v. væri formandi að gera þessar greiðslur með einhverjum hætti grænar. Ég held að það sé ómögulegt annað en að endurmeta landbúnaðarstefnuna í heild og þá líka með tilliti til þess að íslenska landbúnaðarstefnan, sú sem fylgt hefur verið undanfarin ár, rímar engan veginn við landbúnaðarstefnu umheimsins. Við erum alveg sér á báti, við höfum farið aðra leið en löndin í kringum okkur, heldur en flest eða öll önnur lönd. Við komumst ekki hjá því að taka eftir þessu, við komumst ekki hjá því að reyna að samræma okkar landbúnaðarstefnu því sem gerist í kringum okkur. Við erum nefnilega ekki einir í heiminum. Nú steðjar ný ógn að landbúnaðinum eða ný hætta þar sem með alþjóðasamningum hefur verið opnað fyrir innflutning landbúnaðarvara sem ekki hafa verið að undanförnu fluttar til landsins. Við erum orðnir aðilar að Alþjóðaviðskiptastofnuninni og það leggur okkur skyldur á herðar.
    Ég tel að við höfum lent GATT-málinu eða aðildinni að Alþjóðaviðskiptastofnuninni mjög vel í Alþingi á milli jóla og nýárs og sú ályktun sem þar var samþykkt um fullgildingu sáttmálans eða fullgildingu aðildar að Alþjóðaviðskiptastofnuninni hafi verið eftir atvikum sú besta hugsanleg úr því sem komið var. Við styrktum stöðu hæstv. landbrh. eða landbrh. framtíðarinnar geysilega mikið með þeirri ályktun sem hér var samþykkt. Nú hefur landbrh. fullkomið vald á þessu máli ef hann vill beita því.
    Eins og fram hefur komið áður í þessari umræðu og ég hef getið um fyrr þá hefur búvörusamningurinn verið stórlega vanefndur. Það er sök núv. ríkisstjórnar. Það er á ábyrgð núv. hæstv. landbrh.
    Hv. 3. þm. Norðurl. v. var að stinga upp á því í ræðustól áðan að fara í búfjártalningu eða ásetningstalningu. Fyrrv. landbrh., Steingrímur J. Sigfússon, lagði einu sinni í það að láta fara að telja búfé landsmanna og ég held að það hafi haft frekar lítið upp á sig enda var mikið til rétt talið fram. En búfjártalning segir út af fyrir sig ekki alla söguna um framleiðslugetuna eða hver framleiðslan verður. Hv. þm. Ragnar Arnalds telur ekki lömbin innan í ánum og hann sér heldur ekki hvort þau verða kílóinu þyngri eða léttari á næsta hausti. Þannig að ég veit ekki hvort þetta hefur verulega þýðingu.
    Ég er vantrúaður á tröllasögur sem ég hef heyrt um heimaslátrun og einhverja mikla sölu fram hjá sölukerfinu. Ég held að menn hafi miklað það fyrir sér. Ég a.m.k. þekki ekki til þeirra viðskiptahátta að það sé gert í neinum stórum stíl þannig að ég held að það sé ekki eitt af vandamálunum í þessu dæmi.
    Ég tel að landbúnaður á Íslandi eigi framtíð fyrir sér og landbúnaður sé eðlilegur þáttur í þjóðarbúskapnum en þá verður að skapa honum skilyrði til eðlilegs rekstrargrundvallar. Bændafólk þarf að lifa og hafa tekjur til jafns við aðra og það á rétt á lífskjörum til jafns við aðra. Ég tel að það sé verkefni næstu ára að sjá til að svo verði. Bændur eru að endurskipuleggja félagssamtök sín og ég el þá von með mér að hin nýju samtök verði öflug og sterk brjóstvörn fyrir bændastéttina og beri gæfu til að standa á rétti hennar og standa að endurreisn stéttarinnar sem slíkrar. En ríkisvaldið verður líka að bregðast við og skapa þau skilyrði að landbúnaður verði rekinn hér með sæmilegum hætti.
    Frú forseti. Ég vil ljúka máli mínu með því að fullyrða að bændur eru líka fólk.